Þróun atvinnuleysis og kjör atvinnulausra

Miðvikudaginn 17. mars 2004, kl. 15:57:43 (5455)

2004-03-17 15:57:43# 130. lþ. 85.95 fundur 415#B þróun atvinnuleysis og kjör atvinnulausra# (umræður utan dagskrár), MÞH
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 130. lþ.

[15:57]

Magnús Þór Hafsteinsson:

Hæstv. forseti. Stjórnvöld og við sem sitjum hér á hinu háa Alþingi getum aldrei leyft okkur að sofa á verðinum gagnvart atvinnuleysisdraugnum. Hann er böl sem ber að forðast af öllum mætti. Ég hef sem þingmaður Suðurk. miklar áhyggjur af þeim draug því að atvinnuleysi er hæst á landinu á Suðurlandi og Suðurnesjum.

Þegar talið berst að atvinnuleysi og því hvernig finna megi lausnir gegn því þá hlýtur hugurinn að leita til undirstöðuatvinnuveganna sem skapa bæði gjaldeyristekjur og störf. Þar er að sjálfsögðu fyrst og fremst um að ræða sjávarútveginn. Það þarf ekki að tíunda á hinu háa Alþingi að hvert sjómannsstarf skapar sennilega a.m.k. þrjú til fjögur störf í landi. Þetta sjá allir í hendi sér sem á annað borð hafa vit á sjávarútvegi.

Fyrr í þessari viku birti norska sjávarútvegsblaðið Fiskaren athyglisverða samanburðarkönnun þar sem skoðað var hvernig fjöldi sjómanna hefur þróast hér á landi, í Noregi og í Færeyjum á árunum 1994--2002. Samkvæmt tölum Hagstofu Íslands fækkaði íslenskum sjómönnum úr tæplega 6.400 árið 1994 í rétt tæplega 5.000 árið 2002, eða um 21%. Ef fækkun sjómanna er margfölduð með fjórum þýðir þetta að störfum í landi hafi fækkað um tæplega 6.000, bara vegna fækkunar sjómanna.

Nú hafa menn og þá kannski ekki síst stjórnarliðar og þau fjárhagslegu öfl sem styðja þá til þingsetu hamrað á því að svokölluð hagræðing í sjávarútvegi hafi verið bráðnauðsynleg til að skapa stöðugleika, hagnað og vernda fiskstofna. Það er nefnilega það. Þegar við lítum til Færeyja hefur fjöldi sjómanna þar, samkvæmt könnun Fiskaren, verið stöðugur, í kringum 2.500 menn. Með trillukörlum eru þeir 3.000 talsins. Þannig hefur það verið árum saman. Fiskstofnar þar eru mjög sterkir og þar er við lýði svokallað sóknardagakerfi og Færeyingar telja að einmitt því kerfi beri að þakka að þeim hafi tekist að halda stöðugleika og hagkvæmni í sjávarútvegi sínum og jafnvægi í byggðum landsins, þvert á það sem gerst hefur hér á landi.

Hvenær ætla menn að vakna? Ég spyr bara: Hvenær ætla menn að vakna og gera sér grein fyrir því að við étum ekki prósentur, eins og einn ágætur þingmaður sagði hér áðan? Við lifum á því sem landið gefur.