Þróun atvinnuleysis og kjör atvinnulausra

Miðvikudaginn 17. mars 2004, kl. 16:02:22 (5457)

2004-03-17 16:02:22# 130. lþ. 85.95 fundur 415#B þróun atvinnuleysis og kjör atvinnulausra# (umræður utan dagskrár), BJJ
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 130. lþ.

[16:02]

Birkir J. Jónsson:

Hæstv. forseti. Um leið og ég fagna umræðunni sem hér fer fram um atvinnuleysi, sem er mjög þörf umræða, vil ég taka nokkra hluti fram. Ég hlustaði mjög vel á mál hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar þar sem hann talaði um að atvinnuleysi í tíð núverandi ríkisstjórnar hefði aukist. Vil ég minna hann á að þegar hann var ráðherra í ríkisstjórn árið 1995 fyrir Alþýðuflokkinn sáluga og þegar Alþýðuflokkurinn gekk úr ríkisstjórn og Framsfl. gekk í ríkisstjórnarsamstarf með Sjálfstfl. voru 9.000 manns atvinnulausir í landinu.

Það eru 5.000 atvinnulausir í dag þannig að atvinnuleysi hefur frá þeim tíma lækkað um helming tæplega. Það má því segja að árangur eins parts Samf. í atvinnumálum er ekki mjög mikið til að hrópa húrra fyrir.

Ég vil minna á að við búum við mjög sveigjanlega vinnulöggjöf sem þáv. félmrh., Páll Pétursson, setti á fót og við búum við mun sveigjanlegri vinnulöggjöf en í löndum Evrópusambandsins og það er viðurkennt. Í þeim samanburði --- Samf. á það til að bera Íslendinga saman við þjóðir Evrópusambandsins --- vil ég taka fram að atvinnuleysi hér á landi er margfalt minna en í löndum Evrópusambandsins.

En það ber að hafa í huga að það er ömurlegt hlutskipti að vera atvinnulaus og stjórnvöldum ber að halda úti öflugri atvinnustefnu og umfram allt að skapa skilyrði fyrir fyrirtækin í landinu til að halda úti öflugu atvinnulífi. Það hefur tekist. Fyrirtæki hér á landi eru með mjög blómlegan rekstur og standa vel að vígi hvað það varðar. Við horfum á mjög mikla uppbyggingu í íslensku atvinnulífi. Það er mikil atvinnuuppbygging á Austurlandi og það er hart að hlusta á suma samfylkingarþingmenn guma sig af því að Samf. hafi staðið með þeirri framkvæmd þegar félagar þeirra í borgarstjórn stóðu ekki að framkvæmdinni.

Við horfum á uppbyggingu á Grundartanga og fleiri stöðum. Við framsóknarmenn viljum reka öfluga atvinnustefnu samhliða uppbyggingu öflugs velferðarkerfis. Það gerum við með því að bæta umhverfi íslensks atvinnulífs, en því miður er það svo að þann skilning virðist vanta sárlega hjá ýmsum aðilum innan stjórnarandstöðu á þingi.