Þróun atvinnuleysis og kjör atvinnulausra

Miðvikudaginn 17. mars 2004, kl. 16:04:51 (5458)

2004-03-17 16:04:51# 130. lþ. 85.95 fundur 415#B þróun atvinnuleysis og kjör atvinnulausra# (umræður utan dagskrár), Flm. ÖS
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 130. lþ.

[16:04]

Össur Skarphéðinsson:

Frú forseti. Það sem stendur eftir umræðuna er að enginn hv. þm. Framsfl. hefur nefnt einu orði atvinnuleysi ungs fólks. (Gripið fram í.) Þó liggur það fyrir að hæstv. félmrh. tapaði næstum því svefni af áhyggjum í september yfir atvinnuleysi hjá ungu fólki, sem þó liggur fyrir að hefur stóraukist síðan.

Ég spurði hæstv. ráðherra: Hvað ætlar hann að gera til að bregðast við þeim vanda? Svarið var fyrst og fremst eitt, sama svar og við fáum alltaf frá Framsfl. Hann ætlar að setja enn eina nefndina, eða er búinn að setja enn eina nefndina, og það eina sem nefndirnar virðast eiga sammerkt er að hv. þm. Hjálmar Árnason situr í flestum.

Frú forseti. Það er ekki hægt að sitja alltaf á afturendanum og gera ekki neitt. Framsfl. verður að láta verkin tala í þessum efnum.

Það hlýtur að vera til marks um mistök í hagstjórninni þegar hagvöxtur er jafnríkur og hann er núna en við sjáum samt sem áður vaxandi langvarandi atvinnuleysi, vaxandi atvinnuleysi hjá konum og vaxandi atvinnuleysi hjá ungu fólki. (Gripið fram í: Stóðst þú þig vel?) Hæstv. ríkisstjórn hlýtur að þurfa að skoða vel framferði sitt að því er hagstjórnina varðar.

Hvernig má það vera að það sé góðæri og hagvöxtur en samt sem áður er atvinnuleysið að aukast? Hæstv. ráðherra sagði áðan að gert væri ráð fyrir 3,1% atvinnuleysi. Hvað sögðu þeir í upphafi?

Þegar ríkisstjórnin lagði fram frv. sitt til fjárlaga taldi hún að það yrði 2% atvinnuleysi. Því miður hefur Framsfl. mistekist í þessu og það er satt að segja nöturlegt þegar hv. þm. Framsfl. koma hingað og stæra sig af því að hafa aukið atvinnuleysisbætur. Það þurfti næstum því að reka þá til þess eins og staðar kvígur á bás.