Aukinn réttur foreldra vegna veikinda barna

Miðvikudaginn 17. mars 2004, kl. 18:10:38 (5463)

2004-03-17 18:10:38# 130. lþ. 85.5 fundur 596. mál: #A aukinn réttur foreldra vegna veikinda barna# fsp. (til munnl.) frá félmrh., félmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 130. lþ.

[18:10]

Félagsmálaráðherra (Árni Magnússon):

Hæstv. forseti. Mér þykir leitt ef hv. þm. metur það svo að ég hafi ekki svarað fyrirspurninni, ekki var það ætlun mín að hlaupa undan því verki. Samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef um starf nefndarinnar hefur þar vissulega verið fjallað um réttindi foreldra langveikra barna að mestu leyti. Hins vegar má gera ráð fyrir að þar fari saman hagsmunir foreldra þeirra barna sem eiga við langvarandi veikindi að stríða og hinna, að langmestu leyti. Eins fram kom í mínu svari þótti ástæða til að fela þeirri nefnd sem þá þegar var að störfum að fjalla um þetta efni.

Aukin réttindi á vinnumarkaði vegna veikra barna geta annars vegar falist í því að starfsmanni sé tryggður réttur til fjarveru í tiltekinn tíma frá störfum sínum og hins vegar til launaðrar fjarveru í tiltekinn tíma. Eins og við vitum er meginreglan á vinnumarkaði sú að um kaup og kjör fer eftir því sem aðilar vinnumarkaðarins semja um í kjarasamningum eða ráðningarsamningum. Nefndinni var frá upphafi ljóst að það væri fyrst og fremst á forræði samningsaðila á vinnumarkaði að auka réttindi vegna veikra barna en ekki opinberrar nefndar.

Auðvitað væri vert að kanna hugsanlega aðkomu ríkisins að þessum málum eins og hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir vekur athygli á. Komið hafa fram þau sjónarmið að þar sem langvarandi veikindi barna geta staðið yfir í töluverðan tíma gæti talist ósanngjarnt að einstakir atvinnurekendur bæru einir þann kostnað. Það gæti því talist mikilvægt að ríkið legði þar hönd á plóg með einhverjum hætti, svo sem með sambærilegum hætti og í hinu nýja fæðingaorlofskerfi eða sjúkratryggingakerfinu. Engin niðurstaða er komin í málinu en þetta er eitt af því sem rætt hefur verið í nefnd þeirri sem þeir aðilar sem ég áður taldi upp eiga aðild að. Auðvitað er mikilvægt að menn komi sér saman um þetta mikilvæga verkefni.