Veiðikort

Miðvikudaginn 17. mars 2004, kl. 18:50:01 (5481)

2004-03-17 18:50:01# 130. lþ. 85.9 fundur 705. mál: #A veiðikort# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., Fyrirspyrjandi MÁ
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 130. lþ.

[18:50]

Fyrirspyrjandi (Mörður Árnason):

Forseti. Það var eins og mig grunaði að tekjur sjóðsins hafa dregist verulega saman og er nú nánast öllum þeim sem til rannsókna geta farið veitt til rjúpnarannsókna, en ljóst að fé milli ára, frá fyrra ári til þessa, til rannsókna á rjúpu minnkar mikið. Ef á að halda þeim áfram verður að fá það fé annars staðar eins og hæstv. umhvrh. er reyndar að búa sig undir fyrir fjárlagagerðina í haust. Samkvæmt upplýsingum ráðherrans hafa þessar tekjur dregist saman um nánast fjórðung, farið úr 19,8 og 20,2, úr um 20 millj. kr. árin 2001 og 2002 í um 15 millj. kr. á næsta ári. Mér sýnist að rjúpnaveiðibannið hafi ekki verið undirbúið með þeim hætti sem eðlilegt hefði verið og verið sett í nokkurri skyndingu. Ég verð að segja það fyrir mína parta að ég er mjög farinn að efast um að þetta bann eigi að halda áfram og hugleiði eins og ýmsir aðrir hvaða aðrar ráðstafanir komi til greina þannig að aftur geti tekist sú samvinna sem ég ræddi áðan og er að mínu viti grundvöllur þess að rjúpa og fálki, þau mikilvægu íslensku dýr, geti verið í íslenskri náttúru til frambúðar.

Ég verð að segja að mér finnst hæstv. umhvrh. ekki hafa staðið sig vel í þessu máli og að þær upplýsingar sem hér koma fram, og ég þakka að sjálfsögðu fyrir, sýni að málið er að fara á verri veg en menn höfðu jafnvel ástæðu til að ætla í haust leið.