Hálkuvarnir á þjóðvegum

Miðvikudaginn 17. mars 2004, kl. 18:54:24 (5483)

2004-03-17 18:54:24# 130. lþ. 85.18 fundur 636. mál: #A hálkuvarnir á þjóðvegum# fsp. (til munnl.) frá samgrh., Fyrirspyrjandi JBjarn
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 130. lþ.

[18:54]

Fyrirspyrjandi (Jón Bjarnason):

Frú forseti. Ég beini spurningum mínum til hæstv. samgrh. um hálkuvarnir á þjóðvegum landsins:

1. Hvaða vinnureglur gilda hjá Vegagerðinni um aðgerðir til hálkuvarna á þjóðvegum landsins?

2. Hyggst ráðherra beita sér fyrir samræmdum reglum um hálkuvarnir, líkt og gilda t.d. um snjómokstur, til að auka öryggi í umferðinni á þjóðvegum landsins?

Í samgönguáætlun fyrir árið 2003--2014 er kveðið skýrt á um þau markmið að ná auknum flytjanleika í samgöngukerfinu sem taki bæði til fólks og vöru. Um öryggismál vega segir svo, með leyfi forseta:

,,Götur og vegir og umhverfi vega gert öruggara, meðal annars með endurskoðun staðla, bættri öryggishönnun, aðskilnaði bílaumferðar og óvarinna vegfarenda þar sem umferðin er mest og fækkun hættulegra staða í vegakerfinu.``

Alþingi hefur sett sér metnaðarfull markmið í umferðaröryggismálum til ársins 2012. Þar stendur að fjöldi þeirra sem slasast alvarlega eða látist í umferðarslysum verði innan við 120 í lok tímabilsins árið 2012, sem er um 40% fækkun frá síðasta tímabili og framtíðarsýnin er sú að enginn slasist í umferðarslysum á Íslandi. Vegagerðin hefur einnig sett sér metnaðarfull markmið til að ná fram auknu umferðaröryggi og sömu markmiðum og sett eru í umferðaröryggisáætluninni. Þar er m.a. lögð áhersla á öruggari vegi, betri þjónustu, skilvirkari samvinnu, betra mat á umferðaröryggi vega og fækkun svokallaðra svartra bletta, svo eitthvað sé nefnt.

Þrátt fyrir göfug markmið í þessum efnum hefur þróunin því miður gengið í öfuga átt hvað varðar banaslys. Í tillögum starfshóps um umferðaröryggisáætlun fyrir árin 2002--2012 kemur fram að banaslysum í umferð fjölgaði um 25% á sl. tíu ára tímabili og þá hefur þróunin auk þess orðið sú að banaslysum í dreifbýli hefur fjölgað en aftur á móti fækkað í þéttbýli.

Í máli mínu hér vil ég draga athyglina að slysum vegna hálku á þjóðvegum landsins. Ég hef ekki tölfræðilegar upplýsingar um dauðsföll, örkuml, langvarandi baráttu við afleiðingar slysa, eignatjón í farartækjum og vörum vegna hálkuslysa. En umferðarslys í hálku verða oft mjög alvarleg þar sem bifreið lætur ekki að stjórn og lendir framan á bíl sem kemur á móti og oft er mikill stærðarmunur og því afleiðingar alvarlegar. Ég þarf ekki að nefna fréttir af hálkuslysum á Vestfjörðum, Borgarfirði, Snæfellsnesi, Ströndum, Húnavatnssýslum, Suðurlandi, reyndar um allt land. Og við minnumst nýlegra sorglegra atvika af banaslysum vegna hálku í umferðinni.

Frú forseti. Við viljum komast leiðar okkar og við þekkjum snjómokstursreglur og högum ferðum okkar með tilliti til þeirra. En um hálku vitum við oft lítið, enda er hún breytileg á langri ferð. Við viljum líka komast leiðar okkar þó að hálka eða hálkukaflar séu á vegum, en okkur eru engan veginn kunnar reglur Vegagerðarinnar um hálkuvarnir og stundum finnum við reyndar að viðbrögð eru misjöfn eftir landsvæðum og vegaköflum.

Frú forseti. Því legg ég spurningar til hæstv. samgrh. um hálku og hálkuvarnir og samræmdar vinnureglur þar að lútandi.