Hálkuvarnir á þjóðvegum

Miðvikudaginn 17. mars 2004, kl. 18:57:52 (5484)

2004-03-17 18:57:52# 130. lþ. 85.18 fundur 636. mál: #A hálkuvarnir á þjóðvegum# fsp. (til munnl.) frá samgrh., samgrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 130. lþ.

[18:57]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Jón Bjarnason hefur lagt fyrir mig eftirfarandi spurningar:

,,Hvaða vinnureglur gilda hjá Vegagerðinni um aðgerðir til hálkuvarna á þjóðvegum landsins?

Hyggst ráðherra beita sér fyrir samræmdum reglum um hálkuvarnir, líkt og gilda t.d. um snjómokstur, til að auka öryggi í umferðinni á þjóðvegum landsins?``

Svar mitt er svohljóðandi:

Reglur um snjómokstur á þjóðvegum sem Vegagerðin setur og vinnur eftir eru staðfestar af samgrn. Í reglunum er kveðið á um fjölda mokstursdaga á viku hverri á einstökum leiðum. Hjá Vegagerðinni gilda ákveðnir gæðastaðlar um þjónustustig á einstökum leiðum þar sem tekið er mið af tíðni mokstursdaga, umferðarþunga og hvort um sé að ræða stuttar tengileiðir milli þéttbýlisstaða, langleiðir á láglendi eða fjallvegi. Í þjónustustaðlinum er gert ráð fyrir fimm þjónustuflokkum með mismunandi þjónustustigum.

Þjónustuflokkur eitt. Um hann segir að hann sé í hæsta gæðaflokki og er miðað við að vegur skuli hálkuvarinn hvenær sem hálka kemur upp eða hætta sé á að hálka geti myndast. Í fyrsta þjónustuflokki eru um 100 km af vegakerfinu, þ.e. umferðarmestu vegirnir í nágrenni og út frá höfuðborgarsvæðinu.

Þjónustuflokkur tvö. Gert er ráð fyrir að vegurinn skuli hálkuvarinn á varasömum stöðum eða við varasamar aðstæður og aðstæður þar sem flughálka er til staðar. Í þessum flokki eru um 450 km.

Þjónustuflokkur þrjú. Þar er gert ráð fyrir hálkuvörnum á mjög varasömum stöðum svo og á varasömum stöðum eða við varasamar aðstæður þar sem flughálka er til staðar. Í þessum flokki eru um 1.450 km.

[19:00]

Þá kemur þjónustuflokkur fjögur. Þar er gert ráð fyrir hálkuvörnum þegar flughálka er á mjög varasömum stöðum eða við varasamar aðstæður. Í þessum flokki eru 2070 km.

Þjónustuflokkur fimm. Þar er gert ráð fyrir hálkuvörnum þar sem sérstök ástæða er til á mjög varasömum stöðum eða þar sem aðstæður eru mjög slæmar og flughálka hefur myndast. Í þessum flokki eru um 650 km.

Á öðrum vegum er engin föst vetrarþjónusta, hvorki snjómokstur né hálkuvarnir.

Þá spyr þingmaðurinn: ,,Hyggst ráðherra beita sér fyrir samræmdum reglum um hálkuvarnir, líkt og gilda um t.d. snjómokstur, til að auka öryggi í umferðinni á þjóðvegum landsins?``

Svar mitt er þetta:

Eins og fram kemur í umfjöllun um fyrri spurninguna eru í notkun samræmdar reglur um hálkuvarnir hjá Vegagerðinni. Þær eru til staðar. Reglur þessar eru hluti af þjónustustaðli um vetrarþjónustu. Staðall þessi þarf að vera í stöðugri endurskoðun en eðlilega verður hann að taka mið af því fjármagni sem til ráðstöfunar er í fjárlögum og á vegáætlun, eins og eðlilegt verður að teljast. Ljóst er að verði fé til þjónustu af þessu tagi aukið mun það koma niður á framkvæmdafjármagninu miðað við að ramminn um fjármagn til vegagerðar sé fastur. Það er ljóst að vaxandi þörf er fyrir hálkuvarnir og vetrarþjónustu og jafnframt að auka þarf fjármuni til vetrarþjónustu í samræmi við aukna umferð.

Gera verður ráð fyrir að við endurskoðun á samgönguáætlun í haust verði fjallað um það í þinginu með hvaða hætti verði staðið að málum. Með skipulegri vetrarþjónustu sem hefur aukist samhliða aukinni umferð og öflugri upplýsingaþjónustu Vegagerðarinnar á heimasíðu, í textavarpi og með símaþjónustu hefur þjónusta við vegfarendur stórbatnað. Með betri þjónustu fer ekki á milli mála að öryggi á vegum ætti að hafa aukist. Engu að síður er alveg ljóst að þær reglur sem Vegagerðin vinnur eftir þurfa að vera í stöðugri endurskoðun. Lögð er rík áhersla á það hjá Vegagerðinni að standa sem best að þeirri mikilvægu þjónustu.