Áætlunarflug milli Sauðárkróks og Reykjavíkur

Miðvikudaginn 17. mars 2004, kl. 19:12:00 (5489)

2004-03-17 19:12:00# 130. lþ. 85.19 fundur 701. mál: #A áætlunarflug milli Sauðárkróks og Reykjavíkur# fsp. (til munnl.) frá samgrh., samgrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 130. lþ.

[19:12]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson):

Virðulegur forseti. Hv. þm. spyr um hvernig ráðherra hyggist bregðast við þeirri fyrirætlan Íslandsflugs að hætta áætlunarflugi milli Sauðárkróks og Reykjavíkur í maí að óbreyttum rekstrarskilyrðum.

Áður en fyrirspurninni er svarað er nauðsynlegt að gera grein fyrir aðstæðunum í þessu tilviki. Það hefur verið brugðið til þessa ráðs að bjóða út flug milli staða, aðallega til jaðarbyggða þar sem samgöngur eru mjög erfiðar. Dæmi um það er útboð á flugi milli Reykjavíkur og Gjögurs, vegna ystu byggða Strandasýslunnar. Hið sama á við um Grímsey, flug frá Akureyri til Grímseyjar, frá Akureyri til Þórshafnar og Vopnafjarðar og sömuleiðis, eins og kom fram hjá hv. þm., flug milli Bíldudals og Ísafjarðar yfir vetrartímann þegar allt er lokað og milli Reykjavíkur og Hafnar í Hornafirði.

Hv. þingmenn verða að gera sér grein fyrir því að í þeim byggðum sem ég nefndi eru aðrar aðstæður en á Sauðárkróki. Hins vegar er ljóst að um samgöngur við Siglufjörð gilda önnur lögmál. Þangað er lengra að fara. Þess vegna tók samgrn. ákvörðun um að gera samning um það við sérleyfishafa sem ekur milli Siglufjarðar og Sauðárkróksflugvallar að hann fengi verulega háar styrkfjárhæðir til að halda úti sérleyfisferðum milli flugvallar og Siglufjarðar í tengslum við áætlunarflug Íslandsflugs. Við töldum eðlilegt að koma þannig til móts við aðila, að þannig gæti flugfélagið verðlagt þjónustu sína í samræmi við þá heildarflutninga og kostnað sem farþegarnir þurfa að greiða. Þetta er myndin sem blasir við.

Að sjálfsögðu verður skoðað hvernig eðlilegt er að standa að þessu í framtíðinni, hvort gerðir verði aðrir samningar við sérleyfishafann eða brugðist við á annan hátt. Á þessari stundu tel ég ekki ráðlegt að gefa neinar yfirlýsingar um framhaldið. Það kann vel að vera að aðrir flugrekstraraðilar sjái sér þann leik á borði að taka við þessari þjónustu. Ég tel ekki rétt að afskrifa það þó að sá flugrekstraraðili sem flogið hefur þarna milli, Íslandsflug, hafi tilkynnt að félagið muni hætta því flugi í maí. Ég held að hv. þingmenn hljóti að átta sig á því að það verður að skoða þetta mál í ljósi allra þeirra aðstæðna.

Á Höfn í Hornafirði eru aðstæður t.d. þær að þangað er tiltölulega löng vegalengd. Gert hefur verið ráð fyrir að styrkur vegna flugs milli Reykjavíkur og Hafnar tengist því að þar er afar mikilvægt að sinna sjúkraflutningum með flugi, vegna þessarar löngu leiðar. Sjúkrahúsþjónusta er ekki í því sveitarfélagi.

Samgrn. mun að sjálfsögðu fara yfir þetta mál og huga að því hvernig eðlilegt væri að koma til móts við þessar byggðir. Ég tel að það hafi verið gert mjög myndarlega. Þess vegna veldur það vonbrigðum að Íslandsflug skuli áforma að hætta að fljúga til Sauðárkróks. Það er alveg augljóst að það dregur úr mikilvægri þjónustu. Ég tek undir með hv. fyrirspyrjanda varðandi það hve æskilegt er að halda þar úti flugi, svo ekki sé talað um að nýta þau mikilvægu og ágætu flugvallarmannvirki sem á Sauðárkróki eru.