Starfsskilyrði héraðsdómstólanna

Fimmtudaginn 18. mars 2004, kl. 10:43:12 (5497)

2004-03-18 10:43:12# 130. lþ. 86.95 fundur 420#B starfsskilyrði héraðsdómstólanna# (umræður utan dagskrár), LB
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 130. lþ.

[10:43]

Lúðvík Bergvinsson:

Virðulegi forseti. Ég skildi niðurlagsorð hæstv. ráðherra þannig að hann mundi beita sér fyrir auknum fjárveitingum til dómstólanna í landinu. Ég skildi það þannig að hæstv. ráðherra mundi reyna að tryggja þeim það umhverfi að þeir geti starfað eins og lög kveða á um.

Það er hins vegar dálítið vandmeðfarið að taka þátt í þessari umræðu þar sem annars vegar eru fullyrðingar um að dómstólar standi frammi fyrir því að geta ekki sinnt þeim störfum sem þeir eiga að sinna og hins vegar yfirlýsingar hæstv. ráðherra um að allt sé í þokkalegu standi. Fyrir liggur þó, og ég held að það sé alveg ómótmælt, að launakostnaður og húsaleigukostnaður dómstólanna í dag er um það bil 92% af fjárveitingum þeirra. Það sjá allir að þau 8% sem standa út af eru ekki mikið til þess að klára allt annað, þar á meðal hita, rafmagn, síma, pappír, endurmenntun, ferðalög, sérfræðiþjónustu, útgáfumál, tölvuupplýsingamál, tækjakaup og hvaðeina sem fellur til þannig að flest bendir til að verulegar fjárhæðir vanti til að dómstólar geti sinnt þeim skyldum sem á þeim hvíla.

Ég er líka sannfærður um að það er mikill vilji í þinginu til að tryggja dómstólum það svigrúm og það fjárhagslega umhverfi sem tryggir þeim að þeir geti starfað eins og lög kveða á um. Því er það fyrst og fremst spurning um hvort hæstv. dómsmrh. sé tilbúinn að beita sér sem skyldi í þessum málum og eins það að forgangsraða þannig að dómstólar sem eru ein af undirstöðum skipulags okkar hér á landi, einn af þremur þáttum ríkisvaldsins, fái það umhverfi sem þeir þurfa. Ég er alveg sannfærður um að vilji þingsins stendur til þess. Spurningin er fyrst og fremst: Er hæstv. dómsmrh. tilbúinn að beita sér fyrir því og er hann tilbúinn að forgangsraða á þann hátt? Það á eftir að koma í ljós.