Starfsskilyrði héraðsdómstólanna

Fimmtudaginn 18. mars 2004, kl. 10:52:30 (5501)

2004-03-18 10:52:30# 130. lþ. 86.95 fundur 420#B starfsskilyrði héraðsdómstólanna# (umræður utan dagskrár), BjarnB
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 130. lþ.

[10:52]

Bjarni Benediktsson:

Virðulegi forseti. Öll umræða um starfsskilyrði héraðsdómstólanna í landinu og dómsmál almennt skiptir landsmenn miklu máli. Það er hlutverk okkar á hinu háa Alþingi að setja reglur um réttarfar í landinu og jafnframt að tryggja fjármagn til þess að starfsemi dómstólanna geti staðið undir þeim kröfum sem gerðar eru til þeirra.

Í fréttatilkynningu frá dómstólaráði frá 26. janúar sl. segir að síðustu fjögur árin hafi héraðsdómstólarnir verið reknir með verulegum halla.

Hver er staðreyndin varðandi þetta mál? Með fjáraukalögum árið 2002 var ákveðið að veita 48,4 millj. kr. framlagi til héraðsdómstólanna og var tekið fram í nál. meiri hluta fjárln. að framlaginu væri ætlað að mæta uppsöfnuðum rekstrarhalla svo ekki þyrfti að koma til samdráttar í starfsmannahaldi.

Uppsafnaður halli héraðsdómstólanna í árslok 2003 er 37,4 millj. kr. og þar af eru 30 millj. kr. vegna ársins 2003. Með öðrum orðum, allur uppsafnaður rekstrarvandi héraðsdómstólanna er frá síðasta ári. Meðalmálsmeðferðartími í munnlega fluttum einkamálum lengdist um 15 daga á síðasta ári. Þrátt fyrir að þetta sé óæskileg þróun er réttarvernd almennings engan veginn í hættu. Sá sem þingfesti mál snemma á þessu ári getur gert ráð fyrir því að fá dóm síðar á árinu og verði málinu áfrýjað fæst endanleg niðurstaða í Hæstarétti 14--16 mánuðum eftir þingfestingu fyrir héraði. Allir sem koma að rekstri dómsmála eru sammála um að þetta er ásættanlegur málshraði.

Þau skilaboð berast frá dómstólaráði að afkastageta starfsmanna dómstólanna sé fullnýtt og ef ekki komi til frekari fjárveitinga muni meðferð dómstóla dragast miðað við það sem tíðkast hefur. Það er full ástæða til að taka þessum ábendingum af fullri alvöru, en í ljósi þess sem ég hef rakið má spyrja hvort ekki sé fulldjúpt í árinni tekið á félagsfundi Dómarafélags Íslands 23. febrúar sl. þar sem ályktað var á þann veg að réttarvernd almennings væri stefnt í hættu.

Virðulegi forseti. Það er enginn vafi á því að með breytingum á réttarfarslögum má auka hagræðingu við dómstörf. Verkefnið sem við stöndum frammi fyrir felst í því að kanna slíkar leiðir og jafnframt að leggja yfirvegað mat á fjárhagslega stöðu dómstólanna. Þannig tryggjum við réttaröryggi borgaranna til lengri tíma.