Starfsskilyrði héraðsdómstólanna

Fimmtudaginn 18. mars 2004, kl. 10:54:56 (5502)

2004-03-18 10:54:56# 130. lþ. 86.95 fundur 420#B starfsskilyrði héraðsdómstólanna# (umræður utan dagskrár), HHj
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 130. lþ.

[10:54]

Helgi Hjörvar:

Frú forseti. Það er einkennilegur málflutningur af hálfu hæstv. ráðherra og hv. þm. Bjarna Benediktssonar að láta sem svo að eðlileg skipan sé að verið sé æ ofan í æ að bjarga fjárhag dómstólanna á fjáraukalögum og einkennilegt að hv. fjárlaganefndarmaður Bjarni Benediktsson skuli láta að því liggja.

Auðvitað eiga fjárlögin að vera með þeim hætti hverju sinni að dómstólunum séu búin sæmileg skilyrði. Ástandið nú þarf ekki að koma neinum á óvart. Það kom fram við undirbúning fjárlaga í haust. Við í fjárln. höfðum frumkvæði að því að kalla dómstólaráð til fundar og þeir gerðu grein fyrir stöðunni. Þeir sögðu okkur frá því að síðast þegar þeir vöktu athygli Alþingis á þeirri stöðu hefðu þeir fengið tiltal úr ráðuneytinu, trúlega barðir leiftursnöggt í höfuðið með reglustiku ef maður þekkir stjórnarhættina hér rétt.

Ráðherra getur ekki komið hingað og látið eins og vandinn sé ekki fyrir hendi. Hann hefur sjálfur játað vandann í janúar, sagði bara að athygli hans hefði verið vakin of seint á honum. Hinn 27. janúar lofaði hann tillögum á næstu dögum. Næstu dagar liðu og mánuður leið og þá loks var þolinmæði dómenda þrotin.

Það er ekki gamanmál þegar Dómarafélagið kemur saman og ályktar með jafnalvarlegum hætti og raun ber vitni. Dómarar landsins eru ábyrgir og hæfir embættismenn sem álykta ekki með þessum hætti að gamni sínu heldur einvörðungu vegna þess að rík ástæða er til og þeir sjá ekki aðrar leiðir.

Ég vil, frú forseti, taka eindregið undir efasemdir hv. þm. Jónínu Bjartmarz um að hér sé sjálfstæði dómstólanna tryggt, því það er sannarlega til vansa og trúlega vandfundið í nokkru sæmilegu lýðræðisríki að hæstv. dómsmrh. skuli telja sér sóma að því að standa í deilum af því tagi sem hann hefur átt í við dómendur landsins.