Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):
Hæstv. forseti. Að fengnu leyfi hv. Alþingis mun ég hafa þann hátt á að mæla samhliða fyrir þremur frv. Frumvörp þessi eru nátengd og segja má að tvö hin síðari séu til fyllingar því sem fyrst er í röðinni. Ég mun fyrst fjalla um frv. til laga um breytingu á raforkulögum, nr. 65/2003. Að því loknu fjalla ég um frv. til laga um stofnun Landsnets hf. og að lokum vík ég að frv. um jöfnun kostnaðar við dreifingu raforku.
Hæstv. forseti. Eins og kunnugt er taka hin nýju raforkulög sem samþykkt voru hinn 15. mars 2003 til leyfisveitinga, framleiðslu, sölu, dreifingar og flutnings á raforku auk eftirlits með raforkustarfsemi.
Samkvæmt bráðabirgðaákvæði VIII í lögunum var gildistöku III. kafla laganna sem fjallar um flutning raforku frestað til 1. júlí 2004. Fram að þeim tíma gildir bráðabirgðatilhögun um flutning raforku sem nánar er lýst í fyrrnefndu bráðabirgðaákvæði.
Í samræmi við bráðabirgðaákvæði VII í lögunum skipaði iðnrh. nefnd sem ætlað var að gera tillögur um fyrirkomulag flutnings raforku, m.a. um stærð flutningskerfisins og hvernig rekstri þess og kerfisstjórnun skuli háttað þannig að öryggi, skilvirkni og hagkvæmni kerfisins verði sem best tryggð. Þá var nefndinni og falið að móta tillögur um með hvaða hætti jafna eigi kostnað vegna flutnings og dreifingar raforku.
Í nefndina voru skipaðir fulltrúar allra þingflokka, Sambands ísl. sveitarfélaga, Samorku, launþegasamtaka og Neytendasamtakanna auk fulltrúa frá iðn.- og fjmrn.
Auk hinna 19 skipuðu fulltrúa sátu tveir fulltrúar orkufyrirtækja fundi nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúar. Nefndin var skipuð í júní 2003 og lauk störfum fyrri hluta febrúar sl.
Frumvarp það sem hér liggur fyrir er niðurstaða af vinnu nefndarinnar en eins og um getur í raforkulögum bar nefndinni að skila áliti sínu sem drögum að frv. um breytingu á raforkulögum. Er hér m.a. að finna tillögur um breytingar á ákvæðum III. kafla laganna um flutning raforku. Nefndin hefur einnig fjallað um uppbyggingu gjaldskrár dreifiveitna og hvernig standa skuli að jöfnun kostnaðar vegna flutnings og dreifingar raforku í samræmi við bráðabirgðaákvæði VII í raforkulögum.
Hæstv. forseti. Tillögur frv. eru á þann veg að flutningskerfi raforku landsins nái til þeirra háspennulína og tengivirkja sem nú eru á 66 kV spennu eða hærri. Auk þess miðist flutningskerfið við tiltekna afhendingarstaði þannig að allar dreifiveitur sem nú starfa í landinu verði tengdar flutningskerfinu. Þó er ekki gert ráð fyrir að flutningskerfið nái inn fyrir mörk þéttbýlis þar sem starfandi er dreifiveita er veitir notendum eðlilega þjónustu. Í samræmi við þetta er lagt til að flutningslínur sem liggja að veitukerfi Vestmannaeyja, Rafveitu Reyðarfjarðar og Orkuveitu Húsavíkur tilheyri flutningskerfinu. Samkvæmt þessari tillögu verður raforka frá flutningskerfinu afhent til dreifiveitna á 55 stöðum.
Lagt er til að sett verði á fót samninganefnd skipuð fulltrúum eigenda fyrirtækjanna sem leggja eignir til flutningsfyrirtækisins. Ef samkomulag næst í samninganefndinni er gert ráð fyrir að eigendur flutningsvirkjanna yfirtaki rekstur hlutafélagsins og eignist hlut í samræmi við eignarhluti sína á grundvelli matsins. Ef ekki næst samkomulag um verðmat flutningsvirkja geta eigendur þeirra vísað málinu til lögskipaðrar matsnefndar. Þegar málið liggur fyrir munu þeir sem leggja eignir til félagsins taka við rekstri þess.
Í frv. er gerð tillaga um að flutningsfyrirtækið afhendi dreifiveitum á sama verði raforku á öllum sölupunktum. Sömuleiðis er gerð tillaga um að allar virkjanir sem selja raforku á markaði greiði til flutnings- og dreifikerfisins í samræmi við selda orku án tillits til stærðar. Framleiðsla virkjana til eigin þarfa, búrekstrar og heimilisnota verði þó undanskilin. Aðeins mæld og seld orka kemur til uppgjörs milli aðila.
Lagt er til að sérstök flutningsgjaldskrá verði fyrir stórnotendur raforku en það eru þeir sem nota meira en 14 mW og hafa a.m.k. 8000 stunda nýtingu á ári. Sama gjaldskrá verði fyrir alla innmötun virkjana á raforku og úttekt stórnotenda. Þá er gert ráð fyrir að umframkostnaður nýrra virkjana eða stórnotenda verði gerður upp sérstaklega. Sama eigi við ef tenging nýrra virkjana eða notenda leiði til hagkvæmni fyrir flutningskerfið í heild.
Í frv. er lagt til að lögbundin verði sú meginreglna að hver dreifiveita hafi eina gjaldskrá. Þó verði heimilt að sækja sérstaklega um gjaldskrá fyrir dreifbýlissvæði enda geti viðkomandi dreifiveita sýnt fram á hærri kostnað við dreifingu raforku í dreifbýli. Orkustofnun verði falið að leggja mat á þörf fyrir sérstakra gjaldskrá fyrir dreifbýli og ákveða mörk gjaldskrársvæða.
Hæstv. forseti. Arðsemi raforkuflutningsfyrirtækis og dreifiveitna hefur verið mjög til umræðu að undanförnu, m.a. vegna fyrirvara er nokkrir nefndarmenn í 19 manna nefndinni höfðu á arðsemiskröfum flutningsfyrirtækisins. Vitaskuld þarf að vera arðsemi af starfsemi þessara fyrirtækja þó svo þau búi við náttúrulega einokun. Raforkuflutningur og dreifing eru æðakerfi nútímatækniþjóðfélags sem endurnýja þarf og efla til að mæta auknum kröfum samfélagsins. Fyrirtæki í þessari starfsemi þurfa því að skila hagnaði þó svo hann þurfi ekki að vera sambærilegur við þá arðsemi sem gerð er til fyrirtækja í samkeppnisrekstri.
Í frv. er lagt til að í upphafi miðist tekjumörk flutningsfyrirtækisins og dreifiveitna við helming af arðsemi markaðsávöxtunar óverðtryggðra ríkisskuldabréfa til fimm ára eða sambærilegra verðbréfa. Arðsemisviðmiðunin hækki á fimm ára tímabili í þá ávöxtun sem kveðið er á um í gildandi lögum. Með þessu er stefnt að því að leyfa þessum fyrirtækjum að njóta hluta þeirrar hagræðingar sem þau eiga að ná innan þess tekjuramma sem þeim er settur án þess að það muni leiða til hækkunar á gjaldi til flutnings og dreifingar raforku.
Samkvæmt gildandi raforkulögum á sá kafli þeirra sem fjallar um flutning raforku að koma til framkvæmda 1. júlí 2004. Í frv. er lagt til að hið nýja fyrirkomulag sem nefndin leggur til komi til framkvæmda 1. jan. 2005. Það bráðabirgðafyrirkomulag sem gilt hefur verði því framlengt til loka þessa árs. Verði frv. þetta að lögum á vorþingi er augljóst að nokkurn tíma þarf til að meta núverandi flutningsvirki og vinna að stofnun flutningsfyrirtækisins.
Vík ég nú að frv. til laga um stofnun Landsnets hf. sem er 737. mál þingsins. Með frv. þessu er lagt til að iðnrh. beiti sér fyrir stofnun hlutafélags, Landsnets hf., er hafi hlutverk flutningsfyrirtækisins er starfi á grunni III. kafla raforkulaga, nr. 65/2003.
Í frv. til breytinga á raforkulögum sem fyrr er vikið að er gert ráð fyrir að stofnað verði hlutafélag í eigu ríkisins er hafi það hlutverk að annast flutning raforku og kerfisstjórnun í raforkukerfinu á grundvelli ákvæða III. kafla raforkulaga. Gert er ráð fyrir að fyrirtækið verði stofnað af ríkinu en verði að loknum undirbúningstíma starfseminnar og að fenginni niðurstöðu um verðmæti flutningsvirkja alfarið í eigu þeirra fyrirtækja er nú eiga flutningsvirki er falla undir 6. tölul. 3. gr. raforkulaga.
Ástæða þess að þessi leið er lögð til við stofnun fyrirtækisins er sú að í ferli því við mat flutningsvirkja sem lagt er til í frv. til breytinga á raforkulögum, er nauðsynlegt að sá lögaðili sem gegna mun hlutverki flutningsfyrirtækisins sé til staðar. Lagt er til að lögaðili þessi eignist eða hafi til umráða með leigu öll flutningsvirki er teljast munu til flutningskerfisins. Nauðsynlegt er að Landsnet hf. hafi þegar verið stofnað þegar unnið er að undirbúningi fyrir starfsemi flutningsfyrirtækisins.
Í frv. til breytinga á raforkulögum, sem fyrr er nefnt, er lagt til að eigendur þeirra flutningsvirkja sem falla undir skilgreiningu á flutningsvirki skv. 6. tölul. 3. gr. raforkulaga tilnefni menn í samninganefnd er hafi það hlutverk að koma sér saman um verðmæti flutningsvirkja. Niðurstaða nefndarinnar eigi síðar að marka innbyrðis eignarhlutföll milli þeirra sem kjósa að leggja flutningsvirki sín inn í flutningsfyrirtækið Landsnet hf. Niðurstaða verðmats eignanna mun einnig marka grunn að gjaldskrá fyrir Landsnet hf.
Fari svo að ekki náist niðurstaða um öll flutningsvirki í samninganefndinni er gert ráð fyrir að heimilt verði að leita úrlausnar hjá sérstakri matsnefnd sem starfi á svipuðum grunni og matsnefnd eignarnámsbóta. Ljóst er að vegna aðildar fyrir matsnefndinni er nauðsynlegt að Landsnet hf. hafi þegar verið stofnað. Rétt er að ítreka að þó að Landsnet hf. sé stofnað af ríkinu mun fyrirtækið aðeins verða í eigu ríkisins þar til endanleg niðurstaða fæst um verðmæti allra flutningsvirkja er undir það heyra. Það er hins vegar nauðsynlegt að standa svona að stofnun fyrirtækisins vegna þess að það mun koma fram gagnvart núverandi eigendum flutningsvirkja fyrir matsnefnd flutningsvirkja og fyrir dómstólum ef ágreiningur um verðmæti flutningsvirkja verður borinn undir þá.
Í frv. er kveðið á um hlutverk Landsnets hf. og er það hlutverk í samræmi við ákvæði raforkulaga um hlutverk flutningsfyrirtækis og kerfisstjóra. Kveðið er á um að heimild sé til staðar til þess að selja allt hlutafé ríkisins í Landsneti hf. Heimildin er takmörkuð við það að kaupendur hlutafjár geti einungis verið eigendur flutningsvirkja sem falla undir skilgreiningu 6. tölul. 3. gr. raforkulaga á flutningskerfinu. Er þessi heimild í samræmi við það bráðabirgðahlutverk sem ríkinu er ætlað sem eiganda Landsnets hf. við undirbúning og upphaf starfsemi. Gert er ráð fyrir því að það fé sem ríkið þarf að leggja til félagsins í upphafi skili sér til baka í ríkissjóð þegar félagið er framselt til þeirra aðila sem verða endanlegir eigendur.
Athygli er vakin á því að samkvæmt frv. verður eigendum hlutafjár til loka árs 2011 einungis heimilt að selja hlutafé sitt til annarra hluthafa í flutningsfyrirtækinu en ekki til aðila utan þess.
Í frv. er kveðið á um að skattskyldu Landsnets hf. skuli skipa með sama hætti og annarra orkufyrirtækja. Ástæða þess að þetta er gert með þessum hætti er að líklegt er að á næstunni verði breytingar á skattskyldu orkufyrirtækja. Eðlilegt þótti við samningu frv. að skattskylda Landsnets hf. ákvæðist í samræmi við það hvernig skattskyldu raforkufyrirtækja almennt verður háttað í framtíðinni.
Vert er að ítreka það að ekki er ætlunin að ríkið sjái til framtíðar um rekstur Landsnets hf. Gert er ráð fyrir að eftir stofnun hlutafélagsins Landsnets hf. skipi iðnrh. stjórn þriggja manna til bráðabirgða. Hlutverk hennar verði að koma fram fyrir hönd félagsins við mat á verðmæti flutningsvirkja auk annarra lögbundinna stjórnarstarfa samkvæmt lögum um hlutafélög. Þá er gert ráð fyrir að stjórnin sitji þar til endanleg niðurstaða fæst um verðmæti flutningsvirkja og þar með um eignarhlutföll hluthafa í félaginu. Þeir núverandi eigendur flutningsvirkja sem kjósa að leggja flutningsvirki sín inn í Landsnet hf. sem hlutafé munu síðan taka við stjórn félagsins.
Hæstv. forseti. Ég sný mér þá að frv. til laga um jöfnun kostnaðar við dreifingu raforku sem er 747. mál þingsins. Í frv. er að finna tillögur sem lúta að því hvernig staðið verði að jöfnun dreifingarkostnaðar raforku. Í 9. gr. frv. til laga um breytingu á raforkulögum er lagt til að heimilt verði, að uppfylltum vissum skilyrðum, að hafa í gildi sérstaka gjaldskrá fyrir raforkudreifingu á dreifbýlissvæðum þar sem kostnaður við dreifingu raforku er sannanlega hærri en í þéttbýli. Í frv. þessu er að finna reglur um það með hvaða hætti kostnaði við dreifingu raforku verður jafnað ef ákveðið er á fjárlögum að veita fé til þess verkefnis. (Gripið fram í.) Það er alltaf ákvörðun Alþingis hverju sinni hvernig fjárlög líta út.
Jöfnun dreifingarkostnaðar raforku verður samkvæmt frv. þannig háttað að jöfnun mun aðeins beinast að þeim svæðum þar sem dreifiveitur hafa sýnt fram á að dreifingarkostnaður er hærri en í þéttbýli. Miðað er við að raforkukaupendur á dreifbýlisgjaldskrársvæðum þurfi ekki að greiða hærra gjald fyrir dreifingu raforku en sem nemur hæsta gjaldi almennra gjaldskráa dreifiveitna eftir að tillit hefur verið tekið til niðurgreiðslna.
Eins og fram hefur komið er gert ráð fyrir að ákveðið verði á fjárlögum hverju sinni hvort fé verði varið til þess að greiða niður dreifingarkostnað raforku. Með frv. þessu fylgir eins og endranær kostnaðarumsögn fjmrn. Samkvæmt henni og gögnum Orkustofnunar er áætlað að árlegur kostnaður við jöfnun dreifingarkostnaðar verði 230 millj. kr.
Vert er að geta þess að tekið er skýrt fram í frv. að það fé sem ákveðið er til niðurgreiðslna á dreifingarkostnaði raforku verður ekki eign viðkomandi dreifiveitu. Ber dreifiveitum að láta féð renna til þess að lækka dreifingarkostnað hjá almennum raforkunotendum á dreifbýlisgjaldskrársvæðum. Gert er ráð fyrir að Orkustofnun fari með framkvæmd laganna og hafi eftirlit með að eftir þeim sé farið. Er það í samræmi við nýja skipan raforkumála þar sem Orkustofnun fær breitt og viðamikið hlutverk við stjórnsýslu raforkumála.
Sú jöfnun dreifingarkostnaðar raforku sem felst í frv. er mikilvæg til þess að jafna búsetuskilyrði í landinu. Rétt er að geta þess að víðtæk samstaða var innan hinnar svokölluðu 19 manna nefndar um að haga jöfnun dreifingarkostnaðar á dýrustu svæðunum með þessum hætti.
Hæstv. forseti. Ég hef nú rakið efni þeirra þriggja frv. um raforkumálefni sem ég hef lagt fyrir Alþingi. Ég tel ekki ástæðu til þess að rekja nánar efni frumvarpanna að svo stöddu og vænti þess að þeim verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. iðnn.