Ásta R. Jóhannesdóttir (andsvar):
Virðulegi forseti. Hér er til umræðu frv. sem er til komið vegna tilskipunar frá Evrópusambandinu og ég vil spyrja hæstv. ráðherra: Hvernig stendur á því að ríkisstjórnin, í þessu tilviki iðnrn., fór ekki í það að fylgjast með því hvað var að gerast í Evrópu þegar vinna við þessa tilskipun var hafin þannig að við gætum fengið undanþágu frá henni? Þetta er mál sem ekki varðar Ísland af því að við erum ekki hluti af innri markaði í raforkumálum. Hvernig stendur á því að við fengum ekki undanþágu sem átti við sérstöðu okkar í málinu? Það gerði Lúxemborg t.d. og fékk undanþágu sem sneri að þeim, en við sitjum uppi með þessa tilskipun án nokkurrar undanþágu og verðum að innleiða þessi lög.
Vegna þess sem kemur fram í 3. gr. frv. um jöfnun kostnaðar við dreifingu á raforku, þar sem það hefur komið fram hjá þeim sem gerst þekkja að þetta muni fela í sér hækkun á heimilin í landinu og m.a. muni það bitna á höfuðborginni og höfuðborgarbúum, en í 3. gr. stendur: ,,Ef ákveðið er í fjárlögum að ráðstafa fé til að lækka kostnað almennra notenda vegna dreifingar raforku skal hann einungis greiddur niður á svæðum ...`` o.s.frv., þá langar mig að spyrja hæstv. ráðherra:
Er það eitthvert ,,ef`` að jöfnunin komi úr ríkissjóði ef jafnað verður út á landsbyggðina? Ég hélt að það væri alveg ákveðið að það kæmi úr ríkissjóði.