Raforkulög

Fimmtudaginn 18. mars 2004, kl. 11:28:08 (5510)

2004-03-18 11:28:08# 130. lþ. 86.1 fundur 740. mál: #A raforkulög# (flutningur raforku, gjaldskrár o.fl.) frv., 737. mál: #A Landsnet hf.# frv., 747. mál: #A jöfnun kostnaðar við dreifingu raforku# frv., iðnrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 130. lþ.

[11:28]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er í raun mjög gott að fá þessa fyrirspurn í upphafi umræðunnar vegna þess að enn er á ferðinni sá draugur að við hefðum ekki þurft að innleiða þessa tilskipun og í raun kemur fyrirspurnin úr sérkennilegri átt þegar hún kemur frá Samf. þar sem hv. samfylkingarþingmenn eru mjög Evrópusinnaðir. (Gripið fram í: Þú ert það nú líka.) Og tel ég nú ekki mikilvægt að þeir skuli telja mikilvægt að fá undanþágur. Þetta er mál sem var farið mjög gaumgæfilega yfir. Árið 1999 var þessi tilskipun um raforkumál felld inn í EES-samninginn og vorið 2000 samþykkti Alþingi að aflétta stjórnskipulegum fyrirvara. Þegar undirbúningurinn fyrir þessa innleiðingu stóð yfir í Evrópu var bent á aðstæður á Íslandi, t.d. smæð markaðarins, einangrun og eðli orkuöflunar, og þá kom mjög skýrt fram að ekki væri um það að ræða að fá undanþágu frá ákvæðinu um vinnslu, þ.e. að undanþága frá því að taka upp samkeppni í vinnslu væri eitthvað sem aldrei yrði samþykkt.

Ríkisstjórnin ákvað í framhaldi af því að innleiða þessa tilskipun en það var byggt á tvennu í raun, að Ísland fengi tveggja ára aðlögunartímabil og því var miðað við 1. júlí 2002, og að Ísland fengi sömu stöðu og lítil einangruð ríki, og það má nefna Lúxemborg í því sambandi.

Vegna þess að Ísland gat í raun fengið undanþágu frá öðrum þáttum þurfti að fá Orkustofnun til þess að meta hvort það væri vandkvæðum bundið fyrir Ísland að innleiða tilskipunina. Orkustofnun komst að þeirri niðurstöðu að svo væri ekki og því stöndum við þar sem við stöndum í dag að við erum að innleiða þessa tilskipun og ég tel það aldeilis ekkert neyðarbrauð.