Raforkulög

Fimmtudaginn 18. mars 2004, kl. 11:31:37 (5512)

2004-03-18 11:31:37# 130. lþ. 86.1 fundur 740. mál: #A raforkulög# (flutningur raforku, gjaldskrár o.fl.) frv., 737. mál: #A Landsnet hf.# frv., 747. mál: #A jöfnun kostnaðar við dreifingu raforku# frv., iðnrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 130. lþ.

[11:31]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta fyrirkomulag á ágætlega við hjá okkur. Það vill svo til. Og hv. þm. hefur greinilega ekki sett sig alveg nógu vel inn í málin ef hún telur að svo sé ekki.

Fyrir hverju er hv. þm. að tala? Er hún að tala fyrir því að Landsvirkjun hafi einokun áfram á framleiðslu og vinnslu raforku? Það er málið. (ÁRJ: Ég var að tala um flutning.) Og hún talar um Lúxemborg, að Lúxemborg hafi fengið undanþágu. Hvers konar undanþága var það? Það var sú undanþága (Gripið fram í.) að ekki yrði greint á milli flutningskerfisins og dreifikerfisins. Það vill svo til að flutningskerfi plús dreifikerfi í Lúxemborg eru um 14 km. Það var hin stórkostlega undanþága sem þeir fengu í Lúxemborg og hv. þm. er að vitna til. Þetta fyrirkomulag gerir það að verkum að raforkukerfið verður gegnsætt og við getum vitað hvernig verðið verður til. Það vitum við ekki í dag og það verður ekki dýrara. Það er stóra málið. Það er hins vegar verið að gera ákveðnar breytingar í sambandi við flutningskerfið. Vegna þess að við erum að taka upp samkeppni þarf að vera ákveðið slagæðakerfi sem jöfnun á sér stað í. Það er forsenda þess að hægt sé að taka upp samkeppni.

Hvað varðar það að fjármagn sé til á fjárlögum til þess að koma til móts við kostnað á dreifingu þar sem kostnaður er mestur er það bara þannig að Alþingi tekur ákvörðun um eitt ár í senn í sambandi við fjárveitingar. Miðað við það að stjórnarflokkarnir eru ákveðnir í því að við þessum kostnaði verði brugðist með því að hér verði samþykkt lög sem kveða á um það hvernig honum skuli mætt treysti ég því að þannig verði það áfram og ég er ánægð með að Samf. hefur staðið vel að málum að mínu mati í sambandi við vinnslu á þessu máli í 18 manna nefndinni. (ÁRJ: 19.)