Raforkulög

Fimmtudaginn 18. mars 2004, kl. 11:36:22 (5515)

2004-03-18 11:36:22# 130. lþ. 86.1 fundur 740. mál: #A raforkulög# (flutningur raforku, gjaldskrár o.fl.) frv., 737. mál: #A Landsnet hf.# frv., 747. mál: #A jöfnun kostnaðar við dreifingu raforku# frv., KLM (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 130. lþ.

[11:36]

Kristján L. Möller (andsvar):

Frú forseti. Ég vil aðeins taka undir að ég er sammála hæstv. iðnrh. hvað varðar þennan þátt gagnvart Orkuveitu Reykjavíkur og Hitaveitu Suðurnesja. Hver prósentan verður á eftir að koma í ljós. Mér finnst, til að hafa það alveg á hreinu, að þetta séu sanngirnissjónarmið.

Önnur spurning mín til hæstv. iðnrh., og varðar öll þessi þrjú frv. sem við erum að ræða, er um þá niðurgreiðslu á raforku sem er í fjárlögum núna, þessar rúmu 850 millj. eins og þær hafa tosast upp í núna. Sem betur fer erum við komin upp í þessa tölu og er upphæðin notuð til að niðurgreiða raforku hjá fjölda landsmanna sem greiðir sannarlega mjög hátt orkuverð. Hvað verður um þessa upphæð sem þarna er inni á fjárlögum hvað þetta varðar? Þá undanskil ég það algjörlega út frá þeim 250--260 millj. sem hér er talað um til dreifiveitna. Er gulltryggt að þessar 850 millj. haldi áfram að vera inni í kerfinu til niðurgreiðslu eða er einhver lymskuleg aðferð í gangi við það að tosa þetta út hægt og sígandi?