Raforkulög

Fimmtudaginn 18. mars 2004, kl. 11:37:30 (5516)

2004-03-18 11:37:30# 130. lþ. 86.1 fundur 740. mál: #A raforkulög# (flutningur raforku, gjaldskrár o.fl.) frv., 737. mál: #A Landsnet hf.# frv., 747. mál: #A jöfnun kostnaðar við dreifingu raforku# frv., iðnrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 130. lþ.

[11:37]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ja, hvað er gulltryggt í pólitík? Það veit ég ekki. En ég veit hins vegar að meðan sú ríkisstjórn og þeir stjórnarflokkar sem nú hafa völdin í landinu verða við völd verður haldið áfram að greiða niður húshitunarkostnað á landsbyggðinni. Þetta eru 860 millj. og það er ekki á nokkurn hátt verið að reyna að komast inn í þann pott til að nota á annan hátt. Hins vegar veit hv. þm. kannski að frv. liggur fyrir iðnn. sem varðar í raun skyldan þátt mála --- ég fer ekki frekar út í það hér --- sem varðar styrki til hitaveitna. Þetta er mikilvægt atriði og það eru engin áform uppi um að draga úr þeim niðurgreiðslum.

Mig langar til að koma því að hérna í sambandi við fyrirspurn frá hv. þingmanni, af því að ég náði því ekki áðan, að við erum á innri markaði Evrópu og þar af leiðandi erum við í samkeppni í raun þó að við séum einangrað raforkukerfi. (ÁRJ: Við hvern?) Við erum t.d. í samkeppni í sambandi við stóriðjuna, raforkuverð til stóriðju, og það er sennilega ástæða þess að Evrópusambandið tók ekki í mál að veita undanþágu frá þeim þætti mála.

Við getum svo hugsað okkur að fyrst að við verðum að taka upp samkeppni í vinnslu er þá ekki trúlegt að við höfum lent inni í fyrirkomulagi sem er ekki ólíkt því sem kveðið er á um í þessum frv.? Það er ekki hægt að opna bara í annan endann og hafa lokað í hinn.