Raforkulög

Fimmtudaginn 18. mars 2004, kl. 12:01:31 (5518)

2004-03-18 12:01:31# 130. lþ. 86.1 fundur 740. mál: #A raforkulög# (flutningur raforku, gjaldskrár o.fl.) frv., 737. mál: #A Landsnet hf.# frv., 747. mál: #A jöfnun kostnaðar við dreifingu raforku# frv., iðnrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 130. lþ.

[12:01]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrir mjög góða ræðu og lýsi ánægju með þann málflutning sem hér kom fram. Þó vil ég nefna örfá atriði, t.d. þetta með arðsemi eða mat á flutningsvirkjum. Það er stórmál. Það er alveg rétt hjá hv. þm. Það höfum við rætt. Bæði hefur það verið rætt í nefndinni og eins innan ráðuneytisins að þar er mikilvægt að vel takist til því það skiptir miklu máli upp á verð á raforku þegar kemur að því þannig að vanda verður til þess til að alla vega verði ekki um ofmat að ræða.

Hvað varðar smávirkjanir opnar þetta nýja fyrirkomulag leið fyrir þær til að selja inn á netið sem er þá orðið einfaldara en hefur verið. Það er ekki að mínu mati gott að koma því við eða ekki í raun æskilegt að það verði eitthvert sérstakt fyrirkomulag í sambandi við smávirkjanir, t.d. hvað varðar þátttöku í flutningskerfinu. Hins vegar njóta smávirkjanir þess að geta, eins og kom fram í máli mínu áðan, framleitt til eigin nota án þess að það valdi kostnaði við flutningskerfið. Það er ákveðið svigrúm t.d. hvað varðar greiðslu dreifiveitu ef um það er að ræða að sérstaklega hagkvæmt sé að taka rafmagn inn á viðkomandi stað.

Um upplýsingarnar er það að segja að fram kemur í greinargerðinni um 5. gr. að kveðið er sérstaklega á um að flutningsfyrirtækinu sé skylt að veita stjórnvöldum og viðskiptavinum almennar upplýsingar. En þarna er líka viðkvæmt að ekki séu veittar upplýsingar er varða samkeppnisaðila þannig að þarna verður að greina mjög vel á milli. En ekki eiga að vera vandræði með upplýsingar til stjórnvalda.