Raforkulög

Fimmtudaginn 18. mars 2004, kl. 12:03:46 (5519)

2004-03-18 12:03:46# 130. lþ. 86.1 fundur 740. mál: #A raforkulög# (flutningur raforku, gjaldskrár o.fl.) frv., 737. mál: #A Landsnet hf.# frv., 747. mál: #A jöfnun kostnaðar við dreifingu raforku# frv., KLM (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 130. lþ.

[12:03]

Kristján L. Möller (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég tók eftir því að hæstv. ráðherra fjallaði um þau tvö atriði sem ég hafði fyrirvarann um og sem ég hygg að allir hafa, þ.e. annars vegar um arðsemina og hins vegar um stærsta atriðið sem er mat á flutningsvirkjum. Hæstv. ráðherra sagði að vandað yrði til þess verks og að passað yrði upp á að ekki verði ofmat. Það er auðvitað aðalatriðið í þessu máli, þ.e. á hvaða verðgildi þessar svo og svo mörgu línur verða sem margar hverjar eru löngu afskrifaðar en standa vel fyrir sínu og gagnast okkur enn --- þær eru þess vegna 40, 50 eða 60 ára gamlar --- þ.e. að það verði ekki ofmetið vegna þess að þetta ræður auðvitað öllu um það hvernig þessi gjaldskrá fer og allt það. Ég vil því bara taka undir það. Hins vegar má segja, vegna þess að ég gleymdi því áðan, að auðvitað er það galli við að vinna þetta frv. núna á Alþingi og í nefnd og að ætlunin sé að klára það fyrir vorið, að samhliða þessu sé ekki unnið að matinu og því öllu saman því annars værum við að vinna þetta allt í heild sinni og hefðum þetta allt á borðinu. Þá væru ekki neinar spurningar, svo sem eins og hvað ef og hvað verður þegar við byrjum að verðleggja þetta. Þetta er sambærilegt við það sem við alþingismenn bendum stundum á þegar við fáum lagafrv. frá ráðherrum sem geta innihaldið jafnvel tugi ákvæða í hinum ýmsu greinum um að ráðherra setji reglur um hitt og þetta eftir á. Þetta getur, virðulegi forseti, breytt mjög miklu um málið og þess vegna hefði verið langbest ef þetta hefði verið unnið allt saman áfram.

Vegna þess að hæstv. ráðherra ætlar e.t.v. að koma í annað andsvar þá vil ég spyrja hvort það hafi einhvern tíma komið til tals að vinna þetta samhliða þannig að við hefðum öll spilin á borðinu þegar við erum að ræða þetta frv. á hinu háa Alþingi sem getur, ef illa fer, valdið miklum deilum í þjóðfélaginu sem það má alls ekki gera.