Raforkulög

Fimmtudaginn 18. mars 2004, kl. 12:05:57 (5520)

2004-03-18 12:05:57# 130. lþ. 86.1 fundur 740. mál: #A raforkulög# (flutningur raforku, gjaldskrár o.fl.) frv., 737. mál: #A Landsnet hf.# frv., 747. mál: #A jöfnun kostnaðar við dreifingu raforku# frv., iðnrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 130. lþ.

[12:05]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hvað varðar það sem hv. þm. nefndi núna í lokin þá er ljóst að hægt verður að vinna ákveðna undirbúningsvinnu áður en þessi lög verða sett. Ég svaraði ekki nokkrum atriðum áðan og ætla ég að koma að þeim núna. Það er t.d. með stjórn Landsnetsins sem er þriggja manna samkvæmt frv. Þarna er í raun um vinnustjórn að ræða sem náttúrlega skiptir miklu máli að geti verið skilvirk. Hún er einungis til skamms tíma þannig að ég held að þetta sé ekki stórmál. Ef pólitísk samstaða er um það hvað séu þarna meginatriðin held ég að ekki sé endilega ástæða til að hafa hana stærri.

Hvað varðar reynslu annarra þjóða af þessu fyrirkomulagi er það almennt gott. Af því að Norðmenn voru sérstaklega nefndir þá taka Norðmenn upp þetta fyrirkomulag áður en tilskipunin kemur frá Evrópusambandinu. Mér finnst það segja sína sögu. En almennt er ekki slæm reynsla af þessu fyrirkomulagi.

Ég segi eins og hv. þm. að mér finnst þetta mjög spennandi mál þegar maður fer að vinna við það. Þetta er náttúrlega gríðarleg breyting en áreiðanlega breyting til batnaðar fyrir heildina.

Svo er það þetta ,,ef`` sem hv. þm. hefur áhyggjur af. Þetta er bara sama fyrirkomulagið og er varðandi 860 millj. sem fara til niðurgreiðslu á húshitunarkostnaði, þ.e. að þetta er alltaf háð fjárlögum hverju sinni. En ég tek undir það að það er mjög mikið atriði að þetta sé á fjárlögum en ekki sem jöfnunargjald ofan á orkuverð því það hefði þýtt þó nokkra hækkun á orkuverði, sérstaklega á suðvesturhorninu sem ég tel ekki að hefði verið af hinu góða. Ég held því að við séum í öllum aðalatriðum sammála.