Raforkulög

Fimmtudaginn 18. mars 2004, kl. 12:08:02 (5521)

2004-03-18 12:08:02# 130. lþ. 86.1 fundur 740. mál: #A raforkulög# (flutningur raforku, gjaldskrár o.fl.) frv., 737. mál: #A Landsnet hf.# frv., 747. mál: #A jöfnun kostnaðar við dreifingu raforku# frv., KLM (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 130. lþ.

[12:08]

Kristján L. Möller (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er mikilvægt að hafa í huga, eins og hér kom fram með Norðmennina, að þessi tilskipun um innri markað og annað slíkt sem hefur verið dálítið deiluefni á Íslandi, þó svo ég sé ekki að mæla Evrópusambandinu bót sem slíku, að hluti af tilskipuninni er náttúrlega gerður til að skapa samkeppni um raforkuframleiðslu og raforkusölu. Það er svo aftur dálítið skrýtið náttúrlega að þegar Kárahnjúkavirkjun verður komin í gagnið fara 90% af raforku okkar til stóriðju þannig að samkeppni myndast um þessi 10%.

Ég hef ekki tíma til að fara núna út í smávirkjanirnar. Ég geri það kannski í seinni ræðu ef ég sé ástæðu til eða þá bara í nefndinni eins og ég talaði um áðan. Ég tel mikilvægt að verndarhendi sé haldið yfir þeim smávirkjunum sem hafa verið gerðar vítt og breitt um landið vegna þess að þær eru mjög hagkvæmar og góðar og það hvernig einstaklingar hafa verið að byggja þetta upp er náttúrlega alveg frábært.

Það sem ég sagði aðeins áðan var það bara að ég vil ekki að neitt í þessu geri það að verkum núna að þeir sem kaupa orku af þessum smávirkjunum komi núna, eins og ég veit að eru dæmi um í kjördæmi okkar hæstv. iðnrh., og krefjist þess að fá lækkun á orkuverðinu frá þessum smávirkjunum sem er algerlega úr takt við þær áætlanir sem hafa verið notaðar fyrir kannski einu til tveimur árum síðan til þess að hleypa framleiðslu viðkomandi virkjunar í gang, þ.e. að búa virkjunina til, og eru rekstrarforsendur fyrir lánum og öðru slíku. Það má ekkert rugla það dæmi. Ef eitthvað er í þessum frv. sem gerir það þá vil ég segja það, virðulegi forseti, að ég tel fullkomlega koma til skoðunar að setja þar bráðabirgðaákvæði inn um að rekstrarforsendur þeirra virkjana sem eru komnar í gagnið og hefur verið lánað út á út frá ákveðnum forsendum verði að fá að standa.