Jón Bjarnason:
Virðulegi forseti. Hér er til umræðu frv. til laga um breytingu á raforkulögum sem voru samþykkt á Alþingi árið 2003, frv. til laga um stofnun Landsnets hf. og frv. til laga um jöfnun kostnaðar við dreifingu raforku. Þetta er sem sagt það, virðulegi forseti, sem skilið var út undan og látið standa eftir í fyrravetur þegar mjög umdeild ný lög um raforkumál voru samþykkt á Alþingi. Þau voru svo umdeild að ekki tókst að ljúka þar einum meginkafla þeirra sem laut að flutningi og jöfnun á raforkuverði.
Þau voru líka mjög umdeild vegna þess að þar var verið að innleiða samkeppni á raforkumarkaði á litlu eylandi, Íslandi, eins og við værum stödd í miðri heimsálfu með önnur lönd á alla kanta, þ.e. værum stödd í miðju samkeppnisumhverfi Evrópu, Asíu eða Bandaríkjanna. Það var sá raunveruleiki sem hæstv. iðnrh. Framsfl. lifði í þegar hún lagði fram frv. til raforkulaga á sl. vetri og síðan er hér framhald á.
Það veit líka alltaf á eitthvað, virðulegi forseti, þegar hæstv. iðnrh., ráðherra einkavæðingar og fákeppni, segir að málið sé mjög spennandi. (Gripið fram í: ... er stórhættulegur.) Þá kastar tólfunum þegar talsmaður Samfylkingarinnar tekur í sama streng og þau mæra hvort annað, hæstv. ráðherra og hv. þm. Kristján L. Möller, og gleðjast yfir því hvað þau séu sammála um einkavæðingu raforkukerfisins sem hér er verið að leggja til.
Ég átti sæti í 19 manna nefnd sem skipuð var samkvæmt bráðabirgðaákvæði laganna sem samþykkt voru á sl. vetri og átti að fara ofan í forsendur fyrirkomulags flutnings raforku, stærð flutningskerfisins og hvernig rekstri þess og kerfisstjórn skuli háttað þannig að öryggi, skilvirkni og hagkvæmni kerfisins verði sem best tryggð, eins og segir í erindisbréfi með leyfi forseta. Þá var nefndinni einnig falið að móta tillögur um það hvernig jafna ætti kostnað vegna flutnings og dreifingar raforku. Þessi 19 manna nefnd starfaði í sumar og haust og lauk störfum í byrjun febrúar eins og áður hefur komið fram.
Ég skilaði séráliti við afgreiðslu þessarar nefndar og, frú forseti, ég verð að gera athugasemdir hér við það hvernig hæstv. ráðherra leggur fram þessi frumvörp því látið er að því liggja að nefndin standi á bak við frumvörpin. Það kemur ekki fram í frumvörpunum að ágreiningur hafi verið í nefndinni um ákveðna þætti heldur sagt að þau hafi verið unnin á grundvelli vinnu þessarar nefndar. Það var að sjálfsögðu mikill ágreiningur í nefndinni um allmarga þætti og ég mun hér gera grein fyrir þeim atriðum sem ég lagði til grundvallar séráliti mínu.
Í fyrsta lagi greinir okkur á um grundvallaratriði, um hvers eðlis raforka er. Í hugum Vinstri grænna er raforka hluti af (Gripið fram í.) samfélagslegri þjónustu. Þar erum við að nýta sameiginlegar auðlindir landsmanna til þess að veita samfélagslega þjónustu, almannaþjónustu, grundvöll fyrir atvinnulíf og búsetu í landinu, grundvöll þess að hér geti blómgast mannlíf, en ekki til þess að það eigi í sjálfu sér að vera atvinnurekstur sjálfs sín vegna og eigi að skila arði til eigenda sinna á eigin grundvelli. Þarna skilur á milli okkar og Framsfl. og, að því er virtist, málflutnings hv. þm. Kristjáns Möllers líka því að við lítum á þetta sem samfélagsþjónustu og grunnþjónustu, almannaþjónustu, og að þannig eigi að búa þessu umgerð.
Hæstv. félmrh. tjáði sig á dögunum um hvernig þróunin hefði verið á bankamarkaðnum og var að sneiða að hæstv. iðn.- og viðskrh. fyrir að hún hefði sofið á verðinum gagnvart þróuninni á fjármálamarkaðnum. Hæstv. félmrh. fór að lýsa því að bankar og bankaþjónusta væru hluti af almannaþjónustu fyrir heimili og atvinnulíf í landinu en ekki eins og hver annar atvinnurekstur í sjálfu sér. Kannski ættu hæstv. iðnrh. og hæstv. félmrh. að ræða um skilgreiningar sínar á almannaþjónustu.
Mér hugnast betur, virðulegi forseti, sú skilgreining sem hæstv. félmrh. dró upp varðandi almannaþjónustuna. Raforkukerfið ætti miklu frekar að heyra undir félmrn. en iðnrn. Það held ég að væri miklu nær viðhorfum okkar til raforkudreifingar, að hún ætti að vera undir félmrn. sem almannaþjónusta, grunnur fyrir atvinnulíf og búsetu í landinu en ekki undir gírugum hæstv. einkavæðingarráðherra viðskipta og iðnaðar sem hefur þráfaldlega verið gagnrýnd, beint og óbeint, fyrir að bera ábyrgð á þróuninni í efnahags- og viðskiptalífi á síðustu missirum.
Hér er hæstv. ráðherra að fara inn á nákvæmlega sömu braut og farin var með bankana, með fjármálastofnanirnar, sömu leið og fara á með Landssímann. Sömu leið skal draga raforkukerfið, einkavæða það, markaðsvæða það og innan skamms að selja það öðrum til opinberrar sölu. Þetta er stefna hæstv. iðnrh. í raforkumálum. Ég leyfi mér að halda, virðulegi forseti, að þjóðin sé komin með upp í kok af einkavæðingar- og fákeppniaðgerðum hæstv. iðnrh. og viðskrh., sem ráðherrann vinnur að með stuðningi ríkisstjórnar Framsfl. og Sjálfstfl., ríkisstjórnar einkavæðingar, fákeppni og skertrar siðferðisvitundar í öllum viðskiptum á fjármálamarkaði. Nú á raforkukerfið að fara á sama veg.
Í áliti mínu, ég skilaði séráliti, lagði ég til að flutningskerfið yrði miðað við að farið yrði niður í dreifipunkta við 30 kV spennu. Um það var rætt í nefndinni og virtist á tímabili nokkur sátt um að það yrði gert. Mér þótti miður þegar, við lok nefndarstarfsins, lagt var til af formanni nefndarinnar að flutningskerfið yrði einungis miðað við 66 kV spennu. Forsendan fyrir því að ná hagkvæmni í dreifikerfinu, að aðaldreifikerfið sé á einni hendi og til að ná jöfnun, er að þetta sé tilgreint sem víðast. Ég tel að það hefði átt að ná niður að 30 kV og harma að það skuli ekki hafa orðið tillaga meiri hluta nefndarinnar.
Í nefndinni var rætt um eignarhaldsformið á þessu flutningsfyrirtæki. Þá kom strax fram, eins og reyndar stendur í frv., að það skuli vera hlutafélag. Hins vegar er jafnframt klárt að þetta yrði hlutafélag með sérleyfi vegna þess að hér er náttúrlega enginn samkeppnismarkaður fyrir flutning á raforku enda átti fyrirtækið að fá sérleyfi. Hlutafélagalögin falla því afar illa að þessu kerfi. Ég gerði strax mjög ákveðnar athugasemdir við það að hér væri farið beint inn í einkavæðinguna með stofnun hlutafélags um raforkudreifikerfið.
Þriðja meginatriðið sem ég gerði verulegar athugasemdir við var um arðsemiskröfuna sem sett er inn í flutningskerfið, að það eigi að vera heimilt að hækka arðsemiskröfuna á ákveðnu árabili, byrja lágt en síðan heimilt að hækka hana það verulega að það færi að koma niður á raforkuverði. Auk þess yrði með því farið á svig við það grundvallarsjónarmið að um þjónustu sé að ræða sem eigi sem slík ekki að bera arð fyrir eigendur sína. Arður af svona rekstri á að skila sér í afhendingaröryggi og ódýrum flutningi, það á að vera arðurinn sem þetta fyrirtæki skilar. Það á ekki að hugsa um að skila arði til eigenda sinna, af og frá. Þá erum við komin út fyrir hugtökin almannafyrirtæki og almannaþjónustu.
Þetta eru þrjú meginatriði sem ég hef gert athugasemdir við, þ.e. að það eigi að einkavæða þetta, gera að hlutafélagi sem síðan eigi að selja á opnum markaði og að sett skuli á svo há arðsemiskrafa, sem verður náttúrlega að vera ef það á að vera hægt að selja það. Þannig mundum við gera þetta fyrirtæki að atvinnufyrirtæki sem hugsar fyrst um að skaffa eigendum sínum arð í stað þess að skila öruggri og góðri þjónustu til neytenda.
Vinstri hreyfingin -- grænt framboð telur að sameiginlegar auðlindir landsmanna eigi að vera á forræði almannavaldsins. Þannig verði best tryggð sjálfbær nýting þeirra og raforkukerfið á Íslandi er dæmi um afrakstur þess að almannafé hafi verið nýtt til uppbyggingar og nýtingar sameiginlegra auðlinda landsmanna. Áhersla mín í raforkumálum hefur verið á hagsmuni innlendra notenda og almennings fremur en stóriðju. En eins og öllum er ljóst stefnir í að yfir 80% af heildarraforkuframleiðslu í landinu verði bundin í stóriðju.
Vinstri hreyfingin -- grænt framboð hefur frá upphafi varað við afleiðingum þess að tilskipun Evrópusambandsins um innri skipan raforkumála yrði tekin upp á Íslandi. Ýmsar ástæður valda því að Íslendingar hefðu átt að fara fram á undanþágu. Sú sem öllum er augljós er landfræðileg sérstaða Íslands miðað við aðrar Evrópuþjóðir. Markmið flutningskerfis raforku er að annast ákveðna skilgreinda almannaþjónustu og miðlun rafmagns á sem hagkvæmastan og öruggastan hátt jafnframt því að annast verðjöfnun á raforku til neytenda þannig að hún sé í boði á sama verði og sömu gæðum hvar sem er á landinu.
Raforkukerfið á Íslandi hefur verið byggt upp á löngum tíma, á grundvelli einkaleyfis og samræmdrar yfirstjórnar og hefur gefist vel. Með því hefur náðst góður árangur í að eiga við álagstoppa og tryggja stærðarhagkvæmni sem eru veigamiklir þættir í rekstri raforkukerfa. Ekki verður séð hvernig öryggi, skilvirkni og hagkvæmni verður betur tryggð með því að innleiða svokallaða markaðsvæðingu og samkeppni í slíkri þjónustu. Hætta á offjárfestingum á einu svæði og skerðingu þjónustu á öðru er meðal þeirra fjölmörgu agnúa sem fylgja því að innleiða markaðsvæðingu og samkeppni í almannaþjónustu á borð við öflun og dreifingu rafmagns. Einnig er vert að benda á að mikilvæg forsenda þess að raforkuframleiðsla valdi sem minnstu raski á umhverfi er að henni sé vel stýrt og sem minnst sóun verði á raforku vegna offramleiðslu og óþarfa taps í dreifikerfinu.
Reynsla undanfarinna missira af kerfisbilunum í Bandaríkjunum, Kanada og á meginlandi Evrópu, hefur staðfest að markaðsvæðingin felur í sér margvíslegar hættur, m.a. hættu á offjárfestingu og lélegu viðhaldi sem grafið gæti undan öryggi raforkukerfisins. Þessi dæmi ættu að vera okkur til marks um að forðast beri að markaðsvæða raforkukerfið. Dæmi eru til um að ríkið þurfi að leysa til sín aftur misheppnaða, einkavædda og markaðsvædda almannaþjónustu eins og flutningskerfi rafmagns. Af hverju ætti samkeppni á raforkumarkaði að virka betur hér en í öðrum löndum, löndum sem ættu þó að liggja betur við þeirri samkeppni en eyríkið Ísland? Það þarf miklu ítarlegri rökstuðning fyrir því en hingað til hefur komið fram.
Samkvæmt mínum skilningi verður þetta flutningsfyrirtæki með einkaleyfi á flutningi og raforku og hefur ekki heimild til að stunda óskylda starfsemi. Því er ekki um samkeppnisrekstur að ræða. Ekki er því réttmætt að fyrirtæki skaffi eigendum sínum arð umfram það sem þarf til eðlilegs viðhalds og endurnýjunar búnaðar og mannvirkja. Ég tel, frú forseti, að það ætti að binda í lög hámarksarðsemiskröfu í þessu sambandi. Hún ætti ekki að vera hærri en 2--3%. Engin rök mæla með hærri kröfu né er sýnilegur tilgangur með arðsemiskröfu á fjármagn almannaþjónustufyrirtækis. Lægri arðsemiskrafa dregur úr þörf fyrir hækkun raforkuverðs á einstökum dreifisvæðum en að sjálfsögðu er æskilegt, upp á samstöðu um þessar breytingar, að hvergi komi til umtalsverðra verðhækkana. Að því marki sem slíkt gerist er einnig rétt að huga að því að breytingar komi til framkvæmda í áföngum.
Í frv. því sem hæstv. iðnrh. var að mæla fyrir er gert ráð fyrir að fyrirtækið geti gengið kaupum og sölum, hvort sem er í heild sinni eða að ákveðnum hluta. Fyrst í stað er það reyndar svo að einungis þeir aðilar sem leggja hluti sína inn í fyrirtækið mega kaupa hluti hver af öðrum. En frv. gerir ráð fyrir að eftir árið 2011 megi hver sem er kaupa hluti í fyrirtækinu. Alla vega hefur það komið skýrt fram, bæði í texta laganna og einnig í máli hæstv. iðnrh., að ætlun ríkisins sé að losa sig sem allra fyrst úr eignarhaldi á fyrirtækinu. Það á að fara sem allra fyrst út á einkamarkað með beinum eða óbeinum hætti og þar með beri ríkið ekki eignarlega ábyrgð á því.
Virðulegi forseti. Ég tel afar mikilvægt að tryggja neytendum og orkuframleiðendum opinn aðgang að öllum upplýsingum um flutningsfyrirtækið sjálft og starfsemi þess og að eðlilegt væri að almenn upplýsingalög giltu um flutningsfyrirtækið og starfsemi þess eins og um aðra almannaþjónustu. Einnig legg ég áherslu á að flutningsfyrirtækið verði óháð og ekki í beinum eignatengslum við einstaka orkuframleiðendur eins og frv. gerir ráð fyrir. Að mínu viti þarf flutningsfyrirtækið skilyrðislaust að vera í opinberri eigu. Öll framantalin atriði sem ég hef minnst á mæla gegn því að fyrirtækið sé gert að hlutafélagi. Við þekkjum reynsluna af því þegar ríkið er að einkavæða almannaþjónustu, búa til úr henni hlutafélög og selja síðan í pörtum.
Ég benti á tvær meginleiðir að því fyrirkomulagi sem ég teldi að ætti að vera á eignarhaldi á hinu nýja flutningsfyrirtæki. Sú besta sem ég vildi mæla með er að eigendur að flutningsfyrirtækinu yrðu ríkið og sveitarfélögin í landinu. Eignarformið gæti verið byggðasamlag eða einhvers konar sameignarfyrirtæki með skilgreindri ábyrgð hvers og eins og þannig gengið frá að sú ábyrgð væri eðlileg og í lagi. Sem stendur eiga sveitarfélögin og ríkið þau orkufyrirtæki sem fyrir eru, hvort sem það eru Rarik, Landsvirkjun, Orkuveita Reykjavíkur, Hitaveita Suðurnesja eða Orkubú Vestfjarða. Fyrirtækin eru í eigu ríkis og sveitarfélaga. Þessar eignarmyndanir hafa orðið með ýmsum hætti. Fyrst og fremst hafa notendur greitt þennan kostnað. Hluti hefur verið greiddur með aðstoð sem fékkst á sínum tíma. Eftir stríð kom erlend aðstoð sem fór í uppbyggingu á raforkuverunum en þessi eign hefur fyrst og fremst orðið til fyrir tilverknað fólksins, landsmanna. Það er því með öllu óeðlilegt að flutningskerfið fari á flot í höndum eignaraðila sem hafa ekki lengur bein tengsl við íbúa landsins.
Það er líka afar óréttlátt að þeir íbúar landsins sem ekki eru formlegir aðilar að þeim sveitarfélögum sem nú eiga t.d. Orkuveitu Reykjavíkur og Hitaveitu Suðurnesja skuli ekki fá neinn reiknaðan hlut inn í þetta sameiginlega kerfi. Í umræðunni sl. vetur þegar rætt var um raforkulögin kom fram sú skoðun margra sveitarfélaga að þau teldu að þau ættu eignarkröfurétt í eignum Rariks og Landsvirkjunar t.d. og fyrst og fremst í eignum Rariks vegna þess að þær hefðu verið byggðar upp af notendagjöldum íbúa þeirra. Það er því fullkomlega óeðlilegt að mínu mati að fyrirtækin sjálf séu að mynda þetta flutningsfyrirtæki eins og hér er gert ráð fyrir. Því legg ég afdráttarlaust til að eigendur verði ríki og sveitarfélögin í landinu. Það er hinn eðlilegi kostur og að þetta sé almannaþjónustufyrirtæki en ekki hugsað sem gróðafyrirtæki.
Hinn möguleikinn er að fyrirtækið verði að fullu í ríkiseign og yrði þá ríkisstofnun eða sjálfseignarstofnun í eigu ríkisins og leysti til sín þær eignir í flutningsvirkjum sem aðrir eiga nú.
Ég hef ítrekað það og ítrekaði það í nefndinni að ég taldi mjög mikilvægt að fá faglegan samanburð á kostum og göllum mismunandi eignar- og rekstrarforma áður en nokkru yrði slegið föstu um það en sá samanburður hefur ekki verið gerður og hér með eru áfram ítrekaðar óskir um að hv. iðnn., þegar hún fær málið til meðferðar, láti kanna stöðu og valkosti í eignarformum á fyrirtækinu en kokgleypi ekki hlutafélagsformið og einkavæðinguna eins og hér er lagt til af hálfu hæstv. iðnrh.
Virðulegi forseti. Varðandi hinn þáttinn sem fjallað var um, verðjöfnunina, var það ekki alveg rétt hjá hæstv. iðnrh. að samkomulag hefði verið um að jöfnunin ætti að greiðast úr ríkissjóði. Hins vegar var samkomulag í nefndinni um að það ætti að vera fullur jöfnuður.
Ég leyfi mér að vitna í álit frá meiri hluta 19 manna nefndarinnar hvað þetta varðar, með leyfi forseta:
,,Ljóst er að það fyrirkomulag sem hér er lagt til varðandi umfang flutningskerfisins og gjaldskrá fyrir flutningi raforku mun leiða til meiri jöfnunar kostnaðar en gert er ráð fyrir í gildandi lögum. Því til viðbótar leggur nefndin til að hver dreifiveita hafi sömu gjaldskrá fyrir alla notendur á sínu veitusvæði. Það mun þýða að íbúar á Hvammstanga og Hvolsvelli munu greiða sama verð fyrir flutning og dreifingu raforku enda dreifir Rarik raforku á báðum stöðum og gildir þá einu þótt flutningskerfið nái til Hvolsvallar en ekki til Hvammstanga. Sama á við um Patreksfjörð og Ísafjörð á veitusvæði Orkubús Vestfjarða. Hins vegar er eins og að framan greinir gert ráð fyrir að hægt verði að setja sérstaka gjaldskrá fyrir dreifbýli að uppfylltum tilteknum skilyrðum.``
Í framhaldi af þessu segir svo:
,,Ef miðað er við að íbúar á dreifbýlissvæðum þessara veitna ættu ekki að greiða hærra raforkuverð en íbúar í þéttbýli greiða hæst þá þyrfti um 230 millj. kr. til að niðurgreiða dreifingarkostnað til þeirra. Nefndin telur eðlilegt að þessum kostnaðarauka verði mætt. Það verði annaðhvort gert með framlögum úr ríkissjóði eða jöfnunargjaldi á raforkudreifingu.``
Ég, virðulegi forseti, er talsmaður jöfnunargjalds og tel að raforkan sé hluti af almannaþjónustunni í landinu. Raforkuauðlindirnar eru almannaeign og þá eigum við líka að tryggja að þetta sé í raun jöfnun og raforka sé á sama verði hvað flutning varðar um allt land. Það er bara fullkomlega eðlilegt út frá því hvernig forsendurnar eru. Ég lagði áherslu á þetta í áliti mínu.
Virðulegi forseti. Ég hef gert grein fyrir því séráliti sem ég hafði í vinnu 19 manna nefndarinnar og legg áherslu á að það er mjög mikilvægt að skoða frumvörpin mjög vandlega. Það er verið að fara út á einkavæðingar- og markaðsvæðingarbraut varðandi raforkukerfið. Það er að vísu talið að farið verði hægt af stað í fyrstu en stefnt að því markvisst að gera raforkuflutningskerfið hæft til sölu á almennum markaði. Það er markmiðið. Höfum við ekki fengið nóg af einkavæðingu í almannaþjónustunni þó svo að við eigum ekki líka að fara að horfa á þessa grunnalmannaþjónustu sem raforkan er fara inn á þennan einkavæðingar- og fákeppnismarkað sem við höfum nú þegar fengið upp í kok af en er trúaratriði hjá hæstv. iðnrh. og hjá núv. ríkisstjórn?
Virðulegi forseti. Ég legg þunga áherslu á að frv. fái vandaða og trausta meðferð í iðnn. og að meginþáttum þess verði snúið við landsmönnum öllum til heilla. Ef stefnir fram eins og nú er gert á að einkavæða raforkukerfið og innan nokkurs tíma að setja það á almennan fjármagnsmarkað og því erum við í Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði algjörlega á móti. Þetta er almannaþjónusta og við eigum að búa henni lagalega umgjörð sem slíkri.