Raforkulög

Fimmtudaginn 18. mars 2004, kl. 12:36:02 (5523)

2004-03-18 12:36:02# 130. lþ. 86.1 fundur 740. mál: #A raforkulög# (flutningur raforku, gjaldskrár o.fl.) frv., 737. mál: #A Landsnet hf.# frv., 747. mál: #A jöfnun kostnaðar við dreifingu raforku# frv., iðnrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 130. lþ.

[12:36]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (andsvar):

Hæstv. forseti. Við erum ekki alveg sammála í málinu, ég og hv. þm. Hann talar um rafmagnið út frá félagslegri þjónustu í raun. Það má þá velta því fyrir sér hvort matvörusala sé þá kannski félagsleg þjónusta líka og þar fram eftir götunum.

Það sem kemur mér virkilega á óvart í sambandi við afstöðu hv. þm. og Vinstri grænna er að þeir skuli vilja leggja á jöfnunargjald í stað þess að fjármunir komi úr sjóðum ríkisins til að greiða niður kostnaðinn við dreifingu á raforku á þeim svæðum þar sem dýrast er að dreifa. Þetta er á skjön við álit t.d. Neytendasamtakanna sem leggja áherslu á það í nefndaráliti sínu að niðurgreiðslum vegna dreifbýlissvæða verði mætt með framlagi úr ríkissjóði.

Sama má segja um Samtök atvinnulífsins, en þau segja, með leyfi forseta:

,,Loks telja Samtök atvinnulífsins eðlilegt að opinber stuðningur við tiltekna raforkunotendur eigi að vera eins gegnsær og unnt er en eigi ekki að fela í raforkuverðinu.``

Bókun fulltrúa Sambands íslenskra sveitarfélaga hljóðar svo, með leyfi forseta:

,,Við undirrituð leggjum áherslu á að kostnaður vegna niðurgreiðslna á raforkudreifingu verði greiddur úr ríkissjóði.``

Svona má lengi telja. Þarna eru því hv. þm. Vinstri grænna með algjöra sérstöðu og ég undrast það.

Það kom margt fram sem ástæða er til að bregðast við og þetta með arðsemina, auðvitað þarf hún að vera, enda kom það fram hjá hv. þm. síðar í ræðunni að það verður að vera einhver arðsemi af rekstri flutningskerfisins til að hægt sé að viðhalda því. Við erum að tala um 3% og það er eftirlit Orkustofnunar sem þarna kemur til sem skiptir miklu máli. Er þá hv. þm. að segja að hann treysti ekki Orkustofnun til að hafa eftirlit með þessu?

Það að þetta megi ekki vera hlutafélag er bara þessi venjulega afstaða Vinstri grænna, þeir eru á móti hlutafélögum.