Raforkulög

Fimmtudaginn 18. mars 2004, kl. 12:38:16 (5524)

2004-03-18 12:38:16# 130. lþ. 86.1 fundur 740. mál: #A raforkulög# (flutningur raforku, gjaldskrár o.fl.) frv., 737. mál: #A Landsnet hf.# frv., 747. mál: #A jöfnun kostnaðar við dreifingu raforku# frv., JBjarn (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 130. lþ.

[12:38]

Jón Bjarnason (andsvar):

Frú forseti. Ég tel að aðgengi að matvælum sé ein af grunnforsendum mannlífs. Ég er því ekki sammála hæstv. iðnrh. að aðgengi að matvörum skipti engu máli. Stór hluti heimsins sveltur einmitt vegna misskiptingar í aðgengi að matvörum. Hins vegar er hér á landi enn þá sú samkeppni og það framboð á matvörum að það þarf ekki að beita sameiginlegum eða félagslegum aðgerðum, en það getur farið svo ráði stefna hæstv. iðn.- og viðskrh., því hver talar ekki um fákeppni á matvörumarkaðnum og að þar sé jafnvel ógn af? Hæstv. iðn.- og viðskrh. skyldi því tala varlega á þessu svelli.

Það er alveg rétt að grundvallarmunur er á stefnu Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs og Framsfl. hvað varðar almannaþjónustuna og skilgreiningu á henni og hæstv. iðnrh. undirstrikar það. Hæstv. iðnrh. vill einkavæða almannaþjónustuna og segir það alveg berum orðum, sem er svo sem virðingarvert.

Við í Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði teljum að raforkan sé hluti af grunnalmannaþjónustu í landinu og eigi ekki að reka eins og hvert annað fyrirtæki sem á að skila eigendum sínum arði. Ég vil benda á varðandi jöfnunina, frú forseti, að einmitt stór samtök eins og BSRB og ASÍ, sem eru með fylgiskjöl með nál., mæla með innri jöfnun. En það er hin langtímaarðsemiskrafa af hálfu hæstv. iðnrh. sem hleypir verðinu upp, ekki jöfnunarkrafan.