Raforkulög

Fimmtudaginn 18. mars 2004, kl. 12:40:31 (5525)

2004-03-18 12:40:31# 130. lþ. 86.1 fundur 740. mál: #A raforkulög# (flutningur raforku, gjaldskrár o.fl.) frv., 737. mál: #A Landsnet hf.# frv., 747. mál: #A jöfnun kostnaðar við dreifingu raforku# frv., iðnrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 130. lþ.

[12:40]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (andsvar):

Hæstv. forseti. Já, það er arðsemiskrafan sem hleypir verðinu upp, segir hv. þm. Það er hins vegar svigrúm, ég fullyrði að það er svigrúm innan kerfisins, innan fyrirtækjanna til að hagræða þannig að þó þau fari úr 3% arðsemiskröfu upp í 6% þarf það alls ekki að þýða hækkun á raforkuverði. Það er nefnilega þannig með þetta kerfi allt að það er ekkert eftirlit með því í dag. Það eru tilfærslur á milli rekstrarþátta og ekkert útilokað t.d. hjá þeim fyrirtækjum sem eru bæði hitaveitu- og raforkufyrirtæki að þar hafi verið flutt á milli liða og ég nánast fullyrði að það hefur verið gert. Það gæti því verið að heita vatnið lækkaði bara á móti ef hækka þarf raforkuverðið örlítið, sem merki eru um.

En að halda því stöðugt fram að þarna sé um almannaþjónustu að ræða þá sé ég ekki af hverju við Íslendingar ættum að hafa annað fyrirkomulag en aðrar þjóðir í þessum efnum, að taka sem sagt upp þetta kerfi. Það vill svo til að það eru ríki og sveitarfélög sem eiga fyrirtækin sem mynda Landsnetið og ákvæði eru í frv. um að það verði ekki fyrr en 2010 sem opnað verði fyrir nýja eigendur.

Það er ekkert hægt að tala um álagstoppa og afhendingaröryggi í þessu sambandi. Því er alls ekki ógnað með frv., verði það að lögum. Við búum náttúrlega við gott fyrirkomulag á Íslandi eða gott kerfi að því leyti að það er mikið öryggi í afhendingu raforku, meira en nokkurs staðar þar sem ég þekki til, og það skiptir miklu máli.

Aðalatriðið er að við erum að breyta forminu, við erum að fara út í gegnsæi og það er náttúrlega þess vegna sem Neytendasamtökin mæla með þessu, verið er að búa til fyrirkomulag þar sem við getum séð hvernig rafmagnsverð verður til, og það veit ekki nokkur maður í dag.