Raforkulög

Fimmtudaginn 18. mars 2004, kl. 14:11:55 (5528)

2004-03-18 14:11:55# 130. lþ. 86.1 fundur 740. mál: #A raforkulög# (flutningur raforku, gjaldskrár o.fl.) frv., 737. mál: #A Landsnet hf.# frv., 747. mál: #A jöfnun kostnaðar við dreifingu raforku# frv., KÓ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 130. lþ.

[14:11]

Kjartan Ólafsson (andsvar):

Frú forseti. Mig langar að fara örfáum orðum um ræðu hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar. Hann gerði að umtalsefni afhendingaröryggi sem í sjálfu sér er afar eðlilegt og sjálfsagt að ræða í þessu samhengi, sem og hinar miklu breytingar á raforkulögum. Hann ber saman aðstæður í Bandaríkjunum og Kanada, hann nefndi reyndar Kaliforníu og það má nefna fleiri lönd eins og Mexíkó. Við þekkjum það að í þeim löndum og þeim fylkjum sem ég nefndi er ástand raforkukerfis allt annað en á Íslandi. Meira að segja í borgum þessara landa og fylkja eru kerfin hangandi í staurum, allt saman loftlínur, loftlínur eru á landsbyggðinni o.s.frv. Og það eru slík kerfi sem hann er að lýsa að hafi hrunið. Hann nefnir viðhaldsleysi. Kerfið okkar á Íslandi er með allt öðrum hætti. Afhendingaröryggi er tiltölulega gott. Í borg og bæjum hjá okkur eru dreifilínur undantekningarlaust í köplum í jörðu.

Á undangengnum árum hafa rafveiturnar verið að auka það að setja flutningskerfið í jarðkapla og það tryggir afhendinguna. Það er bókstaflega gert ráð fyrir því í lögunum að Orkustofnun eigi að hafa eftirlit með því hvernig afkoma þessa fyrirtækis er, Landsnets, með tilliti til þess að þeir geti fullnægt þeim þörfum sem við þekkjum svo vel sem er afhendingaröryggi.

Hv. þm. talar um arðsemiskröfuna. Mér sýnist að gerð sé nokkuð góð grein fyrir því í lagafrv. að gert er ráð fyrir að fylgst sé með því að þetta fyrirtæki fari ekki á hausinn.