Raforkulög

Fimmtudaginn 18. mars 2004, kl. 14:16:35 (5530)

2004-03-18 14:16:35# 130. lþ. 86.1 fundur 740. mál: #A raforkulög# (flutningur raforku, gjaldskrár o.fl.) frv., 737. mál: #A Landsnet hf.# frv., 747. mál: #A jöfnun kostnaðar við dreifingu raforku# frv., iðnrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 130. lþ.

[14:16]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er ekki nýtt að hv. þm. sé á móti breytingum þannig að ef við hefðum verið að fara úr því kerfi sem (Gripið fram í.) --- óskaplega eru hv. þm. viðkvæmir fyrir þessari látlausu setningu sem ég færi fram. Ef við hefðum verið að fara úr því fyrirkomulagi sem við erum að búa til og yfir í það sem við erum með í dag, hefði hann líka verið á móti því.

Mikið er talað um Kaliforníu og ástæða til að láta það koma fram að það sem þar gerðist og það sem við erum að fjalla um á Íslandi og það sem hv. þm. er að gera sér hugmyndir um að gæti gerst er ekki sambærilegt. Þessi fyrrv. raforkumálastjóri sem kom frá Kaliforníu ruglaði saman hugtökum. Hann talaði ýmist um markaðsvæðingu eða einkavæðingu, einkavæðingu þegar markaðsvæðing átti við og þar fram eftir götunum. Það var því ekki eins og einhver stóri sannleikur sem sóttur var til Kaliforníu í þann tíð.

Það voru margir þættir sem lögðust á eitt í Kaliforníu sem ýttu undir hækkanirnar sem urðu á heildsöluverði á rafmagni. Það má t.d. nefna að á síðasta áratug hefur eftirspurn aukist um fjórðung en framboðið hins vegar staðið í stað þannig að lítil umframraforka var til reiðu. Svo varð óvænt aukning á eftirspurn t.d. vegna þess að miklir hitar voru í vesturfylkjunum og þurrkar í norðvesturfylkjunum og það minnkaði framboð á vatnsorku og vinnslukostnaður raforku, úr gasi og öðrum jarðefnaeldsneytum, margfaldaðist. Þetta varð til þess að það ástand skapaðist sem raun ber vitni og hefði alveg eins skapast þó þeir hefðu verið með eitthvert annað fyrirkomulag. Hv. þm. ætti því að leita sér að rökum einhvers staðar annars staðar en í Kaliforníu.