Raforkulög

Fimmtudaginn 18. mars 2004, kl. 14:21:05 (5532)

2004-03-18 14:21:05# 130. lþ. 86.1 fundur 740. mál: #A raforkulög# (flutningur raforku, gjaldskrár o.fl.) frv., 737. mál: #A Landsnet hf.# frv., 747. mál: #A jöfnun kostnaðar við dreifingu raforku# frv., iðnrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 130. lþ.

[14:21]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil bara rifja það upp af því að hér var minnst á Steingrím Hermannsson að það var hann sem átti upptökin að því að við gerðumst aðilar að Evrópska efnahagssvæðinu svo því sé til skila haldið. Hann var forsrh. á þeim tíma. Evrópska efnahagssvæðið, innri markaðurinn, er alltaf þannig í vextinum að það er markaðskerfið sem gildir. Við erum aðilar að EES og hv. þm. greiddi atkvæði með stækkun EES þannig að það er ekki eins og það séu ekki framfarir hjá hv. þm. Vinstri grænna. Nú er hann orðinn stuðningsmaður EES-samningsins og það er eitthvað það jákvæðasta sem ég hef séð í fleiri vikur á mínum pólitíska ferli.

Ég tók reyndar eftir því að hv. þm. óttast að það verði hækkun á raforkuverði, m.a. út af því að nú þurfi að fara að gera arðsemiskröfur í kerfinu og það verði svo mikið eftirlit. Ég trúi því ekki að hv. þm. styðji ekki að það verði eftirlit. Ég er alveg sannfærð um að eftirlitið mun skila mikilli hagræðingu í kerfið, því það er ekki eftirlit í dag og það eru millifærslur á milli liða. Það er kannski vandamálið í öllum þeim útreikningum sem hafa verið sýndir upp á síðkastið að það er alltaf verið að bera saman kerfið eins og það verður eftir lagabreytinguna og kerfið eins og það ætti að vera í dag. Það er nefnilega ekki verið að bera saman kerfið eins og það er í dag því þar er svo margt öðruvísi en það á að vera. T.d. er verið að greiða niður kostnað við dreifingu með hitaveiturekstrinum o.s.frv. Þetta verður ekki hægt með hinu nýja kerfi, við munum fá gegnsætt kerfi. Ég er dálítið stolt af frumvörpunum mínum þremur eins og hv. þm. hefur tekið eftir en fullyrði að þetta ,,ef`` sem stendur í frv. er ekki eins hættulegt og hv. þm. vill vera láta því vilji ríkisstjórnarflokkanna er sá að þetta sé greitt úr ríkissjóði.