Raforkulög

Fimmtudaginn 18. mars 2004, kl. 14:26:29 (5534)

2004-03-18 14:26:29# 130. lþ. 86.1 fundur 740. mál: #A raforkulög# (flutningur raforku, gjaldskrár o.fl.) frv., 737. mál: #A Landsnet hf.# frv., 747. mál: #A jöfnun kostnaðar við dreifingu raforku# frv., ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 130. lþ.

[14:26]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Virðulegi forseti. Við höfum verið að ræða raforkufrumvörpin síðan í morgun og hv. þm. Kristján L. Möller fór ágætlega yfir þau atriði sem við höfum helst við þau að athuga í fyrstu umferð. Málin munu koma til hv. iðnn. þar sem ég á sæti og við munum auðvitað skoða málið betur þar.

Mig langar að nefna örfá atriði áður en við ljúkum umræðunni. Mig langar til að þakka 19 manna nefndinni fyrir það starf sem hún innti af hendi við að reyna að komast að niðurstöðu í málinu, en eins og menn vita eru frumvörpin að hluta til hluti af nýju raforkulögunum sem við erum að breyta og eru tilkomin vegna tilskipunar frá Evrópusambandinu eins og margoft hefur komið fram.

Ég er alveg viss um að ef íslensk stjórnvöld hefðu brugðist við á meðan sú tilskipun var í vinnslu hefðum við getað fengið undanþágu frá tilskipuninni en það er orðið of seint í dag. Við stöndum frammi fyrir gerðum hlut. Af því að hæstv. ráðherra talaði um það í morgun í andsvari að hún furðaði sig á því að Samf. vildi undanþágur af því að við værum mikill Evrópuflokkur, er það náttúrlega rétt hjá hæstv. ráðherra. En auðvitað eigum við að fá undanþágu frá þeim þáttum sem ekki henta okkur og einn af þeim er tilskipunin sem á við allt annað umhverfi en við búum við vegna þess að við erum ekki á þessum opna markaði. Við stöndum frammi fyrir gerðum hlut og ég er alveg viss um að ekki er hægt að breyta honum úr þessu því samningurinn um Evrópskt efnahagssvæði er ekki þannig að menn geti pikkað út og valið það sem þeir vilja. Það þarf að koma að vinnslu málanna á vinnsluferlinu áður en tilskipanirnar verða að veruleika.

[14:30]

Mig langar að nefna eitt atriði, sem hv. þm. Kristján L. Möller kom reyndar aðeins inn á, og það er aðgengi þingmanna að upplýsingum frá hlutafélagi í ríkiseigu. Það er náttúrlega óþolandi ástand sem ríkir hér þegar þingmenn geta ekki kallað eftir upplýsingum frá hlutafélögum í eigu ríkisins. Við þekkjum mörg dæmi um það, m.a. frá Landssímanum og Símanum, og það hefur verið margoft til umræðu á þingi. Þó að það komi fram í frv. að aðgengi skuli vera að upplýsingum til stjórnvalda frá hlutafélaginu sem á að stofna um flutninginn, Landsnet hf., hefði ég talið fulla ástæðu til að þarna komi inn skýrara ákvæði um að þingmenn geti kallað eftir upplýsingum frá hlutafélaginu. Það er eitt af því sem ég tel að við þurfum að skoða í nefndinni og vona að hæstv. ráðherra taki undir það, að skerpa megi á ákvæðinu um upplýsingarnar frá félaginu þannig að Alþingi eða þingmenn geti kallað eftir upplýsingum, ekki eingöngu stjórnvöld. Ég tel það vera atriði sem við eigum að koma að.

Annað atriði sem ég vil nefna, sem hefur verið dálítið til umræðu alveg frá því að ég kom að því í andsvari í morgun, er þetta ,,ef`` um að ,,ef ákveðið er í fjárlögum að ráðstafa fé til að lækka kostnað``, þ.e. hvort það sé eitthvert ,,ef`` um það að peningar komi úr sameiginlegum sjóðum okkar til að greiða niður kostnað úti á landi. Við getum gert breytingar á þessu í iðnn. sé vilji fyrir því. Ég legg til að við skoðum það í nefndinni að þetta ,,ef`` verði tekið út og við getum sett inn að ef orkuverð er jafnað til dreifbýlla staða eða á landsbyggðina ,,skuli`` sú fjárveiting koma úr ríkissjóði. Hún á ekki að lenda á heimilunum t.d. í Reykjavík. Hún á að koma úr sameiginlegum sjóðum. Það er hin rétta leið til jöfnunar. Tel ég að það sé eitt af því sem við þurfum að koma að.

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra, ég veit ekki hvort hún er hérna, hæstv. ráðherra, heyrir hún í mér? Ég er með spurningar til hæstv. ráðherra vegna þess að það hefur verið mikið í umræðunni um frumvörpin að þau muni valda heimilunum á höfuðborgarsvæðinu, sérstaklega í Reykjavík, miklum kostnaðarauka. Því vil ég spyrja hæstv. ráðherra: Hvernig munu breytingarnar koma fram á raforkureikningum heimilanna í Reykjavík og hvað gerir hún ráð fyrir að þeir reikningar muni hækka mikið?

Sérfræðingar í þessum málum hafa staðhæft við mig að reikningarnir muni hækka verulega og þó að það verði ekki strax eftir að lögin taka gildi mun það verða á næstu árum. Ég bið hæstv. ráðherra um að skýra það fyrir okkur hvernig það muni verða, hvort íbúar á höfuðborgarsvæðinu eigi eftir að horfa fram á að fá mun hærri, allt upp í 20% hærri, raforkureikninga í kjölfar lagabreytinganna, eða er það ekki rétt?

Það eru ýmsar fleiri upplýsingar sem ástæða væri til að kalla eftir og ég mun að sjálfsögðu gera það í nefndinni, en vildi gjarnan fá svar frá hæstv. ráðherra um þetta efni við 1. umr.