Raforkulög

Fimmtudaginn 18. mars 2004, kl. 14:33:37 (5535)

2004-03-18 14:33:37# 130. lþ. 86.1 fundur 740. mál: #A raforkulög# (flutningur raforku, gjaldskrár o.fl.) frv., 737. mál: #A Landsnet hf.# frv., 747. mál: #A jöfnun kostnaðar við dreifingu raforku# frv., iðnrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 130. lþ.

[14:33]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hvað varðar upplýsingarnar sem hv. þm. vill skerpa á bið ég hana að lesa það sem sagt er um 5. gr. í grg. Mér finnst það í sjálfu sér alveg skýrt að stjórnvöld eiga að geta fengið þarna upplýsingar, nema þær sem gætu varðað virkilega samkeppnisþætti fyrirtækjanna sjálfra.

Varðandi kostnaðinn hef ég ánægju af að lesa upp ákveðnar tölur sem hafa verið settar fram. Hvað varðar Hitaveitu Suðurnesja mun stækkun flutningskerfisins þýða að það er lækkun í dreifingu en hækkun í flutningi upp á 26. Þarna erum við að tala um aura á kwst. Síðan kemur greitt fyrir eigin vinnslu og það eru 17 aurar. Þegar á heildina er litið er hækkun upp á 2,5% hjá Hitaveitu Suðurnesja.

Hjá Orkuveitu Reykjavíkur er í stækkun flutningskerfisins samdráttur um 10 aura í dreifingunni en kostnaðarauki upp á 26 aura. Í heildina kemur það út sem 1% hækkun.

Hjá Rarik er þetta mínus 50 í dreifingu, plús 26 í flutningi sem gerir 2,6% lækkun.

Hjá Orkubúi Vestfjarða er dreifingin upp á 59 aura en flutningurinn er plús 26 aurar. Það gerir 1,5% hækkun og hjá Norðurorku er 1,4% hækkun, ég hef ekki tíma til að fara nánar út í það.

Þetta eru því öll ósköpin, 1% og 2,5% hækkun þegar því hefur verið haldið fram að þarna væri um 20% hækkun að ræða.