Raforkulög

Fimmtudaginn 18. mars 2004, kl. 14:37:37 (5537)

2004-03-18 14:37:37# 130. lþ. 86.1 fundur 740. mál: #A raforkulög# (flutningur raforku, gjaldskrár o.fl.) frv., 737. mál: #A Landsnet hf.# frv., 747. mál: #A jöfnun kostnaðar við dreifingu raforku# frv., iðnrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 130. lþ.

[14:37]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er algjörlega útilokað að ég geti lýst því yfir að það verði ekki hækkanir á raforkureikningum Reykvíkinga. (ÁRJ: Vegna þess að ...?) Já. Það er eins gott að láta það fylgja því auðvitað er þetta fyrirtæki sem hefur sjálfsagt uppi ýmis áform um framkvæmdir og fleira. Ég get því ekki svarað því nema að þetta er það sem við höfum reiknað út í sambandi við áhrif breytinganna. Það er 1% hjá Orkuveitu Reykjavíkur, og það held ég að hljóti að vera aðalatriðið.

Það sem gerir það að verkum að hv. þingmenn og forsvarsmenn fyrirtækisins hafa verið að tala um miklu hærri upphæðir er væntanlega vegna þess að þeir gefa sér að ávöxtunarkrafan verði miklu hærri en við höfum reiknað með. Við teljum að hún eigi að vera 3% í upphafi, eða heimild til þess. Þó hún hækki upp í 6% síðar eigi að vera svigrúm innan kerfisins til að auka þá arðsemi án þess að hækka verðið, vegna þess að hagræðingin hafi þá náð áhrifum sínum. Það er mikill möguleiki á hagræðingu í kerfinu, því vil ég halda fram.

Hvað varðar upplýsingarnar stendur einmitt í 5. gr., með leyfi forseta:

,,Flutningsfyrirtækinu er skylt að veita stjórnvöldum, viðskiptavinum og almenningi upplýsingar sem nauðsynlegar eru við mat á því hvort fyrirtækið fullnægi skyldum sínum við rekstur og kerfisstjórnun flutningskerfisins og tryggi jafnræði við flutning raforku.``

Ég held því að þetta geti ekki verið öllu rýmra til að bæði hv. þingmenn og almenningur geti fengið upplýsingar.