Raforkulög

Fimmtudaginn 18. mars 2004, kl. 15:33:51 (5540)

2004-03-18 15:33:51# 130. lþ. 86.1 fundur 740. mál: #A raforkulög# (flutningur raforku, gjaldskrár o.fl.) frv., 737. mál: #A Landsnet hf.# frv., 747. mál: #A jöfnun kostnaðar við dreifingu raforku# frv., SigurjÞ
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 130. lþ.

[15:33]

Sigurjón Þórðarson:

Frú forseti. Það sem ég óttast er að verið sé að búa til flókið kerfi, mikið bákn í kringum raforkukerfi landsmanna. Við erum að skipta því upp í dreifingarkerfi og flutningskerfi sem verður einokun um og síðan eitthvert samkeppnissvið sem er framleiðslan.

Ég get að vissu leyti tekið undir það með hv. þm. Ögmundi Jónassyni að það er ákveðin hætta á að við séum að taka evrópska tilskipun hráa inn í íslenskt samfélag. Það hefði verið spurning um að reyna að aðlaga kerfið betur íslenskum veruleika. Staðan er sú að á Íslandi greiða iðnfyrirtæki á landsbyggðinni 30% hærra verð fyrir orkuna en fyrirtæki á höfuðborgarsvæðinu. Það er staðreynd. Ef við skoðum frv. til laga um jöfnun kostnaðar við dreifingu raforku kemur í ljós að 3. gr. er frekar loðin, þ.e. ,,ef ákveðið er í fjárlögum að ráðstafa fé`` o.s.frv. Það er mjög loðið hvort menn ætli í raun og veru að jafna aðstöðumun og samkeppnisstöðu fyrirtækja. Ég tel það vera mikið sanngirnismál.

Þess vegna vil ég að hæstv. byggðamálaráðherra svari því hvort þær breytingar sem verið er að innleiða hér muni í raun jafna samkeppnisstöðu fyrirtækjanna. Mér finnst það ekki endilega vera skýrt í þeim frv. sem við ræðum hér. Einnig tel ég ákveðna hættu, get tekið undir það með hv. þm. Kjartani Ólafssyni, ef við skilgreinum stórnotanda í lögunum mjög þröngt. Ég tel þurfa ákveðinn sveigjanleika þannig að menn geti komið til móts við atvinnugreinar eins og t.d. ylrækt og veitt þeim brautargengi.

Stórnotandi er samkvæmt frv. sá sem notar á einum stað tiltekna orku. Hvað er átt við með ,,einum stað``? Á það við bæjarfélag? Mun t.d. Kaupfélagið á Sauðárkróki verða skilgreint sem stórnotandi með alla sína starfsemi, eða við hvað er átt? Þetta þarf að skýra.

Svo er ákveðinn hlutur sem ég held að við verðum að ræða varðandi Landsnetið, þetta hlutafélagaform. Í sjálfu sér held ég að hlutafélagaformið sé mjög jákvætt þar sem við höfum samkeppni. En þegar við erum með einokunarfyrirbæri eins og dreifinguna á orkunni eða flutninginn á orkunni um landið verða menn að skoða það að hlutafélagaformið er kannski ekki hentugt, sérstaklega ekki fyrir ríkisfyrirtæki. Það er ljóst að í hlutafélögum veita hluthafar stjórnum og framkvæmdastjórum félaganna ákveðið aðhald og við sjáum að hér erum við að tryggja rétt minni hlutans í hlutafélögum með ýmsum hætti. Það er ákveðin hætta á að ef við höfum ríkisfyrirtæki í hlutafélagaformi verði ekkert aðhald vegna þess að pólitískt aðhald vanti. Ef þetta er hlutafélag er ekki tryggt að minni hlutinn geti veitt pólitískt aðhald og fengið upplýsingar um starfsemi félagsins. Ég tel fulla þörf á að veita öllum félögum ákveðið aðhald. Hluthafar í hlutafélögum veita þá stjórnum fyrirtækjanna aðhald og ég tel að í fyrirtækjum í eigu ríkisins geti og eigi minni hlutinn, pólitíski minni hlutinn, að veita stjórnvöldum aðhald. Ég tel mjög nauðsynlegt að þetta mál og sérstaklega þetta atriði fái mikla umfjöllun í iðnn. Það gengur ekki upp að hafa ríkisfyrirtæki alfarið á ábyrgð meiri hlutans.

Áður en maður tekur beina afstöðu með frv. tel ég að það verði að skýra ákveðinn hlut og það er hvernig menn ætla að verðmeta flutningsmannvirki. Í frv. kemur fram að það eigi að gerast einhvern tíma eftir að frv. verði samþykkt. Mér finnst það ótækt og í raun ekki bjóðandi að þeir sem eiga að samþykkja frv. viti ekki í rauninni hvað þeir eru að samþykkja.

Það kemur hér fram að samninganefndin skuli hafa lokið störfum eigi síðar en 1. ágúst 2004. Þessar upplýsingar eiga að liggja á borðinu því að þær eru í raun mikilsverðar og ég tel að iðnn. verði að bíða eftir þeim upplýsingum áður en hægt verður að meta frv. og veita þeim brautargengi.