Raforkulög

Fimmtudaginn 18. mars 2004, kl. 16:24:27 (5545)

2004-03-18 16:24:27# 130. lþ. 86.1 fundur 740. mál: #A raforkulög# (flutningur raforku, gjaldskrár o.fl.) frv., 737. mál: #A Landsnet hf.# frv., 747. mál: #A jöfnun kostnaðar við dreifingu raforku# frv., ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 130. lþ.

[16:24]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég hef í sjálfu sér aldrei verið andvígur þeirri grundvallarhugsun að færa arð úr veitustofnunum yfir til samfélagslegra stofnana, til bæjarfélags eða yfir í ríkissjóð. Það sem menn hafa hins vegar verið að vara við, og ég hef tekið undir það, er að fara með slík fyrirtæki út á markað og einkavæða þau. Ef menn fara með arð frá samfélaginu yfir í vasa fjárfesta þá hef ég um það miklar efasemdir.

Svo dæmi sé tekið hef ég t.d. ekki verið andvígur því í sjálfu sér að arður sé tekinn út úr vatnsveitum. Ég er ekki andvígur þeirri grundvallarhugsun í sjálfu sér. Ef við yfirfærðum þetta t.d. á olíu, að ef hér fyndist olía og mikill arður kæmi af henni þá ætti hann að sjálfsögðu að renna til samfélagsins.

Það er hinn heimurinn sem við erum að halda inn í sem er farinn að móta sjónarmið mín hvað þetta snertir. Ef við hlutafélagavæðum þessa starfsemi og gerum hana að atvinnurekstri sem menn fjárfesta í til að taka stórfelldan arð og hlunnfara þannig samfélagið þá set ég við það fyrirvara. Það er verið að halda með okkur inn í þennan einkavæðingarheim, einkavædda heim. Í ljósi þess verða til nýjar aðstæður. Við breytum nálgun okkar með það í huga.