Raforkulög

Fimmtudaginn 18. mars 2004, kl. 16:28:28 (5547)

2004-03-18 16:28:28# 130. lþ. 86.1 fundur 740. mál: #A raforkulög# (flutningur raforku, gjaldskrár o.fl.) frv., 737. mál: #A Landsnet hf.# frv., 747. mál: #A jöfnun kostnaðar við dreifingu raforku# frv., ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 130. lþ.

[16:28]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Hæstv. forseti. Nei, ég hef um það ákveðnar efasemdir. Mér hafa borist þær fréttir að tekin hafi verið ákvörðun innan stjórnar Orkuveitunnar um að draga stórlega úr slíkum fjárfestingum enda munu menn nokkuð brenndir í því efni.

Þetta færir okkur heim sanninn um það sem við höfum bent á í umræðunni um markaðsvæðingu og einkavæðingu raforkugeirans á Íslandi, hve varhugaverðar þær tengingar eru. Þetta sýnir okkur hve mikilvægt er að samfélagið standi að grunnþjónustunni í landinu, eignarhaldið sé samfélagsins, ríkis og sveitarfélaga, en að gróðahagsmunir stýri þar ekki för. Þetta færir okkur heim sanninn um þetta. Við hörmum að ríkisstjórnin skuli halda með okkur inn á þessa braut einkavæðingar með raforkugeirann í landinu.

Einkavæðing er það ekki, segir hæstv. viðskrh. og hristir höfuðið. Fyrsta skrefið er markaðsvæðing, þ.e. að búa til markaðseiningar úr geiranum. Það er hugsunin á bak við ákvörðun Evrópusambandsins frá 1996. Ég vék að því áðan, þetta er til á prenti, að hugmyndin er að búa til umhverfi markaðs- og einkavæðingar, að sjálfsögðu. Þetta liggur skýrt fyrir.

Við hörmum að ríkisstjórnin skuli hafa frumkvæði að þessu leyti. Það er ekki of seint að grípa í taumana og við leggjum til að ríkisstjórnin leiti eftir undanþágu frá EES-samningnum hjá samningsaðilum okkar á Evrópska efnahagssvæðinu til að fá að endurskoða málið og skipuleggja raforkugeirann á íslenskum forsendum.