Erfðafjárskattur

Fimmtudaginn 18. mars 2004, kl. 17:36:11 (5555)

2004-03-18 17:36:11# 130. lþ. 86.7 fundur 435. mál: #A erfðafjárskattur# (heildarlög) frv. 14/2004, GunnB
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 130. lþ.

[17:36]

Gunnar Birgisson:

Virðulegi forseti. Hér er verið að fjalla um breytingu á lögum um erfðafjárskatt. Mér er nokkuð kunnugt um frv. því ég lagði fram frv. af sama toga fyrir þingið fyrir ári síðan ásamt nokkrum öðrum flutningsmönnum þar sem lagt var til að það yrði eitt skattþrep, 5%.

Lögin í dag eru þannig að það eru þrjú þrep, þ.e. fyrst er erfð allt að 10%, þegar kemur til næstu erfða er það 25% og svo 45% þegar það er fjarskyldara.

Frumvarpið sem hér liggur fyrir leggur til að það skuli vera tvö þrep, þ.e. 5% við fyrstu erfð og 10% við aðra.

Eftir að nefndin skoðaði málið, eins og formaður nefndarinnar fór í gegnum áðan, hefur komið breyting um að þetta verði eitt skattþrep, þ.e. að allir borgi hið sama óháð erfð, einnig líknarfélög. Það eru engar undanþágur og einfaldur skattur. (Gripið fram í: Núll fyrir maka.) Já, og svo er núll fyrir maka sem sitja í óskiptu búi.

Sumir vilja halda því fram að erfðafjárskattur sé ósanngjarn skattur. Það má rétt vera. Það eru tvö sjónarmið uppi í því máli, að hann eigi að vera núll eða að kynslóðir borgi skatt af þeim fjármunum sem sú kynslóð sem er að hverfa komi yfir til þeirra.

Það er ljóst að einhver kostnaður er við skiptingu á dánarbúum og þar sem gert er ráð fyrir 5% í frv. má reikna með að tekjumissir ríkisins verði einhver, þó er það ekki alveg vitað. Alla vega ætti sá kostnaður sem kemur inn vegna skattsins að duga fyrir skiptikostnaðinum. Ég hef alltaf litið þannig á að þessi 5% ættu að standa undir kostnaði ríkisins. Reynt hefur verið að fá þessar upplýsingar en það er mjög flókið þar sem öll skiptin fara fram hjá hinum ýmsu sýslumannsembættum víðs vegar um landið og ekki heiglum hent að ná þeim upplýsingum.

Hérna er líka það nýmæli eða breyting á lögunum að miða ekki við nafnvirði hlutabréfa heldur markaðsvirði. Menn geta spurt sig, herra forseti, hvers vegna? Þegar textinn var settur í frv. á sínum tíma, sennilega upp úr 1970, voru verðbréf og nafnvirði sama og markaðsvirði. Í dag er þetta allt öðruvísi þar eð nafnvirði getur verið 1/100, 1/50 eða 1/30 af markaðsvirði bréfa, þannig að samkvæmt frv. verður greiddur skattur af raunvirði eigna búanna, gegnsær skattur, eitt þrep og engar undanþágur. Ég verð því að óska okkur til hamingju með það að hér eru að koma lög um skattheimtu á vegum ríkisins sem eru einföld í allri framkvæmd, þess heldur eins og þetta er í dag með þremur mismunandi skattþrepum, eins og ég gat um áðan, allt upp í 10%, 25% og 45%, er alveg ljóst að undanskot í kerfinu eru veruleg. Maður þekkir sjálfur, herra forseti, dæmi þess og veit að slíkt hefur verið í gangi. Með þessari nýju tilhögun, að hafa bara eitt þrep og 5%, er alveg ljóst að undanskotum mun fækka og skattskilin munu verða betri. Það er spurning hvort það dugi til að standa á jöfnu fyrir ríkissjóð varðandi tekjurnar af skattinum, sem eins og ég sagði, má kalla umsýslugjald við skiptingu búanna.

Ég ætla ekki að rekja málið mikið frekar. Formaður nefndarinnar, hv. þm. Pétur H. Blöndal, hefur farið ágætlega í gegnum breytingarnar sem eru verulegar. Búið er að stytta lagabálkinn talsvert og gera þetta einfaldara og úrvinnslan verður öll mjög einföld þegar kemur til skipta í þessum málum.

Eðlilega styð ég þetta og stend að nál. og óska okkur til hamingju með að vera komin svona langt með málið.