Erfðafjárskattur

Fimmtudaginn 18. mars 2004, kl. 17:42:05 (5556)

2004-03-18 17:42:05# 130. lþ. 86.7 fundur 435. mál: #A erfðafjárskattur# (heildarlög) frv. 14/2004, ÖS
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 130. lþ.

[17:42]

Össur Skarphéðinsson:

Hæstv. forseti. Syndir mannanna eru margvíslegar og ég verð að játa á mig synd í þessum ræðustóli. Ég hafði nefnilega ekki fyrir því sökum verkaskiptingar okkar innan stjórnarandstöðunnar að lesa nál. En ég vil að það komi alveg skýrt fram að ég hefði aldrei skrifað undir nál. ef ég hefði gert það.

Ég skal ekki hafa mörg orð um það með hvaða hætti hv. formaður nefndarinnar gerir úr hlut sínum en mér finnst stjórnarandstöðunni vera hneisa gerð þegar við fylgjum niðurstöðu sem ég taldi að væri sameiginleg innan hv. efh.- og viðskn., en erum síðan gerð að einhverjum annars flokks þingmönnum hér með því að rakið er sérstaklega að það hafi verið samkvæmt tillögu meiri hlutans að farið var út í breytingarnar og síðan kemur lofrollan sem formaðurinn skrifar greinilega um sjálfan sig.

Virðulegi forseti. Ég vil að það komi alveg skýrt fram að á 12 ára ferli mínum á þinginu, þar sem ég hef bæði innan stjórnar og í stjórnarandstöðu hvað eftir annað átt þátt í niðurstöðu sem byggist á samkomulagi, hef ég aldrei séð þetta.

Þegar menn taka á málum innan þingnefndar eru tveir kostir uppi. Annaðhvort skilja leiðir og menn skila mismunandi álitum eða menn komast að sameiginlegri niðurstöðu. Það gerðu menn í þessu máli. Það kom fram tillaga innan meiri hlutans. Nú hefur það reyndar verið upplýst af hv. þm. Gunnari Birgissyni að upphafsmaðurinn að því, a.m.k. opinberlega, var hv. þm. Gunnar Birgisson sem lagði fram tillögu um þetta á fyrri þingum.

Við í Samf. tókum málið og ræddum það í okkar hópi og töldum að við værum aðilar að sameiginlegri niðurstöðu. En svo er ekki. Ég ætla ekki að hafa nein stærri orð um þetta en það býr í mér heldur þung þykkja yfir vinnubrögðum af þessu tagi. Ekki hefur farið fyrir, a.m.k. í upphafi núverandi þings, miklum vilja af hálfu hv. formanns til að efla samstarfið í nefndinni, en ég segi: Svona geta menn ekki unnið --- og ætla svo að kæfa bræði mína og reyna að koma efnislega að nokkrum þáttum frv. En ég segi við hv. þm. stjórnarliðsins í nefndinni: Það er ekki vel til þess fallið að efla samstarfsanda að koma fram með svona hætti, og þá undanskil ég algjörlega með hvaða hætti hv. formaður þjónar hégóma sínum með því að lýsa eigin þætti í þessu.

[17:45]

Ef menn komast að sameiginlegri niðurstöðu er hún sameiginleg hvaðan sem hún kann að koma. Ég er ekki vanur því þegar nefndir komast að sameiginlegri niðurstöðu að þá sé rakið hvaðan það kemur. Það hefur margsinnis gerst í stórum málum og smáum málum að ágætar tillögur að niðurstöðu hafa komið frá stjórnarandstöðu --- ég man ekki eftir því að það hafi verið rakið sérstaklega --- eða frá stjórnarliðinu, og ég man heldur ekki eftir því að það hafi verið rakið sérstaklega.

Ég talaði um það, virðulegi forseti, að þarna hefði mér orðið á synd. Það var ekki ásetningssynd en hún kemur yfir fleiri en mig því að ég hafði innan stjórnarandstöðunnar tekið að mér, virðulegi forseti, að koma því á framfæri að sá fyrirvari sem ég ásamt hv. þm. Lúðvíki Bergvinssyni og Jóhönnu Sigurðardóttur höfum við þetta frv., er sami fyrirvari og hv. þm. Ögmundur Jónasson hefur líka, auk þess sem hann hefur áskilið sér rétt til þess að hafa ýmsa aðra fyrirvara á málinu líka. En ég taldi að ég hefði sent nefndarritara boð um þetta að kvöldi dagsins áður en málinu var lokið þannig að ég vil að það komi hér skýrt fram að það er mín sök að þess er ekki getið að hv. þm. Ögmundur Jónasson hefur þennan tiltekna fyrirvara. Það skiptir máli fyrir hann og líka fyrir okkur vegna þess að þar er um réttlætismál að ræða.

Við styðjum umrætt frv. Við teljum að það sé fullkomlega verjanlegt að skattleggja erfðafé. Við getum síðan rætt um með hvaða hætti það á að gera, hvort þarna er verið að fara of lágt eða of hátt. Við skulum sjá hvaða reynsla kemur á þetta.

Ég get líka tekið undir það, eins og ég hélt að fram hefði komið af okkar hálfu í nefndinni, að þarna er verið að einfalda skattlagninguna og það er ágætt. Nóg hefur þessi ríkisstjórn flækt skattlagningu á ýmsum stigum skattkerfisins þó ekki væri á það bætandi. En frv. sjálft var framför og þessar tillögur eru framför líka að því leytinu.

Menn þurfa að vega og meta hvað á að setja í forgangsröð. Er það í forgangi að draga úr þeim upphæðum sem renna í ríkissjóð í formi erfðafjárskatts eða er það með einhverjum öðrum hætti sem við eigum að verja því svigrúmi sem til er? Flokkur minn hefur lagt á það langmesta áherslu að sú skattalækkun sem ráðist verði fyrst í verði lækkun á virðisaukaskatti á matvælum. Ástæðan fyrir því að við treystum okkur þó til að styðja þetta er vegna þess að hér er um ákveðið réttlæti í málinu að ræða en líka vegna þess að samhliða voru gerðar aðrar breytingar á málinu sem auka tekjur, og það má færa rök að því að fyrr en seinna muni sú breyting sem felst í því að meta hlutabréf ekki lengur á nafnvirði heldur á markaðsvirði leiða til þess að tekjur sem renna í ríkissjóð vegna erfðafjárskatts stóraukist þegar fram líða stundir. Færð eru ágæt rök að því í álitinu að líkast til muni þetta vega upp mjög fljótt þá minnkun á tekjum ríkisins sem felst í breytingum sem nefndin stendur sameiginlega að.

Virðulegi forseti. Það sem ég og hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir, Lúðvík Bergvinsson og Ögmundur Jónasson höfum gert fyrirvara við er hins vegar að meiri hlutinn hefur ekki treyst sér til að taka upp þá ósk okkar að fella burt það ákvæði í frv. sem frá ráðherranum kom, sem afnemur heimild til handa ráðherra til að undanþiggja kirkjur, opinbera sjóði, líknar- og menningarstofnanir eða -félög greiðslu erfðafjárskatts. Í lögunum sem í gildi eru er líka að finna ákvæði sem undanþiggur öryrkja eða ívilnar öryrkjum við sérstakar aðstæður. Það eru að vísu sjaldgæfar aðstæður en þó teljum við að það sé ekki heldur hægt að fella það brott. Við erum þeirrar skoðunar að það skipti máli að örva menn til þess að láta af höndum rakna í göfugum tilgangi eftir sinn dag, hluta af því fjármagni sem þeim hefur áskotnast í gegnum vegferð sína hér á jörðu --- ég vil ekki segja í þessum táradal --- og í vaxandi mæli held ég að hér gæti verið um tekjustofn að ræða fyrir þessi félög vegna þess að við vitum að til þessa hefur gangur veraldarsögunnar, a.m.k. síðustu alda, verið með þeim hætti að sérhver kynslóð hefur orðið ríkari en kynslóðin sem á undan gengur og sú velsæld sem nú ríkir á Íslandi og obba síðustu aldar er líklega að leiða til þess að þau fjárframlög sem með þessum hætti renna í sjóði líknarfélaga og menningarstofnana kunni að aukast verulega.

Líknarstofnanir taka að sér verk í göfugum tilgangi en verk sem ekki bara bæta hag mjög margra sem þeirra njóta heldur draga líka úr þeim kostnaði sem ríkið ella hefði af að sinna þeim fyrir sitt fé. Við vitum líka að líknarfélög ná því í krafti sjálfboðastarfa og ýmissa annarra þátta að fara miklu betur með fé og ná miklu meiru út úr fé en ef svipuðum fjárhæðum hefði verið eytt af hálfu ríkisins. Við teljum þess vegna að þetta sé ekki góð aðferð til að sjá til þess að hvers konar líknandi starfsemi sé af höndum innt. Þess vegna höfum við, þessir fjórir þingmenn, lýst því yfir að við munum flytja brtt. sem lýtur að þessu og það munum við gera við 3. umr. Ég vænti þess að allir þeir ágætu þingmenn stjórnarliðsins sem hafa réttlátt hjarta, og þeir eru margir, treysti sér til þess að styðja hana.