Útlendingar

Mánudaginn 22. mars 2004, kl. 15:28:19 (5572)

2004-03-22 15:28:19# 130. lþ. 87.11 fundur 749. mál: #A útlendingar# (aðlögunarheimildir stækkunarsamnings ESB og EES o.fl.) frv. 20/2004, dómsmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur, 130. lþ.

[15:28]

Dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breyting á lögum um útlendinga. Frumvarpið miðar í fyrsta lagi að því að leggja til breytingar í því skyni að nýta aðlögunarheimildir samnings um stækkun Evrópusambandsins og Evrópska efnahagssvæðisins sem tekur gildi 1. maí 2004. Aðlögunarákvæðin fela m.a. í sér að ákvæði 1.--6. gr. reglugerðar nr. 1612/68/EBE, um frelsi launþega til flutninga innan Evrópska efnahagssvæðisins, sem hefur lagagildi hér á landi, sbr. 1. gr. laga um frjálsan atvinnu- og búseturétt launafólks innan Evrópska efnahagssvæðisins nr. 47/1993, gilda ekki um launafólk frá hinum nýju aðildarríkjum EES frá gildistöku stækkunarsamningsins fram til 1. maí 2006.

Til þess að nýta heimildir þær sem í aðlögunarákvæðunum felast þarf að breyta lögum um útlendinga eins og lagt er til í frv. þessu ásamt áðurnefndum lögum nr. 47/1993 og lögum nr. 97/2002, um atvinnuréttindi útlendinga, en frv. um það er nú til umfjöllunar í félmn. Brýnt er að breytingar þessar taki gildi 1. maí nk.

Í annan stað eru í frv. lagðar til breytingar á lögum um útlendinga vegna ábendinga sem borist hafa frá helstu aðilum sem koma að framkvæmd laganna. Í 1. gr. eru lagðar til breytingar sem miða að því að gera ferli skráningar útlendinga hér á landi skýrara. Lagt er til að útlendingur sem uppfyllir augljóslega öll skilyrði þess að fá dvalarleyfi geti komið hingað til lands þegar umsókn hans um dvalarleyfi er samþykkt og eftir atvikum fengið skráningu í þjóðskrá ef hann ætlar að dvelja hér lengur en í þrjá mánuði.

Þá eru í 2. gr. frv. lagðar til breytingar sem eiga að girða fyrir það að málamyndahjúskapur eða nauðungarhjónabönd geti orðið grundvöllur dvalarleyfis fyrir aðstandanda. Einnig geti verið refsivert að afla dvalarleyfis á grundvelli hjúskapar til málamynda, sbr. 16. gr. frv.

[15:30]

Er þetta lagt til að gefnu tilefni því yfirvöld hér á landi hafa vísbendingar um að brögð séu að slíku athæfi. Nauðsynlegt er að bregðast við því nú þegar því þetta samrýmist alls ekki markmiðum og tilgangi ákvæða útlendingalaga um dvalarleyfi fyrir aðstandendur. Til þess að sporna við vandanum var leitað fyrirmynda í dönsku útlendingalögunum og er lagt til í frv. að kveðið verði beinlínis á um að leiki rökstuddur grunur um að til hjúskapar hafi verið stofnað til að afla dvalarleyfis og ekki hafi verið sýnt fram á annað með óyggjandi hætti, veiti hann ekki rétt til dvalarleyfis. Sama gildir um nauðungarhjónaband og er gert ráð fyrir að það geti ekki verið grundvöllur dvalarleyfis fyrir aðstandendur frekar en málamyndahjúskapur.

Sú hefð sem ríkir meðal sumra þjóðfélagshópa að foreldrar ráðstafi börnum sínum í hjúskap er vandi sem hin vestrænu ríki standa frammi fyrir og er engin ástæða til að ætla að við séum þar undanskilin. Danir hafa brugðist við þessu á þann hátt að maki sem sækir um dvalarleyfi aðstandanda verður að hafa náð 24 ára aldri og er sams konar regla lögð til í frv. þessu. Grundvöllur hennar er sá að þeim mun eldri sem viðkomandi er því auðveldara er fyrir hana eða hann að sýna mótþróa og sporna við þvinguninni. Hér ber ávallt að hafa í huga að útlendingar geta sótt um dvalarleyfi á eigin forsendum, þ.e. ekki sem aðstandendur heldur sem vinnandi einstaklingar á eigin framfærslu.

Síðastnefnt á einnig við um þá reglu að ættmenni útlendings eða maka að feðgatali á þeirra framfæri verða að hafa náð 67 ára aldri til að geta sótt um dvalarleyfi fyrir aðstandanda. Er gengið út frá því að fólk geti almennt framfært sér fram að því tímamarki. Einnig eru lagðar til breytingar er snúa að rannsókn lögreglu, sbr. 7. gr. frv., m.a. að heimilt verði að krefjast rannsóknar á erfðaefni ef vafi leikur á að umsækjendur um dvalarleyfi aðstandenda séu í raun ættmenni útlendings.

Fleiri ákvæði varða ólögmæta eða refsiverða háttsemi eða könnun á því hvort um hana geti verið að ræða. Í 3. gr. frv. er gert ráð fyrir að skýrt verði kveðið á um að heimilt sé að synja útlendingi um inngöngu í landið til bráðabirgða við komu til landsins á meðan kannað er hvort efni séu til frávísunar en þá telst útlendingur vera við landamæri og í raun ekki kominn inn í landið. Þá er lögð til heimild til að brottvísa útlendingi í ólöglegri dvöl, sbr. 5. gr. frv., en á móti kemur að lagt er til í 4. gr. að svigrúm til frávísunar vegna ólöglegrar dvalar verði rýmra þannig að unnt sé að beita vægara úrræði þegar það þykir vera sanngjarnt.

Þá verði refsiákvæði laganna breytt, sbr. 16. gr. frv., en ákvæðin hafa í nokkrum tilvikum reynst örðugur grundvöllur saksóknar. Meðal annars er lagt til að varsla falsaðra vegabréfa verði refsiverð og að engu skipti hvort aðstoð við útlending til að koma ólöglega til landsins sé í hagnaðarskyni eða ekki, en slíkt getur verið erfitt að sanna.

Nokkrar breytingar lúta að lagfæringum á lögunum, m.a. að heimilt verði að veita EES-borgurum búsetuleyfi í samræmi við almennar reglur laganna, sbr. 9. og 10. gr. frv., en slíka heimild er ekki að finna í gildandi lögum. Auk þess er lagt til í 13. gr. frv. að börn flóttamanna sem fæðst hafa eftir að foreldrar þeirra fengu stöðu flóttamanna hér á landi fái sömu réttarstöðu. Enn fremur fái útlendingar sem heimiluð er koma í flóttamannahópi dvalarleyfi án takmarkana í þrjú ár og myndar það grunn búsetuleyfis. Samkvæmt gildandi lögum er ekki heimilt að gefa út dvalarleyfi til lengri tíma en tveggja ára í senn en lagt er til að undanþága verði gerð fyrir þennan hóp með hliðsjón af þeirri sérstöku stöðu sem þeir njóta sem í honum eru.

Loks bera að nefna að í 8. gr. frv. er lagt til að útlendingur eigi ekki rétt á að honum sé skipaður talsmaður við kæru á synjun um hæli þegar efnismeðferð málsins fer fram í öðru ríki á grundvelli nánar tiltekinna alþjóðlegra samninga.

Virðulegi forseti. Ég hef nú farið yfir helstu efnisatriði frv. en um efni þess að öðru leyti er vísað til greinargerðar með því. Ég legg áherslu á að brýnt er að frv. verði samþykkt þannig að lögin geti tekið gildi 1. maí nk.

Ég legg til að frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. allshn. og 2. umr.