Útlendingar

Mánudaginn 22. mars 2004, kl. 15:34:47 (5573)

2004-03-22 15:34:47# 130. lþ. 87.11 fundur 749. mál: #A útlendingar# (aðlögunarheimildir stækkunarsamnings ESB og EES o.fl.) frv. 20/2004, BH
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur, 130. lþ.

[15:34]

Bryndís Hlöðversdóttir:

Hæstv. forseti. Eins og fram kom í máli hæstv. dómsmrh. má segja að tilgangurinn með frv. sé í raun og veru tvíþættur, annars vegar sá að nýta aðlögunarheimildir sem samningurinn um stækkun Evrópusambandsins og EES felur í sér, sem tekur gildi 1. maí 2004. Samkvæmt stækkunarsamningi er heimilt að beita aðlögunarákvæðinu að því er varðar frjálsa för launafólks frá þeim tíu ríkjum sem bætast í hópinn.

Ég vil segja hvað þennan þátt málsins varðar, hæstv. forseti, að mér sýnist að vel sé staðið að undirbúningi hans. Aðlögunarheimildir á borð við þessa hafa verið nýttar af fjölmörgum öðrum ríkjum, þar á meðal flestum Norðurlandanna ef ekki öllum, hugsanlega hefur Svíþjóð ekki gert það. Ég held því að það sé ekkert óeðlilegt við þetta og sérstaklega í ljósi þess sem tekið er fram í frv. að haft hafi verið eðlilegt samráð við aðila vinnumarkaðarins um þessa aðlögun. Á þessu stigi geri ég því ekki athugasemdir við þennan þátt frv. en auðvitað með þeim fyrirvara að við munum síðan gera ítarlega skoðun á þessum þætti málsins eins og öðrum í hv. allshn., kalla til gesti eftir atvikum og fá umsagnir.

Hinn þáttur frv. eru að því er greinir í frv. breytingar vegna ábendinga sem borist hafa frá helstu aðilum sem komu að framkvæmd laganna. Ég verð að segja, hæstv. forseti, að ég hef verulegar áhyggjur af a.m.k. hluta þeirra breytinga sem þar eru lagðar til og mér sýnist þar vera á ferðinni vafasöm stefnumörkun og því miður oft og tíðum gripið til mjög viðamikilla heimilda að því er virðist án þess að tilefni sé til. Ég mun m.a. kalla eftir því í framsögu minni að hæstv. dómsmrh. geri okkur grein fyrir því hvaða neyð rekur til þess að farið sé út í aðgerðir á borð við lífsýnatöku og frekari heimildir til húsleitar til þess að skera úr um forsendur dvalarleyfis. Mér finnast þetta vera mjög stórar og miklar aðgerðir sem vega mjög nærri persónuvernd og friðhelgi einkalífs og það hlýtur að þurfa að rökstyðja það mun betur en gert er í frv. hvaða nauðsyn kallar á slíkar aðgerðir.

Ég vil líka draga það strax fram að ákvæðið sem kveður á um að þegar sótt er um dvalarleyfi á grundvelli fjölskyldusameiningar geti Útlendingastofnun farið fram á rannsókn á erfðaefni og krafist lífsýnis. Hið háa Alþingi hefur þegar hafnað slíku ákvæði í fyrri meðförum frv. sem nú er orðið útlendingalög, og það hljóta að vera mjög veigamiklar ástæður sem kalla á að þessi þáttur frv. sé lagður fram aftur.

Rökstuðningurinn sem helst er tíndur til er sá að vísað er til þess að komið hafi ábendingar frá helstu aðilum sem koma að framkvæmd laganna og samráðsfundir verið haldnir með þátttöku fulltrúa ráðuneytisins, embættis lögreglustjórans í Reykjavík, lögreglustjórans á Keflavíkurflugvelli, ríkislögreglustjóra, Útlendingastofnunar og þjóðskrár. Það vekur athygli mína, hæstv. forseti, ef marka má greinargerðina, að ekki virðist hafa verið haft samráð við þann hóp sem verður óneitanlega fyrir þessari röskun á persónuvernd og friðhelgi einkalífs sem fram kemur í frv., sem eru innflytjendur sjálfir. Það er ekki a.m.k. tekið fram í greinargerðinni að haft hafi verið samráð við Alþjóðahús, Rauða krossinn eða aðra sem hafa með málefni útlendinga að gera og eftir því kalla ég hér, virðulegi forseti: Hafði ráðuneytið samráð við þessa aðila við gerð frv. og leitaði álits þeirra á því?

Ég held að það sé nefnilega mjög mikilvægt, hæstv. forseti, ef við búum í lýðræðisþjóðfélagi að það sé ekki bara nóg, með fullri virðingu fyrir embættismönnum og stjórnmálamönnum eða stofnunum sem starfa að málefnum útlendinga eins og hér er lagt til, að þeirra sjónarmið rati í frumvörp. Það er mjög mikilvægt að haft sé samráð við þá líka sem þessi úrræði bitna í raun og veru á og leitað álits þeirra. Það virðist ekki vera ef marka má greinargerð frv.

Ég ætla helst að víkja að þeim atriðum sem ég geri athugasemdir við. Í fyrsta lagi vil ég geta þess að mér sýnist 1. gr., sem snýst um það að nægilegt sé að umsókn um dvalarleyfi hafi verið samþykkt áður en útlendingur kemur til landsins, í stað þess að dvalarleyfið hafi verið gefið út eins og núgildandi ákvæði mælir fyrir um, vera jákvæð breyting og geri ekki athugasemdir við hana, en ætla að eyða fleiri orðum í það sem ég set kannski spurningarmerki við.

Ef við förum í a-lið 2. gr., sem er breyting á 13. gr. laganna, er verið að breyta því að til þess að fá leyfi á grundvelli hjónabands þarf erlendi makinn að vera a.m.k. 24 ára gamall. Í greinargerðinni kemur fram að tillagan sé fengin upp úr dönsku lögunum og rökin séu þau að um sé að ræða rík verndarsjónarmið sem byggja á reynslu nágrannaríkjanna þar sem algengt er meðal sumra hópa nýbúa að foreldrar ráðstafi börnum sínum í hjúskap.

Ég hlýt að spyrja hæstv. dómsmrh.: Hvað er það sem kallar á slíka reglu hér á landi? Hvað er það sem kallar á það að þetta sé gert hér á landi? Fyrirheit um verndarsjónarmið til þess að koma í veg fyrir að foreldrar ráðstafi börnum sínum í hjúskap eru mjög fögur en eru einhver tilfelli hér á landi sem kalla á að slíkt ákvæði sé sett í lög? Auðvitað hljótum við að sjá að slík ákvæði takmarka eða hafa neikvæð áhrif á persónufrelsi þeirra Íslendinga og útlendinga sem hér dvelja löglega að ganga í hjúskap með erlendum ríkisborgara. Þarna er verið að setja ákveðna takmörkun sem er ekki í íslenskum lögum, Íslendingar þurfa ekki að vera orðnir 24 ára til þess að mega giftast og þarna er því verið að búa til öðruvísi reglur fyrir útlendinga. Mér finnast það ekki nægilega sterk rök, hæstv. forseti, að þarna búi verndarsjónarmið ein að baki og kalla eftir því hvað það er sem krefst þess að slík takmörkun sé gerð. Þarna hlýtur alltaf að koma til skoðunar jafnræðisregla stjórnarskrárinnar um að fólki sé ekki mismunað, m.a. eftir uppruna, og þarf að færa ansi sterk rök fyrir því að setja slíka reglu í lög að mínu mati.

Gerð er líka breyting í þá veru að til að foreldri geti fengið dvalarleyfi á grundvelli fjölskyldusameiningar þurfi það að vera eldra enn 66 ára, þ.e. orðið 67 ára, og tilgangurinn er sagður sá að koma í veg fyrir að ættmenni fari á þennan hátt hjáleið inn á íslenskan vinnumarkað. Það er líka spurning að mínu mati hvort þetta sé nauðsynlegt. Það eru þó kannski fleiri rök sem mæla með þessari aðgerð en þeirri sem snýr að hjúskapnum að mínu mati, en er ekki svo að löggjöfin í dag tryggi nokkuð vel að ekki sé hægt að fara hjáleið inn á vinnumarkaðinn? Ég hefði haldið það, vegna þess að til þess að ráða ríkisborgara utan EES-svæðisins til vinnu þarf að auglýsa starfið á svæðinu í þrjár vikur, stéttarfélag að gefa umsögn og að lokum Vinnumálastofnun að meta atvinnuástand í landinu, þannig að ég held að það sé okkuð vel girt fyrir þetta. En kannski hefur hæstv. dómsmrh. einhver frekari rök fyrir því en fram koma í frv. af hverju nauðsynlegt sé að gera þetta.

Það atriði sem mér þykir hvað alvarlegast í frv. snýr að breytingum á 29. gr. útlendingalaganna sem í frv. er b-liður 7. gr. Þar er sagt að við ákvörðun um veitingu dvalarleyfis hafi Útlendingastofnun heimild til að krefjast þess að umsækjendur um dvalarleyfi skv. 1. mgr. 13. gr. eða ættmenni hans gangist undir rannsókn á erfðaefni, og töku lífsýnis í því skyni, til að staðfesta að um skyldleika sé að ræða.

Ég held að þarna sé verið að fara inn á nokkuð vafasamar brautir. Ég held að þetta sé eitthvað sem við þurfum að fara mjög varlega í en, eins og ég nefndi áður í máli mínu, hefur Alþingi áður hafnað því að til þessa úrræðis sé gripið. Þarna er verið að fara ansi langt inn á friðhelgi einkalífs fólks. Og það kunna að vera uppi ýmsar aðstæður þar sem erfðaefni gefur kannski ekki bestu upplýsingarnar um hvort um náinn aðstandanda er að ræða og má þá kannski nefna sem dæmi, þótt það sé kannski langsótt, að ef barn er t.d. rangfeðrað gefur erfðaefnið væntanlega ekki réttar upplýsingar en það kann eigi að síður að vera náinn aðstandandi. En þetta er möguleiki.

[15:45]

Ég held að í mannréttindasáttmálum sem Ísland hefur staðfest og gerst aðili að sé friðhelgi persónulífs eða einkalífs meðal helgustu mannréttinda. Það er viðurkennt jafnt á alþjóðavettvangi sem og í íslenskum lögum að þessa friðhelgi megi rjúfa ef rökstuddur grunur er um að einstaklingur hafi framið refsiverðan verknað, það eru sett ströng skilyrði þar um og þannig á það að sjálfsögðu að vera.

Ef maður skoðar lögin um lífsýni og lögin um persónuvernd er litið þannig á, samkvæmt íslenskum lögum, að taka lífsýnis teljist til mikilvægra persónuupplýsinga sem séu vandmeðfarnar og beri að vernda. Ég tel að þess vegna þurfi nokkuð sterk rök fyrir þessu. Við þurfum að standa frammi fyrir verulegum vandamálum til að taka svona úrræði upp í lög okkar, hæstv. forseti.

Ég verð líka að segja að mér finnst orka mjög tvímælis þegar Alþingi hefur áður hafnað slíku ákvæði, að það komi aftur fyrir þingið í nýrri mynd, að því er virðist um hjáleið í gegnum stækkun EES-svæðisins og Evrópusambandsins sem er meginástæðan fyrir því að þetta frv. er lagt fram nú. Hér er um að ræða stórt atriði sem þarfnast náinnar skoðunar og þarf mjög sterk rök fyrir að taka upp.

Virðulegur forseti. Í frv. er einnig gert ráð fyrir að refsivert sé að stofna til málamynda- eða nauðungarhjónabanda. Lögregla fær nokkur úrræði til þess, m.a. heimild til húsleitar ef grunur leikur á slíku. Ég held að við getum öll verið sammála um að slík hjónabönd séu ekki af hinu góða. Í sjálfu sér er kannski ekki ástæða til að gera athugasemd við að refsivert sé að stofna til hjónabands í þeim tilgangi einum að afla viðkomandi dvalarleyfis eða neyða aðra manneskju í hjónaband. Spurningin er kannski frekar um aðgerðirnar vegna þess að þær vega enn og aftur verulega að persónufrelsi einstaklinga.

Það er t.d. ekki skilgreint hvað átt er við með orðinu málamyndahjónaband. Að mínu mati þyrfti slík skilgreining að liggja fyrir. Reyndar er það svo að í íslenskum veruleika eru oft á tíðum mismunandi ástæður fyrir hjónaböndum. Spurningin til hæstv. dómsmrh. er því: Hvað er það sem kallar á þessa breytingu? Er þetta stórt vandamál sem yfirvöld standa frammi fyrir og er ástæða til að bregðast við á þennan hátt?

Ég vil líka minnast á 7. gr. frv. sem breytir 3. mgr. 29. gr. útlendingalaga. Ákvæðið mælir fyrir um heimild til húsleitar ef útlendingur neitar að upplýsa hver hann er. Í dag er heimildin til staðar ef útlendingur neitar að upplýsa hver hann er og leynir upplýsingum varðandi það. Samkvæmt frv. er lagt til að bætt verði við ákvæðið að hið sama gildi ef rökstuddur grunur leikur á málamynda- eða nauðungarhjónböndum. Spurningin er hvort það sé óeðlilega opið sem hér segir, að lögregla má ,,leita á útlendingnum, á heimili hans, herbergi eða hirslum samkvæmt reglum laga um meðferð opinberra mála, eftir því sem við á``. Eigum við ekki að stíga varlega til jarðar þegar við setjum svona heimildir í lög? Ég vil a.m.k. leggja til að þetta atriði verði skoðað betur í hv. allshn. þegar þar að kemur.

Um málamyndahjónaböndin segir í frv., líklega í athugasemdunum, að þegar metið er hvort grunur sé á málamyndahjónabandi sé m.a. litið til þess hvort aðilar hafi búið saman fyrir stofnun hjúskapar. Ég vek athygli á því að það er ekki sett sem skilyrði fyrir því að Íslendingar fái að ganga í hjónaband að þeir hafi búið saman fyrir stofnun hjúskapar. Ég vil líka benda á að í mörgum ríkjum er beinlínis ekki talið eðlilegt að fólk búi saman fyrir stofnun hjúskapar. Þetta finnst mér því kannski svolítið hæpin forsenda.

Þá skal taka tillit til aldursmunar og þess hvort þau tali tungumál hvors annars. Ég er ansi hrædd um, hæstv. forseti., að í ansi mörgum fullkomlega löglegum hjónaböndum hér á landi eigi í hlut Íslendingur og erlendur ríkisborgari þar sem viðkomandi skilja ekki tungumál hvort annars, tali kannski saman á þriðja tungumáli. Varðandi það hvort viðkomandi hjón þekki til einstakra atriða eða atvika úr lífi hvors annars, eins og segir í athugasemdum með frv., verð ég að segja, hæstv. forseti, að ég tel að þar séum við komin út á ansi hæpna braut. Við þurfum að stíga mjög varlega til jarðar, hæstv. forseti. Þótt vissulega kunni að hafa komið upp vandamál hvað þetta varðar --- það væri gaman að fá að vita hversu stór þau eru í sniðum --- þá þurfum við að hafa í huga að með tilliti til mannréttindasamninga og jafnræðisreglu megum við ekki setja of miklar hömlur á einkalíf innflytjenda hér á landi eða þeirra sem stofna til hjónabanda með erlendum ríkisborgurum.

Fleiri atriði væri vert að skoða í hv. allshn., t.d. að það er talið refsivert samkvæmt frv. að vera með fölsuð vegabréf eða önnur ferðaskilríki. Ef maður skoðar t.d. 31. gr. flóttamannasamnings Sameinuðu þjóðanna og leiðbeiningarreglur Alþjóða rauða krossins þá er aðildarríkjum gert að leggja ekki refsingar við að flóttamenn komi ólöglega til ríkjanna. Ég held að við þurfum að skoða þetta ákvæði í samhengi við þá samninga. Það má líka benda á að hér hefur verið nokkur umræða í þjóðfélaginu um mansal. Flest erum við líklega sammála um að það þurfi að uppræta með öllum mögulegum ráðum. En fórnarlömb mansals eru oft með fölsuð ferðaskilríki. Þetta hefur margoft komið fram í umræðum um mansal. Þessi tillaga að lagaskyldu virðist líka brjóta í bága við skyldu ríkja samkvæmt Palermo-samningnum til að vernda fórnarlömb mansals.

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að hafa fleiri orð við 1. umr. Ég treysti því að hv. allshn. taki frv. til mjög viðamikillar skoðunar. Ég tel að a.m.k. þau ákvæði frv. sem ég hef gert að umtalsefni komi til með að mæta nokkurri gagnrýni. Maður hefur þegar heyrt þá gagnrýni víða í samfélaginu. Ég ítreka enn og aftur spurningar mínar til hæstv. dómsmrh.: Hvað er það sem kallar á að gripið skuli til svo viðamikilla aðgerða? Hversu brýn er þessi þörf og hversu stórt er vandamálið? Hversu mörg eru tilfellin? Hve oft koma þessi vandamál til skoðunar hjá yfirvöldum?