Útlendingar

Mánudaginn 22. mars 2004, kl. 16:12:58 (5575)

2004-03-22 16:12:58# 130. lþ. 87.11 fundur 749. mál: #A útlendingar# (aðlögunarheimildir stækkunarsamnings ESB og EES o.fl.) frv. 20/2004, GÖg
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur, 130. lþ.

[16:12]

Guðrún Ögmundsdóttir:

Herra forseti. Hér hefur verið mælt fyrir frv. til laga um breyting á lögum um útlendinga frá 15. maí 2002, þ.e. hér eru strax komnar brtt. við glæný útlendingalög sem ollu bæði uppnámi og miklum umræðum í þinginu ekki fyrir margt löngu. Það er ýmislegt sem er líka jákvætt í frv., það ber að taka það fram og kom jafnframt fram í máli hv. þm. Bryndísar Hlöðversdóttur.

Mig langar að nefna eitt sem er jákvætt, t.d. í 2. gr., að nú er búið að setja inn samvistarmaka, sem var ekki í lögunum, þó svo að það hafi verið rætt áður.

En það er ýmislegt sem ber hreinlega að harma að skuli vera komið aftur í þingið. Þá er ég auðvitað að tala um 7. gr. laganna er varðar rannsókn á erfðaefni og töku lífsýnis.

Þegar fyrra útlendingafrumvarp var í þinginu kom það fram í þinginu í tvígang. Í fyrri umferð voru gríðarlega miklar umræður og fengnar umsagnir um málið. Málið fór aftur inn í ráðuneyti og var tekið út þar vegna einróma athugasemda. Það var alveg sama hvar okkur bar niður, hvort það var Persónuvernd, Mannréttindaskrifstofan eða Lögmannafélagið. Það eina sem allir sögðu var: Þetta er of langt gengið.

Meira að segja Norðurlöndin ganga ekki svona langt. Þau eru að sjálfsögðu með fingraför og myndir og meira að segja með gríðarlegar skilgreiningar hvenær má taka það og hvenær má nota það. Við erum ekki með það miklar skilgreiningar þar undir.

[16:15]

Það væri ráð að skoða gömlu umsagnirnar. Ég á umsagnirnar frá því er málið kom fyrir nefndina í síðara skiptið sem þetta var tekið út. Sem betur fer var ýmislegt lagað í annarri umferð. Þetta er háalvarlegt mál. Með því að setja slík ákvæði fram núna er verið að skapa úlfúð um atriði sem koma inn vegna stækkunar EES. Það á að nota ferðina til að koma inn ákvæðum sem eru ekki boðleg. Það verður spennandi að sjá hvað Persónuvernd og allir aðrir segja um þau ákvæði. Þetta ákvæði þarf að skoða nánar.

Einnig þarf að skoða 10. gr. Þar segir, með leyfi forseta:

,,Eftirfarandi breytingar verða á 36. gr. laganna:

a. Við greinina bætist ný málsgrein er orðast svo:

Um skilyrði fyrir útgáfu búsetuleyfis EES-útlendings gilda ákvæði 15. gr.``

Þarna er um að ræða greinina um íslenskunámið. Ég fæ ekki betur séð en að um þetta hafi einnig verið rætt þegar fjallað var um áðurnefnt frumvarp. Þetta var ekki sett inn í það frumvarp enda kemur það inn á samninginn um frjálsa för milli landa. Við þurfum að skoða hvaða samninga við mundum brjóta eða a.m.k. fara út í jaðarinn á með því að setja slíkt í lög.

Hv. þm. Bryndís Hlöðversdóttir benti einnig á mjög vafasöm atriði í 16. gr. sem stangast á við það sem rætt var um á fundi í Norræna húsinu, um mansal, og 31. gr. flóttamannasamningsins. Þetta eru athugasemdir sem við verðum að skoða í nefndinni og kalla eftir umsögnum um hvort stangist á við skuldbindingar okkar að því leyti. Útlendingalögin, hin glænýju lög, voru um margt helmingi þrengri en önnur lög. Það er oft talað um að þetta sé gert til samræmis við lög á Norðurlöndunum. Guð láti gott á vita með að við tökum upp jákvæða hluti úr lögum á Norðurlöndunum, t.d. að stjórn sé sett yfir útlendingastofnanir sem sjá um það að ráða, reka og taka sýni, hafa lækni til þess starfa. Að hafa stjórn yfir þeim veitir ákveðið aðhald. Þar sæti fólk frá mannréttindasamtökum og Rauða krossinum o.s.frv. þannig að fólk hefði möguleika að bera hönd fyrir höfuð sér. Það væri mjög gott ef við fengjum hið jákvæða úr öðrum lögum inn í okkar lög. Við ættum kannski að sæta lagi og setja það inn í lögin núna. Það mundi vinna gegn hinum raunverulegu vandamálum sem komið hafa upp. Hér hefur verið rætt um nauðungar- og málamyndahjónabönd. Þau eru talin vandamál. Ég veit um örfá slík dæmi en þó er ekki þar með sagt að setja þurfi það þannig í lögin að það geti skert mannréttindi. Þetta er spurning um miklar heimildir án mikils tilefnis.

Það sem ég hefði viljað sjá sem hluta af þeim breytingum sem gera á eru umbætur á aðstæðum barna sem hingað koma án foreldra og eru forsjárlaus. Það er eitt af stóru málunum sem voru rædd í útlendingalögunum síðast. Það fékkst ekki í gegn en samt kom fram í meirihlutaáliti frá nefndinni að þau mál mundu tekin fyrir í tengslum við barnaverndarlög. Barnaverndarlögin voru jafnframt í vinnslu þingsins en þetta var ekki sett inn í þau. Það er hins vegar mjög mikilvægt. Ég vil benda öllum hv. þm. á að í norskum, sænskum og dönskum lögum er tekið á hagsmunum barna upp að 18 ára aldri sem koma til landanna forsjárlaus. Í Noregi og Svíþjóð er gríðarstór hópur slíkra barna. Við þurfum að bregðast við áður en slíkum vandræðamálum fjölgar. Við þekkjum eitt tilfelli, þ.e. drengina frá Sri Lanka. Við eigum að fyrirbyggja að hingað komi yngri börn. Við verðum að vita hvernig á að taka á málunum, hvaða ferli á að fara í gang og hvernig standa skuli að slíkum málum. Okkur væri sómi af því.

Auðvitað er margt jákvætt í frv. Vinnslan í nefndinni verður eflaust talsverð þótt spurning sé um hvort ekki verði að tvískipta þessu og taka EES-stækkunina sér því að um hitt þarf mikla umræðu. Það er vafasamt að stofna til hennar að óþörfu.