Útlendingar

Mánudaginn 22. mars 2004, kl. 16:20:16 (5576)

2004-03-22 16:20:16# 130. lþ. 87.11 fundur 749. mál: #A útlendingar# (aðlögunarheimildir stækkunarsamnings ESB og EES o.fl.) frv. 20/2004, RG
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur, 130. lþ.

[16:20]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að hafa mörg orð um 24 ára aldursmörkin, hin ströngu ákvæði og erfðarannsóknir. Það hafa flokkssystur mínar úr Samf., hv. þm. Guðrún Ögmundsdóttir og Bryndís Hlöðversdóttir, gert ágætlega. Ég ætla að tala um annað sem er mér ofarlega í huga í tengslum við þessa umræðu.

Ég skil ekki hvers vegna ríkisstjórnin er svo hrædd við útlendinga. Mér stendur stuggur af þeirri löggjöf sem ríkisstjórnin setur í málefnum útlendinga. Þetta er ekki í fyrsta sinn. Það er löngu ljóst að núverandi stjórn er í nöp við þá útlendinga sem hingað koma.

Það er ekki mjög langt síðan á komst löggjöf um útlendinga. Það hafði verið beðið eftir henni mjög lengi. Það tók margra ára eftirgrennslan, eftirgangsmuni og fyrirspurnir á Alþingi. Hvað líður vinnunni? Hvenær verða sett lög um útlendinga? Á hverju strandar með að setja lög um útlendinga í takt við þá alþjóðasamninga sem við höfum gert, ekki síst flóttamannasamning Sameinuðu þjóðanna? Af hverju er ekki hægt að drífa í þessu verki?

Margir ráðherrar höfðu verið í dómsmrn. frá því að fyrst var spurt um þessi mál og þar til lögin voru loksins sett. Hið merkilega er að þeir hafa allir verið frá sama flokknum, frá Sjálfstfl. Þeir hafa haft forræði málsins. Þegar gengið var eftir því að sett yrðu lög í samræmi við alþjóðasamning um flóttamenn var alltaf sagt: Það er verið að vinna að þessu í ráðuneytinu. Þetta kemur bráðum. Það kemur seinna á þinginu. Það kemur í haust. Það kemur í vetur.

Réttindi útlendinga sem komu til landsins sem hælisleitendur voru algerlega fyrir borð borin. Alþingi og viðkomandi ráðherrar fengu æ ofan í æ erindi og bréf um að réttindi þeirra, þá er ég t.d. að tala um flóttamenn, væru ekki virt. Það að fá skilgreindan rétt flóttamanna við komu til landsins, að fá túlk, dróst. Þeir fengu ekki strax afgreiðslu og þann rétt tók langan tíma að færa í lög.

Það er mjög sérkennilegt að árið 2004 skulum við fjalla um sambúð fólks þvert á landamæri og lesa frv. af því tagi sem hér er sett fram. Það eru mjög mikil vonbrigði að skynja hve uppteknir menn eru af því að verjast útlendingum. Þetta hefur svo sem gerst annars staðar. Þegar ríkisstjórnin sem nú situr í Danmörku komst til valda setti hún mjög fljótlega lög um útlendinga. Um þau lög urðu mikil átök í Danmörku. Viðbrögð við þeim voru meira að segja mikil og sterk í Norðurlandaráði. Það var ekki ljóst þegar þau lög voru skoðuð hvort þar væri meira að segja gengið á Norðurlandasamninga sem við höfum virt í gegnum árin og hafa skapað þær aðstæður að þeir sem búa á Norðurlöndunum eigi sömu réttindi í hverju landi fyrir sig og þeir hafa heima fyrir. Um þetta komu margar fyrirspurnir og þetta var erfitt mál fyrir ríkisstjórn Danmerkur. Ákefðin í að setja lögin hafði verið það mikil að það var ekki auðvelt að svara því hvort þau stönguðust á við Norðurlandasamninga. Eina spurningin sem ég ætla að bera fram við hæstv. dómsmrh. er hvort það hafi verið skoðað við samningu þessa frv.

Ég sé að hér er vísað í rétt samkvæmt samningi Noregs, Íslands og Evrópusambandsins, EES-samninginn. En ég spyr hvort Norðurlandasamningar hafi verið skoðaðir sérstaklega.

Hins vegar kveð ég mér ekki hljóðs vegna þessa. Það er löngu ljóst að ef viðhalda á velferðarsamfélögum, eins og við þekkjum þau á Norðurlöndum og víða í Vestur-Evrópu, þurfum við á útlendingum að halda. Færri og færri eru til að skila þeim störfum sem velferðarsamfélagið þarf á að halda. Eftirlaunaþegum fjölgar og færri börn fæðast. Um þetta er rætt í nágrannalöndum okkar. Það er búið að gera úttekt á því hversu mörgum innflytjendum líklegt er að Vestur-Evrópulöndin, ekki síst Norðurlöndin, þurfi á að halda til að geta sinnt þeim mikilvægu störfum sem við viljum að leyst séu af hendi.

Auðvitað hafa Íslendingar alltaf unnið mjög mikið. Um það ganga frægar sögur að Íslendingar vinni tvö störf. Við eigum að varast slíkar hugsanir í dag. Tímarnir eru breyttir. En það er eitt sem ég hefði talið að við værum sammála um í öllum flokkum, þ.e. að við ætlum ekki að rýra samfélagsgerð okkar. Þess vegna er mjög mikilvægt að samfélag eins og okkar bjóði fólk sem vill koma og starfa með okkur að uppbyggingu þjóðfélagsins velkomið til starfa og þátttöku í þeirri tilveru sem Íslendingar búa við. Okkur finnst það hentugt þegar á þarf að halda.

Ég minni á að þegar ákveðið var að ráðast í risavirkjun norðan jökla þótti ekki tiltökumál að hingað kæmu verktakar með fjölda fólks með sér. Kannski hentar það núv. ríkisstjórn best að þeir útlendingar sem hingað koma séu geymdir uppi á fjöllum. Kannski vill ríkisstjórnin bara fá hópa sem eru tilbúnir að koma í örskamma stund og hverfa svo, flytja til annarra landa þar sem vinnu er að hafa. En það þarf að horfa til framtíðar í þessum málum eins og öðrum. Mér finnst mikilvægt að þegar allshn. skoðar þetta mál hugi hún að því hvernig taka skuli á móti því fólki sem hingað kemur og ætlar að deila með okkur kjörum. Ætlar allshn. að setja þannig lög að þessu fólki sé mætt með virðingu og samkennd?

Ég vona að Alþingi, sem setur lögin þó að ráðherrar og ríkisstjórn leggi frv. fyrir það, beri gæfu til að snúa frá þeirri andúð sem birtist í lagasetningum ríkisstjórnarinnar varðandi útlendinga. Alþingi verður að skoða hverju þarf að breyta og breyta því þannig að komið sé fram við fólk sem hingað kemur með virðingu. Það er forsenda þess að til okkar verði horft með virðingu.