Útlendingar

Mánudaginn 22. mars 2004, kl. 16:44:37 (5580)

2004-03-22 16:44:37# 130. lþ. 87.11 fundur 749. mál: #A útlendingar# (aðlögunarheimildir stækkunarsamnings ESB og EES o.fl.) frv. 20/2004, BH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur, 130. lþ.

[16:44]

Bryndís Hlöðversdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég held að einmitt sé verið að setja þarna reglur sem geti hugsanlega bitnað á þeim sem eru hér löglega í landinu. Ég dró fram í ræðu minni t.d. regluna um 24 ára hjúskapinn ef einstaklingur er af erlendu bergi brotinn. Ég tel ekkert réttlæta slíka reglu og hæstv. dómsmrh. fellur svolítið í þessari rökræðu á því að geta ekki svarað hversu mörg dæmi við erum að tala um. Hæstv. dómsmrh. fullyrðir það í andsvari að menn séu að svindla sér inn á Schengen-svæðið með þessum aðferðum. Er það svo? Við höfum ekki fengið svör við því enn og eftir því sem ég hef verið að reyna að spyrjast fyrir frá því að frv. kom fram virðist vera fátt um svör þegar maður spyr um fjölda dæma sem verið er að takast á við.

Ég trúi því, hæstv. forsrh., að hæstv. dómsmrh. sé sammála mér í því að ekki eigi að setja meiri hömlur á persónufrelsi og friðhelgi einkalífs fólks yfirleitt nema fyrir því séu verulega brýn rök og brýn nauðsyn. Því tel ég, virðulegi forseti, að hæstv. dómsmrh. verði að svara þessu hér. Auðvitað geri ég ráð fyrir að hann muni ekki gera það úr því sem komið er. Búið er að margreyna að kalla eftir slíkum dæmum. Ég er ekki að biðja um að einstaklingar séu nefndir til sögunnar. Ég er að biðja um fjölda dæma. Hvert er vandamálið?

Við munum að sjálfsögðu taka það til skoðunar í hv. allshn. en ég tel að hæstv. dómsmrh. eigi ekki að leggja fram frv. á borð við þetta sem felur í sér slíka takmörkun á persónufrelsi og friðhelgi einkalífs öðruvísi en hafa fyrir því haldbær rök og önnur en þau, virðulegur forseti, að vísa bara til Norðurlandanna sem kunna að standa frammi fyrir allt öðrum vandamálum en við stöndum frammi fyrir hér á landi.