Afleiðingar hermdarverkanna í Madríd

Þriðjudaginn 23. mars 2004, kl. 13:33:25 (5589)

2004-03-23 13:33:25# 130. lþ. 88.96 fundur 431#B afleiðingar hermdarverkanna í Madríd# (umræður utan dagskrár), Flm. GÁS (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 88. fundur, 130. lþ.

[13:33]

Guðmundur Árni Stefánsson:

Herra forseti. Hryðjuverkin í Madríd þann 11. mars sl. þar sem meira en 200 saklausir borgarar létu lífið færðu okkur enn og aftur heim sanninn um að enginn er óhultur fyrir bylgju glæpaverka sem framin eru af hryðjuverkamönnum sem virða engin lög eða landamæri, ráðast að almennum borgurum og hlífa engum. Í öllum löndum hins lýðfrjálsa heims eru yfirvöld að fara yfir það hvernig treysta megi öryggis- og varnarmál vegna þessarar síauknu hættu hryðjuverka. Utanríkisráðherrar Evrópusambandsins funduðu í gær og ábendingum er komið til almennings í nágrannalöndum okkar á borð við Bretland og Danmörku þar sem fólk er hvatt til að hafa vara á sér og tilkynna yfirvöldum ef minnstu grunsemdir vakna um tilvist hryðjuverkamanna.

Við Íslendingar þurfum á sama hátt að fara rækilega yfir stöðu mála hérlendis. Ég vil alls ekki ala á neinum ótta meðal almennings en óhjákvæmilegt er að ræða stöðu öryggismála hérlendis í ljósi þeirrar hættu sem hryðjuverkin eru. Því hlýt ég að spyrja hæstv. utanrrh. hvort og þá með hvaða hætti viðbrögð ríkisstjórnarinnar í þessum efnum hafi verið. Hvernig hafa íslensk yfirvöld brugðist við í kjölfar árásanna í Madríd? Hver er viðbúnaður okkar vegna þessa? Hvað erum við Íslendingar að gera í þessum málum? Þessi mál verðum við að ræða efnislega.

Samstaða lýðræðisríkja er grundvallaratriði í baráttunni gegn hryðjuverkum. Hinu er þó ekki að leyna að deilur um réttmæti innrásarinnar í Írak fyrir rétt rúmu ári orsökuðu það að vík varð á milli fyrrum vinaþjóða og enn er uppi ósætti vegna þeirrar innrásar og afleiðingar hennar á stöðu mála í Írak og á þann heimshluta allan.

Við jafnaðarmenn lögðumst þannig eindregið gegn því að Ísland skipaði sér á lista hinna viljugu eða staðföstu sem studdu innrás Breta og Bandaríkjamanna fyrir rúmu ári, ekki síst í ljósi þess að innan SÞ var alls ekki samstaða um þær aðgerðir. Meginástæða innrásarinnar var meint tilvist gereyðingarvopna í Írak sem í ljós hefur komið að engin voru. Æ fleiri sérfræðingar, m.a. sérfræðingar Bush Bandaríkjaforseta, hafa opinberað að gefnar forsendur fyrir innrásinni voru byggðar á blekkingum og hálfsannleik.

Ástandið í Írak er því miður enn þá afar óstöðugt. Það er langt í frá festa eða öryggi til staðar. Hryðjuverkamenn virðast hafa tekið sér þar bólfestu. Hermenn og borgarar láta þar lífið nánast á degi hverjum.

Alþjóðasamfélagið hefur látið til sín taka með ýmsum hætti á síðustu missirum og árum til að stemma stigu við ógnarstjórn, þjóðarmorðum og illvirkjum og náð um það samstöðu. Má þar nefna aðgerðir í Kosovo og á Balkanskaga öllum sem og í Afganistan.

Hins vegar er því ekki að leyna að aðgerðaleysi alþjóðasamfélagsins í deilunum fyrir botni Miðjarðarhafsins milli Palestínu og Ísraels, einkum vegna andstöðu Bandaríkjanna gagnvart pólitískum afskiptum vestrænna þjóða, gerir það að verkum að þar sýður og kraumar. Þar eru blóðug átök viðvarandi án þess að fyrir endann sjái.

Þessi dægrin er t.d. allt á suðupunkti vegna dráps Ísraelsmanna á einum forustumanna Hamas-samtakanna, Ahmed Yassin. Er hreinlega beðið hermdaraðgerða þeirra síðarnefndu. Það er lífsnauðsynlegt að koma af stað friðarferli í Palestínu og þar verða lýðfrjálsar þjóðir að stýra för.

Lýðræðið hafði sigur á hryðjuverkunum á Spáni í frjálsum kosningum sem þar fóru fram. Margir benda á að tilraunir hægri stjórnar Aznars til að afvegaleiða fólk og telja því trú um að ETA í stað Al Kaída hefðu verið ábyrg fyrir ódæðinu hefðu í raun leitt til ósigurs stjórnarinnar. Það er nefnilega nauðsynlegt að yfirvöld komi fram af hreinskilni og segi satt og rétt frá í þessari baráttu lýðræðis gegn hryðjuverkum. Yfirvöld og almenningur þurfa að standa saman í baráttunni. Annað leiðir til ófarnaðar.

Það er óhjákvæmilegt að við Íslendingar skilgreinum lágmarksviðbúnað sem okkur er nauðsynlegur hér á landi. Við höfum í meira en 50 ár notið herverndar Bandaríkjamanna. Á því gætu orðið grundvallarbreytingar á næstu mánuðum eða missirum. Bandaríkjamenn vilja fara. Enn þá er fátt af því að frétta hver staða þeirra mála er en því lýst að viðræður um varnarmálin séu fyrirhugaðar í næsta mánuði. Hvert upplegg okkar er í þeim viðræðum er um sumt óljóst, og mikilvægt er að utanrrh. og ríkisstjórnin skýri þá afstöðu fyrir þingi og þjóð. Um það spyr ég nú: Hver er lágmarksvarnarviðbúnaður okkar Íslendinga að mati utanrrh.? Hryðjuverkaváin hlýtur óhjákvæmilega að spila þar inn í þegar varnir Íslands eru skoðaðar og skilgreindar til framtíðar. Hver er stefna ríkisstjórnarinnar í þeim efnum? Um það spyr ég, virðulegi forseti.