Afleiðingar hermdarverkanna í Madríd

Þriðjudaginn 23. mars 2004, kl. 13:43:55 (5591)

2004-03-23 13:43:55# 130. lþ. 88.96 fundur 431#B afleiðingar hermdarverkanna í Madríd# (umræður utan dagskrár), ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 88. fundur, 130. lþ.

[13:43]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Hæstv. utanrrh. Íslands, Halldór Ásgrímsson, lýsti því yfir í gær að hann fordæmdi morðið á Yassin, leiðtoga Hamas-samtakanna í Palestínu. Þar er ég honum sammála og ég heyrði ekki betur en að hann fordæmdi aðferðafræðina, að uppræta meint ofbeldi með enn meira ofbeldi, að kveða niður hreyfingu með því að myrða forsvarsmenn hennar.

Aðferðafræðin sem Ísraelsmenn beita er engu að síður nákvæmlega sama aðferðafræðin og Bandaríkjastjórn hefur viðhaft. Ríkisstjórn Bush í Bandaríkjunum í slagtogi með ríkisstjórn Tonys Blairs á Bretlandi og með stuðningi svokallaðra staðfastra ríkja, þar á meðal Íslands, hefur einmitt farið fram undir þeim formerkjum að hernaðarofbeldi sé réttlætanlegt og skynsamlegt til þess að kveða niður hryðjuverk.

Fjöldamorðin á Spáni eru enn eitt dæmið, eitt hið allra hryllilegasta, um að þessi aðferðafræði er röng. Hún er hvorki réttlætanleg né skynsamleg. Meira að segja Donald Rumsfeld, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, sagði í sjónvarpsviðtali fyrir fáeinum dögum að bandaríska herstjórnin í Írak réði ekki við hryðjuverkamenn. Þeir gætu alltaf látið til sín taka á óvæntan og ófyrirsjáanlegan hátt. Það þyrfti nánast að vera maður á mann. Mér varð hugsað til þess að einmitt það væri nú að gerast í mörgum ríkjum heims með vaxandi eftirliti með borgurunum og mjög sterkri tilhneigingu í átt til lögregluríkis, einkum hjá stjórnlyndum hægri mönnum.

Þær ríkisstjórnir sem lögðu blessun sína yfir árásina á Írak töldu sig hafa sannanir fyrir því að það væri nauðsynlegt. Nú hefur komið á daginn að þær sannanir reyndust upplognar og hefur þetta leitt til pólitísks uppgjörs í mörgum hlutaðeigandi ríkjum. Slíkt hefur ekki gerst hér og er það löngu tímabært. En það sem fyrst og fremst skiptir máli er að forsvarsmenn utanríkismála þjóðarinnar breyti um stefnu varðandi stuðning við leiðir til að uppræta ofbeldi í heiminum. Því miður heyrðist mér á hæstv. utanrrh. að ekkert hefði breytt afstöðu hans. Hann talar mikið um öfgar og öfgamenn. Það hæfir kannski vel fyrir forsvarsmenn ríkisstjórnar sem hefur skipað okkur í flokk ríkja sem aðhyllast hernaðarhyggju.