Afleiðingar hermdarverkanna í Madríd

Þriðjudaginn 23. mars 2004, kl. 13:46:24 (5592)

2004-03-23 13:46:24# 130. lþ. 88.96 fundur 431#B afleiðingar hermdarverkanna í Madríd# (umræður utan dagskrár), SP
[prenta uppsett í dálka] 88. fundur, 130. lþ.

[13:46]

Sólveig Pétursdóttir:

Hæstv. forseti. Ég verð að segja að tímasetningin á þessari umræðu hjá hv. málshefjanda er nokkuð einkennileg þar sem utanrmn. hafði ákveðið að fjalla um þessi mál á morgun á fundi með hæstv. utanrrh.

Hryðjuverkaárásin á Madríd þann 11. mars sl. var hryllileg aðför að lýðræðinu, tilefnislaus árás á saklausa borgara. Hryðjuverkamenn hafa farið með ófriði gegn ríkisstjórnum fjölmargra ríkja. Stjórnvöldum er gert erfitt fyrir, enda er alltaf reynt að finna skýringar á því hvers vegna slíkir atburðir eiga sér stað.

Skýringin er einföld. Hér eiga í hlut samviskulausir glæpaflokkar sem aldrei verður séð fyrir hvað taki sér fyrir hendur. Í þessu sambandi má nefna hryðjuverkin á Balí og árásina á World Trade Center 1997.

Á ráðstefnu sem ég sótti í Bratislava í síðustu viku var rætt um öryggis- og varnarmál jafnframt nýrri stefnu Evrópusambandsins gagnvart nýjum nágrönnum þess eftir stækkun. Sammerkt málflutningi allra þessara aðila var að NATO væri grundvallarstofnun varðandi varnar- og öryggismál í heiminum í dag og að Norður-Atlantshafstengslin bæri að styrkja og efla. NATO telur nýjar ógnir felast í hryðjuverkum og að grípa þurfi til aðgerða gegn þeim. Á þessari ráðstefnu var raunar ekkert minnst á stríðið í Írak.

Eftir atburðina þann 11. september 2001 var flugstöðin í Keflavík tekin út sérstaklega með tilliti til öryggismála. Það var eitt af framlögum okkar til baráttunnar gegn hryðjuverkum. Schengen-upplýsingakerfið hefur verið ómetanlegt tæki í þessari baráttu og við höfum náð árangri. Við höfum einnig lagt gríðarlega áherslu á að viðhalda varnarviðbúnaði á Keflavíkurflugvelli á grundvelli varnarsamnings Íslands og Bandaríkjanna. Viðræður eru væntanlega að fara af stað aftur í næsta mánuði.

Loftvarnir eru eitt af grundvallaratriðunum í að tryggja varnir. Fælingarmáttur orrustuþotna og herlið sem staðsett er hér á landi verður seint ofmetið.

Hæstv. forseti. Hv. þm. þurfa ekki að hafa áhyggjur af því að ríkisstjórnin fylgist ekki með gangi mála og grípi til þeirra aðgerða sem unnt er.