Afleiðingar hermdarverkanna í Madríd

Þriðjudaginn 23. mars 2004, kl. 13:48:48 (5593)

2004-03-23 13:48:48# 130. lþ. 88.96 fundur 431#B afleiðingar hermdarverkanna í Madríd# (umræður utan dagskrár), MÞH
[prenta uppsett í dálka] 88. fundur, 130. lþ.

[13:48]

Magnús Þór Hafsteinsson:

Hæstv. forseti. Fjöldamorðin á saklausum borgurum í Madríd sýna enn á ný að ný tegund af hryðjuverkum hefur rutt sér til rúms. Svipað hefur gerst í Moskvu, New York, Istanbúl og á Balí. Framkvæmd voðaverkanna er með mjög myndrænum og hryllilegum hætti til að áhrifin verði sem allra mest. Dreifa á ótta og óöryggi á meðal borgaranna, grafa undan þjóðskipulagi og ríkisstjórnum, veikja lýðræðisskipulag og jafnvel hagkerfi þeirra ríkja sem verða fyrir þessum hryllilegu hryðjuverkaárásum. Þessi svívirðilegu glæpaverk eru réttlætt með því að verið sé að framkvæma einhverja óljósa hefnd. Allt virðist benda til að öfl sem eiga rætur að rekja til Miðausturlanda hafi gegnt lykilhlutverki í sprengjuárásunum í Madríd. Þessi öfl telja sig eiga harma að hefna gegn vestrænum ríkjum. Óánægja, vonbrigði og firring kraumar undir niðri í þjóðfélögum Miðausturlanda, fátækt, kúgun, arðrán, úrelt stjórnskipulag einræðisstjórna, auðmýkjandi framkoma vestrænna þjóða gagnvart menningu og trú Miðausturlanda og stríðið endalausa milli Palestínumanna og Ísraela sem haldið er uppi af Bandaríkjunum, allt eru þetta þættir sem skapa skilyrði til að öfgaöfl nái að koma ár sinni fyrir borð og eitra ekki síst huga ungu kynslóðarinnar.

Hryðjuverkin í Madríd marka tímamót. Í fyrsta sinn er slíkt voðaverk framið í Vestur-Evrópu innan landamæra ríkis sem bæði er í Evrópusambandinu og NATO. Öryggi Evrópu er ógnað.

Þau öfl sem nú ráða ríkjum í Bandaríkjunum hafa sýnt að þau eru gersamlega ófær um að leita leiða til að finna lausnir á vanda Miðausturlanda. Æ fleiri íbúar Evrópu og Bandaríkjanna gera sér nú grein fyrir þessu. Það er mikil einföldun, eins og heyra mátti á hæstv. forsrh. á dögunum, að halda því fram að Spánverjar hafi látið hryðjuverkamenn hræða sig til að kjósa sósíaldemókrata til valda. Niðurstöður þingkosninganna á Spáni endurspegla annað og meira. Þær sýna að traust almennings í Evrópu og trúverðugleiki í stefnu Bandaríkjamanna í utanríkismálum er nú í algjöru lágmarki og fer minnkandi dag frá degi.

Vandi Miðausturlanda verður ekki leystur með vopnavaldi eins og ráðamenn Íslands virðast trúa. Hann verður heldur ekki leystur með því að sjálfumglaðir ráðamenn hér á landi og annars staðar bindi trúss sitt við vopnaglaða stefnu öfgamanna í Bandaríkjunum þvert á vilja sinna eigin þjóða.

Íslendingar ættu að fylgja fordæmi Spánverja og losa sig við slíka ráðamenn hið fyrsta.