Afleiðingar hermdarverkanna í Madríd

Þriðjudaginn 23. mars 2004, kl. 14:06:04 (5601)

2004-03-23 14:06:04# 130. lþ. 88.96 fundur 431#B afleiðingar hermdarverkanna í Madríd# (umræður utan dagskrár), Flm. GÁS
[prenta uppsett í dálka] 88. fundur, 130. lþ.

[14:06]

Guðmundur Árni Stefánsson:

Herra forseti. Ég þakka fyrir umræðuna. Ég tel hana um margt gagnlega þótt ég undrist að formaður utanrmn., fulltrúi Sjálfstfl. í umræðunni, hafi kveinkað sér undan henni. Ég vildi láta koma fram að ég óskaði eftir utandagskrárumræðu um málið fyrir heilli viku síðan. En af henni gat ekki orðið fyrr en nú vegna fjarveru hæstv. utanrrh.

Ég þakka jafnframt hæstv. utanrrh. svörin. Hann upplýsti um nokkrar aðgerðir sem gripið hefur verið til í kjölfar árásanna á tvíburaturnana 11. september fyrir rétt um þremur árum. Ég spurði hann líka um hvernig hann sæi fyrir sér að varnarliðið á næstu mánuðum, missirum og árum kæmi að því að tryggja þessar lágmarksvarnir. Hann svaraði því ekki. Það er mikilvægt að fá um það upplýsingar og einnig um hitt, hverjar þessar lágmarksvarnir eru að hans áliti, m.a. með tilliti til loftvarna.

Auðvitað er allt of mikil einföldun að halda því fram að aðgerðir gegn hryðjuverkum snúist eingöngu um þau ráð sem gripið er til á heimavelli. Það er að sönnu mikilvægt en vissulega skiptir líka mjög miklu máli hver hin stjórnmálalega afstaða ríkjandi valdhafa er hverju sinni. Fram hjá því er ekki hægt að horfa. Það er fjarri lagi að halda því fram að það sé til marks um linkind stjórnmálamanna þegar þeir vilja ekki fara í einu og öllu eftir órum og duttlungum Bush Bandaríkjaforseta. Þannig er það auðvitað ekki í henni veröld.

Það skiptir máli hvaða heildarstefnu við höfum í þessum málum og við jafnaðarmenn viljum taka fast og örugglega á þessum glæpamönnum. En við viljum gera það með kalt höfuð en heitt hjarta. Því miður er það þannig að ríkisstjórn Íslands hefur í allt of ríkum mæli farið að órum Bandaríkjastjórnar, gert of mikið í Írak en allt of lítið í þeim suðupotti sem Miðausturlönd eru í deilu Palestínumanna og Ísraela. Á því þarf að verða breyting. Þar skiptir pólitík öllu máli.