Verslun með áfengi og tóbak

Þriðjudaginn 23. mars 2004, kl. 14:43:26 (5612)

2004-03-23 14:43:26# 130. lþ. 88.7 fundur 342. mál: #A verslun með áfengi og tóbak# (einkaréttur til innflutnings á tóbaki, EES-reglur) frv. 24/2004, ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 88. fundur, 130. lþ.

[14:43]

Ögmundur Jónasson:

Hæstv. forseti. Hér er á ferðinni fyrra frv. af tveimur um skyld efni, um verslun með áfengi og tóbak. Eins og fram kemur í greinargerð með þessum frv. er verið að samræma íslenska löggjöf tilskipunum EES-samningsins en frá 1. janúar árið 2002 var vörusviði samningsins breytt þannig að nú fellur tóbak undir almennar reglur samningsins um frjálst flæði vara.

Í greinargerðinni kemur enn fremur fram, eins og fram kom í máli hv. framsögumanns, Péturs H. Blöndals, að Eftirlitsstofnun EFTA hafi gert athugasemdir við einkarétt ríkisins á innflutningi og framleiðslu á tóbaki og er það einkaréttarákvæði numið brott með þessum lögum.

Um þetta frv. hafa borist umsagnir nokkurra aðila og ég ætla að leyfa mér að vísa hér í athugasemdir sem bárust frá BSRB. Þar segir m.a., með leyfi forseta:

,,BSRB telur fráleitt að líta á tóbak sem hverja aðra verslunarvöru í ljósi þess hve mikill skaðvaldur tóbak er fyrir einstaklinginn og samfélagið.

Í ljósi þess að þetta frumvarp losar um það fyrirkomulag sem hér er á verslun með tóbak og opnar leið til frekari markaðsvæðingar þessarar vöru og þar með aukins þrýstings á neyslu tóbaks, lýsir BSRB fyrirvara gagnvart þessum lagabreytingum.``

Þá vekur BSRB athygli á að opnað er á heimildir til að framleiða tóbak hér á landi en hingað til hefur þessi réttur verið takmarkaður við ÁTVR. Ekki verður séð að þetta horfi til framfara.

Þessum breytingum er ekki andmælt af hálfu ÁTVR. Í umsögn sem kemur frá fjmrn. er tekið skýrt fram að þessar breytingar munu ekki leiða til tekjutaps fyrir ríkissjóð. Hins vegar vil ég taka undir þau sjónarmið sem hér var vísað til, að verið er að losa um það fyrirkomulag sem hér er á verslun með tóbak, enda segir það sig sjálft þegar verið er að færa þessa vörutegund undir almennar reglur EES-samningsins um frjálst flæði vara.

Ég tek undir það sem segir í niðurlagi álitsgerðar BSRB, að ekki horfi til framfara að færa verslun með tóbak inn á þessar brautir. Fyrir fáeinum árum þótti það bera vott um íhaldssemi að vilja halda í ÁTVR, verslun ríkisins með tóbak og áfengi, en þessi viðhorf eru að breytast mjög í seinni tíð. Þjóðfélagið er að vakna til vitundar um mikilvægi þess að líta á verslun með áfengi, og tóbak einnig, í ljósi heilbrigðissjónarmiða. Þetta er mikill skaðvaldur í samfélaginu og ber að taka á honum sem slíkum.

Ég lýsi þess vegna fullum fyrirvara varðandi þessar breytingar og mun ekki geta veitt þeim brautargengi þegar þessi frv. koma hér til atkvæða.