Verslun með áfengi og tóbak

Þriðjudaginn 23. mars 2004, kl. 14:47:36 (5613)

2004-03-23 14:47:36# 130. lþ. 88.7 fundur 342. mál: #A verslun með áfengi og tóbak# (einkaréttur til innflutnings á tóbaki, EES-reglur) frv. 24/2004, ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 88. fundur, 130. lþ.

[14:47]

Þuríður Backman:

Herra forseti. Við fjöllum um frv. til laga um breyting á verslun með áfengi og tóbak. Samhliða því frv. er einnig rætt um frv. um áfengis- og tóbaksgjald.

Ég vil segja nokkur orð um frv. Ég hef lesið umsagnir um það og eins það sem fram kemur í athugasemdum við lagafrv. Þar er bent á að með frv. sé verið að fara að þeim ákvæðum EES-samningsins sem tóku gildi 1. janúar árið 2002 en þá var tóbak sett undir þá skilgreiningu að það væri eins og hver önnur vara og félli þar af leiðandi undir regluna um frjálst flæði vara á milli landa innan Evrópska efnahagssvæðisins.

Við þessu er lítið að segja. Þetta er skilgreining sem búið er að festa. En ég verð að segja að mér finnst þeir sem fjalla um tóbak eins og hverja aðra eðlilega neysluvöru vera á villigötum að viðurkenna ekki tóbakið sem mjög skaðlegt efni. Í raun og veru ætti þar af leiðandi stöðugt að fjalla um það með ákveðinni sérstöðu og hafa ekki tóbak undir nákvæmlega sömu ákvæðum og matvöru og aðra vöru. Þetta eru hugleiðingar mínar um tóbakið og mér finnst það vera tímaskekkja, og það á árinu 2002, að fella tóbakið þarna undir. Við sitjum uppi með þessi ákvæði og verðum að aðlaga okkur þeim.

Ég tel að nokkuð vel hafi verið unnið úr þeirri skyldu okkar að afnema einkaleyfi ÁTVR á innflutningi á tóbaki en ég vil hafa uppi nokkur varnaðarorð því ljóst er og það kemur fram í athugasemdum við frv. að talið er mjög líklegt að umboðsaðilar verði einnig innflytjendur tóbaks og að þeim muni fjölga. Hluti af varnarbaráttu okkar gegn neyslu á tóbaki hefur verið sú staða ÁTVR að geta haft hemil á innflutningi á ódýru tóbaki. Stóru tóbaksrisarnir hafa víða notað þá sölumennsku að koma tóbaki á markað með því að hafa verðið mjög lágt eða allt að því gefa tóbaksbirgðir til að koma ákveðinni vöru á markað. Þar er Marlboro þekktasta dæmið með markaðssetningu fyrir ungmenni þar sem þeir hafa komið vörunni inn á mjög lágu verði. Í þessum frv. er enginn fyrirvari hvað varðar lágmarksverð þannig að ég tel að ÁTVR muni verða að leggja áherslu á að fara eftir skilgreiningu á innihaldi tóbaksins, þ.e. nikótínmagni og tjörumagni og öðru slíku til þess að forðast að hingað á markað flæði tóbak sem er verri vara --- allt er þetta nú óhollt --- en við þekkjum hér á landi í dag með hærra nikótínmagni og meira tjöruinnihaldi. Þar höfum við nokkrar varnir en hvaða varnir eru gegn markaðssetningu á vöru þar sem fyrirtækin eru tilbúin til að taka á sig kostnað til að koma inn á markaðinn með því hreinlega að gefa vöruna? Ég vil koma þessum orðum að í umræðuna því hvergi er getið um lágmarksverð eða einhvers konar viðbúnað gagnvart ódýru tóbaki. Þar sem gert er ráð fyrir að innflytjendum fjölgi harðnar samkeppnin þar með og ódýrt tóbak gæti orðið ákveðin hliðarverkun ef við stöndum ekki vel vaktina hvað varðar fjölda tegunda og að forða því sem dunið hefur yfir aðrar þjóðir, að fá inn á markaðinn mjög ódýrar sígarettur í ákveðinn tíma sem höfða sérstaklega til unglinga og þeirra sem eru að byrja að reykja sem verða svo háðir reykingum. Ákveðin tískufyrirbæri ríkja í unglingamenningu. Marlboro og örugglega fleiri tegundir falla undir þessa skilgreiningu, en þar sem Marlboro er þekktast af þeim nota ég það vöruheiti.

Hvað varðar tóbaksvarnir eiga þær þrátt fyrir þessa lagabreytingu að geta verið svipaðar og í dag. Þetta á ekki að hafa áhrif á merkingar á tóbaki eða möguleika okkar til þess að stunda tóbaksvarnir eins og verið hefur, en ég tel að það séu fleiri að átta sig á því að það er ákveðin fyrirbyggjandi aðgerð að hafa innkaup og umboð á sölu tóbaks á hendi ÁTVR. Það er aðhald í því og það er þá ekki frjáls samkeppni með þessa vöru, sem á alls ekki að flokkast undir venjulega vöru, og með því utanumhaldi eins og kemur fram í frv. mun ríkið fá sömu tekjur af tóbakinu, þ.e. því sem fer þar í gegn og ekki er smyglað, sem alltaf er eitthvað um.

Ég vil nefna það hér að það er víðar tilhneiging en á Íslandi til að selja ríkisfyrirtæki til að fá peninga í kassann. Í Alberta í Kanada var þeirra ÁTVR eða ríkiseinkasala seld og var talið að eftir sem áður kæmu sömu tekjur í kassann af sölu áfengis þó að ríkið væri ekki með söluna en annað hefur sýnt sig. Alberta fær miklu lægri tekjur í dag en áður þannig að það er ekki allt fengið með einkarekstrinum.

Herra forseti. Ég ætlaði aðeins að koma þessum aðvörunarorðum að og af þeirri ástæðu mun ég sitja hjá við afgreiðslu málsins en vona aftur á móti að ÁTVR nái að halda vel utan um þessi mál og halda verðlaginu eins og verið hefur og með því að forða því að við fáum inn á markaðinn tegundir sem mundu ná markaðssetningu með lágu verði.