2004-03-23 17:07:32# 130. lþ. 88.10 fundur 482. mál: #A samningur milli Íslands og Færeyja um fiskveiðar innan íslenskrar og færeyskrar lögsögu# þál., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 88. fundur, 130. lþ.

[17:07]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Út af orðum hv. þm. vil ég taka fram að ég minnist þess ekki að í nál. séu aðferðirnar sem koma fram í skýrslu Hafrannsóknastofnunar teknar upp.

Í skýrslu Hafró kemur hins vegar fram að stofninn sé í mjög slæmu ástandi. Fyrir skömmu lagði ég fram fyrirspurn til sjútvrh. um þróun lúðuveiða síðustu tíu ár. Í svarinu kemur fram, eins og hv. þm. sér ef hann skoðar það, að þar er lúðuveiðin nánast blátt strik niður á við. Veiðar á lúðu minnka ár frá ári.

Ég hef líka aflað mér upplýsinga um það með bréfaskiptum við Fiskistofu hvernig veiðar Færeyinga hafa þróast. Í ljós kemur að þær hafa þróast með nákvæmlega sama hætti. Þó að kvótinn samkvæmt samningnum frá 1976, sem hv. þm. Sólveig Pétursdóttir gat um áðan, minnki ár frá ári hefur Færeyingum ekki tekist að veiða upp í kvótann undanfarin fimm ár a.m.k. Það er það tímabil sem mínar upplýsingar ná til. Veiðar þeirra minnka stöðugt og kvótinn minnkar stöðugt. Það er ekki hægt að draga nema eina ályktun af því, þ.e. að stofninn er að minnka.

Ég er hins vegar sammála hv. þm. um að meðaflinn er erfiðasta vandamálið. Okkur ber hins vegar siðferðileg skylda til að gera allt sem við getum til að verja stofninn. Ég tel siðferðilega óverjandi, á þeim tímum er ljóst er að stofninn er á tiltölulega örri niðurleið, að heimila beinar veiðar úr stofninum. Ég held líka að það sé í bága við alls konar alþjóðlega samninga sem við erum aðilar að. Þetta tel ég nauðsynlegt að komi fram. Mér finnst það mjög skynsamlegt sem í áliti hv. utanrmn. stendur um þetta mál.