2004-03-23 17:15:19# 130. lþ. 88.10 fundur 482. mál: #A samningur milli Íslands og Færeyja um fiskveiðar innan íslenskrar og færeyskrar lögsögu# þál., ÖS
[prenta uppsett í dálka] 88. fundur, 130. lþ.

[17:15]

Össur Skarphéðinsson:

Frú forseti. Ég ætla ekki að ræða frekar um þau mál sem farið hafa á milli mín og hv. þm. Guðjóns A. Kristjánssonar um ástand lúðustofnsins. Ég er ekki að öllu leyti sammála honum og ég er þeirrar skoðunar að hann geri sér ekki grein fyrir alvarleika málsins hvað varðar þá tilteknu tegund en ætla að láta útrætt um það í bili.

Ég vildi aðeins í örfáum orðum segja að ég tel að við Íslendingar eigum að efla samstarf við Færeyinga eins og kostur er á öllum sviðum, sérstaklega er mikilvægt að gera það á sviði sjávarútvegs. Við höfum haft ákaflega mikla nytsemd og mikinn hag af þeim gagnkvæmu samningum um fiskveiðar sem við höfum gert við Færeyinga. Það hefur ekki síst komið í ljós á síðustu árum þegar Íslendingar hafa nánast búið til nýja auðlind í hafinu þar sem er kolmunninn. Kolmunninn var áður vannýtt tegund en nú sækja allir í hann. Við höfum lagt, Íslendingar, og sérstaklega útgerðarfyrirtæki á norðausturhorni landsins, í gríðarlegar fjárfestingar og sýnt mikið áræði við að nýta þennan stofn. Ekki er hægt að nýta hann svo vel sé nema með sérstaklega útbúnum skipum og útgerðir hafa lagt í kostnaðinn sem því fylgir. Fyrir bragðið er verið að sækja núna mjög mikil verðmæti í hafið í formi þessa stofns. Ég er sannfærður um að á næstu árum þegar kraftasókninni linnir og veiðarnar verða ekki með ólympískum hætti eins og núna þar sem áherslan er lögð á að ná sem mestu, mun sjávarútvegurinn einbeita sér að því að vinna þessa tegund til manneldis. Ekki má gleyma því að kolmunninn er þorskur, að vísu mjög smávaxinn þorskfiskur en hann verður án efa nýttur og unninn til manneldis í ríkari mæli í framtíðinni en núna er gert. Nú þegar eru íslensk fyrirtæki farin að flytja út frystan kolmunna til svæða þar sem vinnuafl er miklu ódýrara en hér til þess að vinna hann og selja síðan inn á markaði þar sem verðið er miklu hærra en menn fá fyrir bræðslu.

Ég tel að sá samningur sem gerður var í fyrra sé að öllu leyti góður nema einu og það varðar lúðuna. Það er af ástæðum sem ég hef þegar rakið. Ég tel að ábending utanrmn. sé fyllilega réttmæt og sýni varfærna nálgun málsins. Fram hefur komið að Hafrannsóknastofnun hefur beinlínis ráðið frá veiðum á lúðu. Nú veit ég ekki með hvaða hætti hægt er að takmarka þær með öðrum aðferðum en stofnunin hefur gert. Hitt er alveg ljóst að þarna finnst mér að utanrmn. hafa staðið vel að verki.

Í þessum samningi eru nýmæli. Þar er gert ráð fyrir gagnkvæmum veiðiheimildum Færeyinga og Íslendinga á túnfiski innan lögsagna þjóðanna beggja. Túnfiskur er ein af þeim tegundum sem við höfum verið að fikra okkur til að veiða og vinna. Við höfum haft uppi hugvitssamlegt samstarf við Japani, sem hefur ekki kostað okkur mikið, varðandi rannsóknir á veiðum og útbreiðslu bláuggatúnfisks sem gengur annað slagið inn í lögsöguna. Það hefur verið ákaflega dýrmæt reynsla. Hún hefur bent til þess að hugsanlega kunni að vera farsælt fyrir þá Íslendinga sem vilja stunda túnfiskveiðar að geta sótt inn í lögsögu Færeyja. Það er þess vegna mjög gott að þetta ákvæði skuli vera í samningnum.

Sömuleiðis er að finna ákvæði um makrílveiðar. Samningurinn færir okkur Íslendingum heimildir til að veiða 1.300 tonn af makríl. Það er kannski fulllítið til þess að hægt sé fyrir útgerðir að sérhæfa sig og einbeita sér að makrílveiðum og ég tel, og vil að það komi hér fram í máli mínu, að á næstu árum eigi hæstv. sjútvrh. að reyna að kanna hvort það sé mögulegt fyrir okkur að fá meiri veiðiheimildir í makríl en áður var. Þetta er of lítið til þess að sérhæfðar veiðar standi sérstaklega undir þeirri sókn sem nemur ekki nema 1.300 tonnum.

Ég vil síðan segja um þennan samning eins og aðra samninga um fiskveiðar sem hér liggja fyrir að það er auðvitað með ólíkindum að hæstv. utanrrh. skuli sýna það sleifarlag að leggja ekki þessa samninga fyrir þingið við fyrsta tækifæri. Fræðilega hefði hann getað lagt þennan samning fyrir vorþingið en ég geri ekki athugasemdir við að það hafi ekki verið gert. Hins vegar er það ekki verjandi að svona samningur skuli ekki vera tekinn til umræðu í þinginu við fyrsta tækifæri, þ.e. í haust. Það var ekki gert. Ég veit ekki hvers konar vinnubrögð valda þessu en það er ljóst að ekki er verið að leita eftir afstöðu þingsins nema sem einhvers konar formlegum stimpli, en það er ekki hlutverk þingsins að veita slíka afgreiðslu. Við erum hér að ræða þetta málefnalega.

Það er alveg hárrétt sem hv. þm. Magnús Þór Hafsteinsson sagði áðan að það er með ólíkindum að búið sé að gera nýjan samning fyrir næsta ár áður en afgreiðslu þessa samnings er lokið. Það stappar nærri ósvífni af hálfu ríkisstjórnarinnar að gera slíkt og undirstrikar það að skoðanir Alþingis eru einskis metnar. Og ef það er svo að utanrmn. hafi að ófyrirsynju beint þeim ráðleggingum til hæstv. sjútvrh. að hann takmarki eða leggi af að veita kvóta í þá tegund sem við höfum rætt um, þ.e. lúðuna, þá finnst mér það ótrúlegt. Mér finnst það varla tímans virði að við séum að ómaka okkur og niðurlægja þingið með því að ræða um samninga þegar það er alveg ljóst að ekkert er hlustað á það. Ég vil þó bíða með að kveða upp einhvern stóradóm þangað til ljóst er hvort þetta sé svona.

Ég vil líka að það komi fram að þó að ég hafi verið hvatamaður að þeim takmörkunum í samningnum sem tengjast lúðuveiðum er ég þeirrar skoðunar að Íslendingar eigi að gera allt sem þeir geta til þess að styðja gott samstarf við Færeyinga og eigi ekki að skera við nögl þann aðgang og þær heimildir sem þeir veita Færeyingum.

Ég segi líka að það var eitt af þeim verkum sem ég tók þátt í í ríkisstjórn sem ég var hvað stoltastur af á þeim tíma þegar Færeyingar áttu í krappri neyð í byrjun síðasta áratugar --- og Íslendingar voru svo sem ekkert sérlega vel staddir þá eftir að við höfðum neyðst til þess að skera niður okkar eigin veiðiheimildir til þess að vernda stofna í kjölfar kolsvartrar skýrslu sem þá kom fram --- að við skárum ekki niður þær heimildir sem við veittum Færeyingum. Það borgar sig alltaf að vera góður við granna sína og vera góður við ættingja sína. Við höfum alltaf lagt ríkt kapp á að styðja Færeyinga í öllu. Og eins og kom fram hjá þeim þingmönnum sem hér hafa talað má segja að þeir hafi endurgoldið það margfalt með þeirri aðstoð sem þeir veittu okkur á síðustu árum varðandi nytjar á kolmunnastofninum. Ég ímynda mér að það hafi verið margföld greiðsla á við það sem þeir hafa áður fengið frá okkur.

Það var líka ljóst hér á árum fyrri þegar við hófum aftur veiðar í norsk-íslenska síldarstofninum að vinátta og stuðningur Færeyinga og liðsemd þeirra og greiðvikni varðandi veiðar þá og þeir möguleikar sem þeir hafa veitt okkur til þess að taka hlutdeild okkar í þeim stofni innan færeyskrar lögsögu, er ómetanleg.

Ég segi þetta, frú forseti, vegna þess að ég tel, þó að það komi ekki fram í nefndarálitinu, að íslensk stjórnvöld eigi, þegar að því kemur sem hlýtur að verða að þau skera niður þessa heimild til lúðuveiða, að bæta þeim það upp með einhvers konar öðrum ívilnunum. Við eigum ekki að vera nánasir þegar kemur að því að vinna með þessum góðu grönnum og þegar kemur að því að efla samstarf við þá. Það hefur alltaf borgað sig og það á eftir að borga sig enn betur. Það er vel hugsanlegt að göngur norsk-íslenska síldarstofnsins breytist með breyttu hitafari í sjónum og það er vel hugsanlegt að við komumst upp á lag með að nýta túnfisk í ríkari mæli en núna og það er vel hugsanlegt að við eigum fyrir höndum einhverja framtíð í veiðum á makríl. Allar þessar nytjar eru háðar góðu samstarfi við Færeyjar.

Því fagna ég þessum samningi en ég átel það harðlega að hann skuli lagður svona seint fyrir þingið og mér finnst skelfilegt að heyra að búið sé að gera nýjan samning við Færeyinga án þess að hæstv. ráðherra hafi einu sinni fyrir því að kynna sér hvað þingmenn hafi að segja við endanlega afgreiðslu málsins í þinginu.